Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Goodfellas-fílingurinn á Kvíabryggju

Það hafa komið einkennilegar fréttir frá Kvíabryggju eftir Kaupþingskónum var loksins komið þangað inn.

Það hefur verið sagt að þeir berist á, gefi „hærra settum“ föngum matargjafir, fái sjálfir mun betra fæði og hafi látið innrétta herbergi sín með húsbúnaði að sínum hætti.

Það hafa komið fregnir af því að einhverjir fangar hafi farið fram á rauðvín með matnum.

Það hefur frést að hinir stöndugu fangar á Kvíabryggju hafi ætlað sér að fara á rándýrt reiðnámskeið á vegum Landbúnaðarháskólans.

Það hefur komið fram að vel stæðu fangarnir hafi ráðið sér almannatenglafyrirtæki til að sjá um tilsvör vegna fregna um rauðvínsblætið sem hafi verið eignað þeim.

Að auki hefur komið fram að einn af helstu gerendum bankahrunsins sem var í stórviðskiptum við Kaupþing, hafi fundað tvisvar með Kaupþingskónum á Kvíabryggju. Þetta hafi gerst þrátt fyrir að sá sé  á sakamannabekk og til rannsóknar vegna fjármálaglæpa.http://stundin.is/frett/osattir-vid-heimsoknir-jons-asgeirs-kviabryggju/

Alltaf þurfa svo fangelsismálayfirvöld að koma í kjölfarið og segja að það gildi engin sérmeðferð um þá frekar en aðra fanga.

Nú má vel vera að slíkt sé satt og rétt en þegar fjöldi svona fregna birtast og það ekki í sama miðli, þá fá flestir þá tilfinningu um að banksterar landsins fái silkihanskameðferð og að líferni þeirra sé sambærilegt á við það sem maður t.d. sá í myndinni Goodfellas þegar svipuðum mafíuforingum var stungið í steinni.

Þá fengu þeir hið fínasta fæði, rúmt um sig, góðan húsbúnað og fleira sem hinum venjulega fanga bauðst ekki.

Slíkt vekur upp reiði meðal fólks og enn meiri óréttlætistilfinningu yfir því hversu vægt banksterar sleppa frá hermdarverkum sínum ólíkt því fólki sem hefur þurft að taka á sig byrðar bankanna í gegnum atvinnuleysi, verri efnahag og eignamissi.

Manni finnst því eiginlega þörf á því að það fari fram einhver óháð úttekt á því sem er í gangi til að athuga hvort jafnræðis sé gætt eða hvort verið sé að blasta Frank Sinatra yfir gourmet-fæði hinna íslensku Goodfellas.

Og ef þetta reynist rétt allt saman þá þarf að bregðast hart við.

Það væri t.d. hægt að henda þeim inn á Hraunið sem þeir eiga frekar heima á og ef það vantar pláss þá mætti færa t.d. greindaskerta hollenska burðardýrið í mannúðlegri aðstæður.

Klefinn hans ætti hæglega að vera nægilega góður fyrir Sigga og/eða Hreiðar næstu árin.

Án almannatengla og sérmeðferðar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni