Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fall Bjartrar Framtíðar

Manni finnst eins og aðstandendur Bjartrar Framtíðar skilji ekki almennilega af hverju flokkurinn hefur hrunið í fylgi.

Hvað þá geti komið orðum að því innan frá líkt og gagnrýni eins stofnanda BF bendir til er hún segir að vandinn sé formannsins og þeirra sem starfa innan flokksins án þess að segja það berum orðum hvert vandamálið sé.

Né að þau geti hlerað gagnrýni og skilið óánægju utan frá líkt og athugasemdir forsvarsmanna um að fólk skilji ekki flokkinn sem standi fyrir nýrri pólitík.

Þar sést reyndar eitt vandamálið í þeirri athugasemd.

Fólk getur nefnilega ekki skilið það sem það sér ekki því það ber lítið á flokknum bæði inn á þingi sem utan. Það eina sem fólk getur munað að hafa orðið var við eru frumvörp um að færa frídaga að helgi eða breyta klukkunni sem eru bæði nokkurskonar hversdagsþras sem skipta fæsta máli í átakalausu góðæri. Skynsamlegast væri þo að bæta við frídögum frekar en að færa þá til í ljósi þess að við vinnum alltof mikið svo maður komi með smá athugasemd varðandi annað málið.

Í flestum öðrum málum þá heldur Björt Framtíð sig til hlés, virðist skoðanalítið og áhugalaust, hvað þá að það votti fyrir frumkvæði til að geysast af stað í harða baráttu um grundvallarmál sem vekja athygli. Meira að segja í aðdraganda kosninga til þings og sveitastjórna man maður ekki eftir því að hafa orðið var við flokkinn að standa í kosningabaráttu.

Maður sér því aldrei hina nýju pólitík sem virðist hafa gufað upp eins og íkorni sem sá hnetu rúlla niður fjall né hefur nokkur maður fengið tilfinningu fyrir því hvað hún gengur út á.

Fólk hefur því frekar fengið þá tilfinningu að fólk þarna vilji vera hin nýi Framsóknarflokkur sem geti hjúfrað sig upp að hverjum sem er, sérstaklega Sjálfstæðisflokknum sem sagan ætti að kenna að er eins og versti mögulegi kynsjúkdómur fyrir fylgi samstarfsflokka hans. Það er heldur ekki beint gott fyrir ímynd flokks sem talar fyrir frjálslyndi, lýðræði, betra mennta- og heilbrigðiskerfi, mannréttindum, stjórnkerfisumbótum og gegn spillingu að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokknum enda hefur reynslan sýnt að slíkt er andstætt stefnu og verkum Sjálfstæðisflokksins.

Þar komum við nefnilega að einu atriðinu sem spilar inn í fylgishrun Bjartrar Framtíðar.

Nýleg ummæli formannsins um að Björt Framtíð eigi helst samleið með Sjálfstæðisflokknum í málefnum voru örugglega að vinna flokknum mikið gagn.

Það er nefnilega öruggt að kjósendur Bjartrar Framtíðar hafi einmitt viljað fá nýjan Sjálfstæðisflokk sem væri til í það að einkavinavæða allt draslið, til í það að eyðileggja mennta- og heilbrigðiskerfið í átt til ójöfnuðar og stéttskipts miðaldarþjóðfélags, væri á móti nýrri stjórnarskrá, berðist fyirr yfirráðum fárra auðmanna yfir auðlindum þjóðarinnar, vildi halda í helmingaskiptakerfið, aðhylltist auðhyggju og allt það sem fylgir frjálshyggjunni.

NOT!

Bless, nokkur prósent kjósenda!

Slíkur flokkur er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og það er ekki rúm á markaðnum fyrir tvo slíka.

Enda jafnvel þó að Björt Framtíð innihaldi sumpart ágætan mannskap sem vill örugglega vel þá eru svona daður við dólgafrjálshyggjunna ávísun á fylgishrun og að endingu líklegasti banabita flokksins sem verður minnst sem dapurlegrar fortíðar úr kjörkössum.

En einnig verður Bjartrar Framtíðar minnst sem stjórnmálaafls sem hóf feril sinn á því að slátra nýrri stjórnarskrá og fara í hrossakaup inn á þingi með þeim sem vildu koma í veg fyrir nýjan samfélagssáttmála milli þjóðar og þings.

Það upphaf er sorglegur vitnisburður um hina nýju pólitík sem formaður Bjartrar Framtíðar er sífellt að tala um auk þess sem að í því upphaf hófst fallið.

Og að endingu verður það líklegast hluti af grafskrift flokksins.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni