Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þöggun Þjóðhátíðarbrota

Í myndinni Child 44 sem nýverið var sýnd í kvikmyndahúsum er samfélagi lýst þar sem morð eru ekki framin enda hafa yfirvöld skilgreint að slíkt sé ekki til. Samfélagið sem um ræðir hét Sovétríkin og átti að vera fyrirmyndaríki þar sem allir eru hamingjusamir í augum umheimsins.

Í Vestmanneyjum hafa yfirvöld ákveðið að það eigi ekki að upplýsa um kynferðisbrot á Þjóðhátíð Vestmanneyinga við fjölmiðla og fjarlægja þannig neikvæðar fréttir út úr opinberri umræðu um hátíðina þar sem allir skemmtu sér stórkostlega í augum þeirra sem heima sáttu eða fóru annað.

Þó þetta sé að ýmsu leyti ólík dæmi í samanburði þá er í báðum tilfellum um að ræða það sem lítur út fyrir að vera sami hugsunarhátturinn hjá yfirvaldinu: þagga niður neikvæða hluti til að vernda ímyndir, annarsvegar fyrirmyndaríkis Sovétsins og hinsvegar markaðsvörunnar Þjóðhátíð í Eyjum sem veltir hundruðum milljóna í miðasölu, veitingasölu og fleira sem skilar sér í kassann fyrir Eyjaskeggja.

Umræða um kynferðisbrot á þjóðhátíð í Eyjum hefur lengi verið talsvert óþægilegur þyrnir í augum aðstandenda hátíðarinnar allt frá því að Stígamót birtu óþægilegar tölur um kynferðisbrot á hátíðinni með þeim afleiðngum að Stígamótum var úthýst í hefndarskyni. Slíkar tölur um kynferðisbrot og umræða um þau á þjóðhátíð hafa og/eða geta haft neikvæð áhrif á miðasölu árið eftir en það er stór tekjulind íþróttafélaga bæjarins og dágóð innspýting inn í aðra starfsemi innan bæjarfélagsins. Þó hefur þróunin verið sú að vegna gagnrýni í opinberri umræðu eftir að lögregla hefur upplýst um brot á þjóðhátíð í Eyjum hvort sem um hefur verið að ræða kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot þá hafa aðstandendur neyðst til þess að viðurkenna að pottur hefur verið brotin í ýmsum málum hjá þeim. Það virðist hafa skilað því að sett hefur verið meira fé í aðgerðir af hálfu aðstandenda til að reyna að stemma stigu við ofbeldi hverskonar sem er jákvætt þó enn sem áður séu Stígamót ekki velkomin til Eyja fyrir að hafa sagt frá neikvæðum hliðum markaðsvörunnar.

Nú var svo áður að fyrrum lögreglustjóri og lögregla á svæðinu gáfu upp við fjölmiðla eftir hverja Þjóðhátíð um fjölda brota sem framin höfðu verið hvort sem um var að ræða ofbeldi, kynferðisbrot eða annað líkt og aðrar tölur. Hin nýi lögreglustjóri sem kemur beint úr bæjarmálapólitíkinni í Vestmanneyjum þar sem hún var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að annar háttur verði á núna: : ekki skal talað um kynferðisbrot á hátíðinni þar sem það getur verið þungbært þolendum en ekkert kemur fram í máli hennar um hvort það sama eigi að gildi um önnur ofbeldisverk eða aðra glæpi á hátíðinni.

Samt hefur hún haft annan hátt um aðrar helgar ársins líkt og sést best í fréttum af kynferðisbroti þá helgi sem Goslokahátíð var haldin í Eyjum fyrr á árinu en í framhaldsfrétt hjá Vísi  þann 6. júlí má sjá skýrt að lögregluembættið birti upplýsingar um brotið á Fésbókarsíðu sinni i. Það er á skjön við orð lögreglustjórans í Reykjavík síðdegis um að lögreglan sendi ekki út alla jafna tilkynningar um kynferðisbrot eða nauðganir hvort sem um sé að ræða þjóðhátíð eða annan tíma árs. Þess til viðbótar ber hún  því við að fjölmiðlar og almenningur fái vitneskju um kynferðisbrotamál þegar ákærur hafa verið gefnar út, nokkuð sem virkar dapurlega sem röksemd í ljósi þess að tiltölulega fá mál ná að fara svo langt innan kerfis sem þykir fjandsamlegt þolendum kynferðisbrota.

Öll þessi tvískinnungslega meðhöndlun rennir því styrkari stoðum undir það að yfirvald lögreglunnar í Eyjum sé fyrst og fremst að reyna að vernda ímynd bissnessinn sem þjóðhátíð er og tryggja að ekki verði neikvæðar fjárhagslegar afleðingar í framtíðinni vegna neikvæðrar umræðu og gagnrýni. Í ljósi þess hvernig umræða um kynferðisbrot hefur opnast hér á landi þá er nánast öruggt að ef um fjölda slíkra mála yrði að ræða að það yrði fjallað um það á opinberum vettvangi í fjölmiðlum og hugleitt hvað hefði breyst frá árinu í fyrra þegar engin brot komu upp á þjóðhátíð. Sú umfjöllun myndi færast strax yfir á samskiptamiðla þar sem yfirvaldið í Eyjum og aðrir hagsmunagæsluaðilar geta lítið stjórnað umræðu eða gagnrýni sem er slæm fyrir þennan bissness Eyjaskeggja sem hefur þótt þessi umræða erfið líkt og yfirlögregluþjónninn í Eyjum segir í fyrrnefndri frétt um kynferðisbrot á Goslokahátíð..

Það hefði því verið betra fyrir lögreglustjórann að taka sér Brody lögreglustjóra úr myndinni Jaws til fyrirmyndar og reyna að sjá til þess að aðrir vissu af hákarlaárás i von um að slíkt kæmi ekki fyrir aftur í stað þess að taka þátt í því að þagga hlutina niður til að tryggja að peningarnir héldu áfram að streyma inn.

Við munum væntanlega flest öll hvernig það fór i Jaws þegar bæjarstjórnin og peningaöflin létu fjárhagslega hagsmuni ráða.

Hákarlinn kom aftur og át þjóðhátíðargest.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu