Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Harmakvein Rannveigar

Rannveig Rist segir harmþrungin að álverið í Straumsvík tapi dags daglega og allt sé á heljarþröm.

Því þurfi starfsmenn að sætta sig við brauðmola sem falla til og draga til baka launakröfur um mannsæmandi laun.

Starfsmenn á gólfinu eiga semsagt að axla ábyrgð á slæmum rekstri álversins.

Ef álverið er á svo mikilli heljarþröm er þá ekki best að stjórn og stjórnendur gangi fram með góðu fordæmi?

Árslaun Rannveigar kosta t.d. fyrirtækið nálægt 100 milljónir krónna og ætti því að vera vel hægt að spara þar með því að lækka þau um 50-75%.

Svo í framhaldi væri það þjóðráð að lækka laun annarra æðstu stjórnenda svipað, skera niður risnu, utanlandsferðir stjórnenda og fleira slíkt sem étur upp peninga fyrirtækisins. Best væri þó að færa laun stjórnenda niður að launum þeirra sem sjá um alla vinnuna á gólfinu og sýna það í verki að þar væri „stétt með stétt“ líkt og jakkafataklæddir dekurdrengir yfirstéttarinnar þylja saman í kór á tyllidögum.

Hver veit kannski gæti fyrirtækið sparað þar nokkur hundruð milljónir í rekstri og stjórnendur þar myndu sýna að þeir öxluðu eigin ábyrgð á slæmum rekstri í stað þess að velta ábyrgðinni á hið almenna starfsfólk.

Ef það gengur ekki þá gæti fyrirtækið einfaldlega skipt um stjórnendur og ráðið nýtt, hæft fólk á lægri launum enda eru stjórnendur „a dime a dozen“ eins og engilsaxneskir segja.

Slíkt myndi gefa gott fordæmi til annarra fyrirtækja innan Samtaka Atvinnulífsins þar sem sparað er með því að hækka laun stjórnenda og reka ræstingarkonurnar sem hafa horft hungraðar á brauðmolanna sem Samtök Atvinnulífsins éta frekar en að skammta þeim af allsgnægtarborðinu.

En ætli það gerist nokkuð.

Það yrði nefnnilega stílbrot við græðgina.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu