Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Stjórnmálaafskipti Arion-banka í þágu Ísraela: Opið bréf til bankastjóra Arion-banka

Komdu sæll Höskuldur Ólafsson,

það kom mér örlítið á óvart sem viðskiptavinur Arion-banka að hann væri farinn að hafa bein afskipti af stjórnmálum þrátt fyrir hrikalega sögu Hrunsins um hvaða afleiðingar slíka afskipti bankamanna hefur haft....eða kannski ekki þegar maður hugsar til þess að sami hugsunarhátturinn og fyrir Hrun er byrjaður að láta sjá sig af krafti aftur hjá ykkur bankamönnunum.

Það sem þó kom mér á óvart var að bankinn væri búinn að koma sér upp utanríkisstefnu og væri samþykkur landráni, mannréttindabrotum og stríðsglæpum sem Ísraelar hafa framið á hernumdu svæðunum. Allavega er það eina niðurstaðan sem siðuð manneskja getur fengið út úr því athæfi sem þú stóðst fyrir þ.e. að senda bréf þar sem þú beittir þrýstingi í nafni bankans um að borgin myndi ekki sniðganga ísraelskar vörur af hermundu svæðunum þrátt fyrir eyðilegginguna, kúgunina og manndrápin sem hafa átt sér og eiga sér stað sbr. árásir Ísraela í fyrra á Gaza þar sem þeir sprengdu upp skóla og sjúkrahús með tilheyrandi dauðdaga fjölda saklausra borgara og barna. Þá varð ekki vart við að þú í nafni bankans hefðir beitt þér fyrir eða þrýst á íslensk stjórnvöld um að grípa til fordæmingar eða refsiaðgerða gagnvart ísraelska ríkinu fyrir þau illvirki sem áttu sér stað. Um leið styrkir það þá niðurstöðu að bankinn styðji leynt og ljóst nú við hernám og glæpi Ísraela.

Nú er þetta nokkuð sem ætti að vera upp á borðum af hálfu bankans þ.e. stjórnmálastefna hans í innanríkis- og utanríkismálum fyrst bankinn er farinn að stunda stjórnmál. Við sem erum viðskiptavinir bankans eigum heimtingu á því að aðgengilegt sé á heimasíðu bankans skýr stefna svo við getum þá tekið ákvörðun um að kjósa viðskipti við bankann líkt og við gerum í sveitastjórnar- og borgarstjórnarkosningum. Þó maður gæti freistast til þess að halda að bankinn sé með svipaðar áherslur og Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum(ég er samt ekki að segja að þú sért eins og Donald Trump) vegna stuðningsins við stríðsglæpi Ísraels á hermundu svæðunum þá væri samt gott að fá hreint hin ýmsu málefni úr stjórnmálastefnu bankans sem hægt væri að birta á heimasíðu bankans. Mér dettur sjálfum nokkrir hlutir í hug:

Hefur Arion-banki átt þátt í að fjármagna loftárásir Ísraelsmanna á Gaza og hversu mikill var fjárhagslegur stuðningur Arion-banka við hernaðinn þar í fyrra?

Er rekinn Apartheid-stefna innan bankans eins og Ísrael?

Af hverju hatar Arion-banki Palestínumenn? Er það vegna þess að þeir eru múslimar?

Tók Arion-banki þátt í kosningaherferð Framsóknarflokksins gegn múslimum í síðustu borgarstjórnarkosningum eða hefur verið að berjast á móti mosku og múslimum á annan hátt?

Hver er afstaða Arion-banka til Guantanamo-fangabúðanna og hefur bankinn beitt íslensk stjórnvöld þrýstingi vegna þeirra?

Styður Arion-banki Pútín?

Hvaða stjórnmálamenn eru í sérstöku eftirlæti hjá Arion-banka?

Hver er afstaða Arion-banka gagnvart fóstureyðingum?

Hvort vill Arion-banki þjóðkirkju eða aðskilnað ríkis og kirkju?

Er Arion-banki trúað fyrirtæki þ.e. tekur ákvarðanir út frá trúarbrögðum eigenda og þá á ég ekki við Mammon, guð gráðugra bankamanna? Eru annars bænastundir á morgnana hjá ykkur?

Hvort aðhyllist Arion-banki þróunarkenninguna eða hönnuðarkenninguna þ.e. það sem kallast „intelligent design“?

Aðhyllist Arion-banki harða innflytjendastefnu í anda frambjóðenda Repúblikanaflokksins og vill hann að flóttamönnum sem og hælisleitendum verði meinuð koma til lands og til Evrópu yfirhöfuð?

Hver er stefna Arion-banka í stjórnarskrármálinu og aðhyllist bankinn beint lýðræði?

Af hverju er bankinn ekki með kosningar um bankastjóra og uppröðun stjórnenda líkt og er gert í öðrum stjórnmálaöflum?

Í ljósi þess að bankinn styður mannréttindabrot Ísraela gagnvart Palestínumönnum, af hverju er ekkert talað um það á heimasíðu bankans hver sé afstaða hans í mannréttindamálum yfirhöfuð?

Mun bankinn berjast fyrir ókeypis strætósamgöngum og bættri ferðaþjónustu fatlaðra þegar hann býður sig fram í næstu sveitarstjórnarkosningum?

Og svo að lokum ein skemmtileg Voight-Kampf spurning(þeir vita sem þekkja það) handa þér sem hugsanlegum frambjóðenda framboðslista Arion-banka í næstu kosningum:

Þú ert á gangi í eyðimörk þegar þú lítur niður og sérð skjaldböku skríða í átt að þér. Þú beygir þig niður og snýrð henni skyndilega við þannig að hún spriklar hjálparlaust. Þú horfir á hana spriklandi í örvæntingu sinni að reyna að snúa sér við svo hún stikni ekki í eyðimerkursólinni en hún getur það ekki án þinnar hjálpar. Samt hjálparðu ekki, hversvegna er það?

Nóg um það.

Ef aftur á móti bankinn er ekki með pólitíska stefnu þá átt þú sem bankastjóri ekki að reyna að vera að þrýsta á stjórnmálamenn  í nafni bankans né aðrir innan bankans. Fyrirtæki og sérstaklega ekki fjármálafyrirtæki í ljósi skaðans sem þau hafa valdið Íslandi, íslenskum almenningi og umheiminum, eiga ekki að vera að hafa afskipti af stjórnmálum né hafa rétt á því að beita sér gegn mannréttindabaráttu líkt og Arion-banki varð uppvís að með þessu bréfi þínu enda eru fyrirtæki dauð fyrirbæri en ekki manneskjur og hafa því ekki stjórnmálaskoðanir. Bankar eru þó kannski meira lifandi dauðir í anda Drakúla greifa enda finnst almenningi almennt þeir vera blóðsugur sem veiða hina lifandi til að geta mergsogið með vöxtum úr þeim allt líf.

Ef aftur á móti þetta var frumhlaup af þinni hálfu en ekki hluti af stjórnmálastefnu bankans þá átt þú að biðja viðskiptavini bankans, starfsmenn, stjórn og eigendur afsökunar opinberlega. Um leið ættir þú að íhuga stöðu þína og jafnvel segja þig frá frekari störfum á vegum bankans því þessi pólitísku afskipti þín bera þess merki að þú kunnir ekki að fara með þau völd sem þér hafa verið falin. Ef aftur á móti þú sérð ekkert rangt við þetta og finnst þessi pólitísku afskipti þín í nafni bankans vera hið besta mál þá vonandi verðurðu látinn taka Hagkaupspoka þinn með þér út um dyrnar og einnig með þá áminningu að þessi þrýstingur þinn í þágu Apartheid-stefnu Ísraels gerði þig sem og bankann samsekan drápi hermanna á átján ára stúlku á Hebron í dag.

með kveðju frá ekki sérstaklega merkilegum viðskiptavini,

Agnar Kristján Þorsteinsson

P.S. Verða ekki örugglega framkvæmd opinberlega Voight-Kampff próf á öllum starfsmönnum Arion-banka og þér meðtöldum eða myndirðu tækla slíkt eins og rannsóknir Hönnu Birnu sjálfrar á lekanum úr innanríkisráðuneytinu?

P.S.S. Ef þú þekkir þetta próf ekki, hafðu samband þá við Fjármálaeftirlitið og óskaði eftir sama prófi og úr myndinni Blade Runner.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni