Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Þöggunartilraunir Sjálfstæðisflokksins á einkavinavæðingu bankanna

Þær fregnir hafa borist að Sjálfstæðismenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis vilja koma í veg fyrir það að Ólafur Ólafsson svari spurningum og tali upphátt í viðveru fjölmiðla og beinnar útsendingar til almennings.

Þeir vilja að aðeins nefndarmenn fái að heyra hvað hann hefur að segja og þarmeð viðhalda hans eigin orðum í lítilli, lokaðri grúbbu þar sem hægt er að stýra hvaða upplýsingar fjölmiðlar og almenningur fá að vita.

Hver er ástæðan?

Hún er frekar augljós.

Einkavinavæðing bankanna og sérstaklega þá Landsbankans.

Frá því að sú svívirða átti sér stað þá hafa Sjálfstæðismenn hamast gegn því að þessi einkavinavæðing verði rannsökuð og upplýst til fulls.

Skrímsladeildin þeirra réðst harkalega gegn Sigríði Dögg Auðunsdóttir fyrir að skrifa greinaflokk um einkavinavæðinguna og hamaðist við að reyna að gera lítið úr henni og beina athyglinni frá innihaldinu.

Það var eiginlega meginregla svo fram að Hruni að hver málsmetandi maður sem dirfðist að minnast á þessa svívirðu mátti sæta persónuárásum frá kommisörum Sjálfstæðisflokksins og kallaður „Baugspenni“, sagður vera með „annarlegar hvatir“ og margt fleira í þeim dúr því það mátti ekki ræða þetta líkt og svo marga aðra svívirðu Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina.

Inn í þessi mál kom svo ljóstýra eftir Hrun inn í myrkrið sem huldi einkavinavæðingu bankanna þegar skýrsla Rannsóknanefndar alþingis kom út. Sú skýrsla sagði okkur m.a. frá því að þetta hefði aldrei verið nein erlend fjárfesting sem Björgólfsfeðgar komu með heldur hefðu Landsbankamenn fengið lán fyrir kaupum á Landsbankanum í Búnaðarbankanum og öfugt. Talsvert fleira kom fram þar en þegar sú skýrsla hætti að flækjast fyrir Sjálfstæðisflokknum þá hóf hann upptekna iðju sína að nýju við að koma leyndarhjúpnum aftur á. Við höfum t.d. ekki enn fengið að heyra símtalið þeirra Geirs og Davíðs sem kostaði þjóðina gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans og er ein af ástæðunum fyrir skuldum þjóðarbúsins sem eru notaðar til að réttlæta stöðugan niðurskurð í velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi í átt til einkavinavæðingar að hætti bankanna.

Svokallað háttvirt alþingi samþykkti svo að hefja rannsókn á einkavinavæðingu bankanna þann 7. Nóvember 2012. Í stað þess að skipa rannsóknanefnd þá dróst það svo úr hófi fram að kosningar urðu í millitíðinni og forseti alþingis sem skipaður var af Sjálfstæðisflokknum stakk þessari ákvörðun ofan í skúffu, henti lyklinum og þæfði málið eins og hann gat.

Ef ekki hefði komið til atbeina umboðsmanns alþingis sem fékk í hendurnar upplýsingar um þátt þýska bankans í einkavinavæðingu Búnaðarbankans þá hefði aldrei farið af stað rannsókn á þessum eina afmarkaða þætti enda var alþingi eiginlega nauðbeygt til að fara í verkið vegna opinberrar umfjöllunar og sem tilraun til að bæta ímynd stjórnmálanna eftir Panamaskjölin enda kosningar í vændum. Manni rámar reyndar í að það hafi komið upp sú tillaga að nýta tækifærið og rannsaka alla einkavinavæðingu bankanna í leiðinni en það hafi verið snarlega stoppað af af hálfu meirihluta alþingis.

Síðan niðurstöður þeirra rannsóknar varð ljós um svikamyllurnar þá hefur krafan um rannsókn á einkavinavæðingu bankanna blossað upp að nýju en andstaðan hefur hvað verið mest og sýnilegust frá Sjálfstæðisflokknum. Brynjar Níelsson hefur staðið þar fremstur í flokki og aðrir Sjálfstæðismenn hafa augljóslega fylgt þeirri samræmdu línu Valhallar að „það þurfi nýjar upplýsingar til rannsóknar“. Samt er augljóst að nýjar upplýsingar fást ekki nema að einhver hefji rannsókn eða leki gögnum sérstaklega til umboðsmanns alþingis. Þannig er þessari línu ætlað að koma í veg fyrir að sannleikurinn hver sem hann er, komist vonandi allur upp á yfirborðið um það sem gekk á við einkavinavæðingu bankanna og spillinguna á bak við sem fékk m.a. einn nefndarmann einkavinavæðingarnefndar til að segja af sér vegna þess að honum blöskraði athæfið.

Þegar svo Ólafur Ólafsson tilkynnti það að hann vildi koma til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir að skýrslan um þýska bankann var birt þá var ekki laust við það að manni finndist það ansi hrokafullt og seint í rassinn gripið að fara að svara spurningum eftir að skýrslan var komin út. Manni yfirsást það nefnilega að Ólafur segist ætla að leggja fram nýjar upplýsingar og það sem hefur nú gerst í kjölfarið er að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggjast á móti því að fundurinn verði opinn og gegnsær til fjölmiðla og almennings. Það er samt ekki bara það eina heldur hefur annar þessara þingmanna, Brynjar Níelsson, haft sérstaklega samband við Ólaf Ólafsson í tveggja manna tali til að kanna hvenær og hvaða upplýsingar hann ætlar að leggja fram og það þrátt fyrir að hafa þurft að víkja frá málinu vegna hagsmunatengsla sem verjandi eins Kaupþingsmanna. Slíkt er svo óviðeigandi svo maður taki vægt til orða enda virkar þetta á mann líka eins og hugsanleg tilraun til að hafa áhrif á hvað Ólafur Ólafsson eigi að segja þinginu.

Maður getur vart dregið aðra ályktun en að það sé mikill skjálfti á æðstu stöðum Sjálfstæðisflokksins um hvað Ólafur ætli að opinbera og þessvegna sé verið að reyna að koma þessum leyndarhjúp yfir nefndarfund með Ólafi. Ólafur situr nefnilega uppi með alla sökina eftir Búnaðarbanka-skýrsluna og manni finnst mjög líklegt að hann ætli ekki að una við það að vera blóraböggull alls enda var hann ekkert einn að verki. Sjálfstæðismenn virðast því óttast að hann rjúfi „omerta“ fyrir framan alþjóð og setji fram upplýsingar sem tækju þeirra helstu hetjur, kommisara og jafnvel núverandi forystumenn með sér í fallið. Þessvegna vilja þeir ekki rannsókn og opinberanir á því hvað gerðist þegar bankarnir voru einkavinavæddir.

Sannleikurinn er greinilega of hættulegur Sjálfstæðisflokknum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni