Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Traustleysið á byssuvæddri lögreglu

Líkt og margir aðrir þá er ég með klofna afstöðu þegar kemur að því að trausti til almennu lögreglunnar.

Maður treystir henni til að sinna ýmsum almennum málum sem hún reynir að sinna sem best í vanmætti fjármagns og getu.

Maður er líka á því að hún eigi að vera vel launuð og tryggja þurfi betri menntun lögreglumanna svo þeir verði hæfari til starfs og meiri líkur séu á því að hæft fólk fáist til starfa.

En ég treysti henni alls ekki fyrir skotvopnum.

Fyrir því eru nokkrar ástæður sem er vert að telja upp.

Sú fyrsta er að meðal þeirra er fólk sem á alls ekki að hafa vald né tól til valdbeitingar.

Þetta eru s.s. slæm epli sem misbeita valdi sínu því þau geta það, fara fram með tilefnislausu offorsi (Extreme Chill-hátíðin kemur upp í hugann) og beita samborgara sína ofbeldi þegar ekki sést til og erfitt er að kæra.  Sum brotin ná að rata í fjölmiðla og verða e.t.v. að kæru sem er mjög sjaldgæft en yfirleitt er upplifun manns að viðkomandi lögreglumenn sleppi við alla ábyrgð og fái að halda áfram hegðun sinni án nokkurra afleiðinga. Það er heldur ekki neitt virkt eftirlit með störfum lögreglu sem gerir það að verkum að fæstir þurfa að axla nokkra ábyrgð og geta því komist upp með misbeitingu valds.

Það er þó ekki algilt þetta ábyrgðarleysi eins og dæmið sýndi þegar það náðist á myndband eins og þegar dauðadrukkinni manneskju var slengt utan í bekk af fullu afli á Laugaveginum.

Þar komum við að því næstu ástæðu þess að maður treystir ekki ekki almennu lögreglunni fyrir skotvopnum.

Það er réttlætingarhugsunarhátturinn fyrir lögregluofbeldi sem virðist vera í gangi innan lögreglunnar og fyrrgreint mál er gott dæmi um.

Frá formanni Landssambands lögreglumanna bárust þau skilaboð að það væri viðurkennd norsk handtökuaðferð að slengja dauðadrukknu fólki utan í bekki og ekkert væri hæft í ásökunum um að þetta hefði verið óþarfa hrottaskapur. Enginn lögreglumaður steig fram til að mótmæla þessu heldur var þetta samþykkt með þögninni einni og þegar hrottinn hafði verið dæmdur þá rataði í einhvern fjölmiðilinn á sínum fréttir af því að lögreglumenn væru ósáttir og teldu dóminn ranglátann.

Einn fyrir alla, allir fyrir einn, skítt með þann sem verður fyrir ofbeldi af hálfu lögreglu.

Slíkt er ekki boðlegur hugsunarháttur hjá fólki sem maður þarf að treysta jafnvel fyrir lífi og limum samborgara sinna.

Það er líka annar hugsunarháttur innan lögreglunnar sem veldur því að maður vill ekki að skotvopn verði í höndum almennu lögreglunnar og það er hin fasíska hugsun um að lögreglan sé í raun her Íslands eða líkt og formaður Landssambands lögreglumanna lýsti best í orðum sínum þegar verið var að réttlæta vélbyssuvæðingu lögreglu á síðasta ári:

„Við verðum líka að horfa til þess að hér er hvorki her né þjóðvarðarlið sem flest önn­ur ríki hafa yfir að ráða. Lög­regl­an er því eina viðbragð þjóðrík­is­ins við ógn af þessu tagi, þar af leiðir að lög­regla á Íslandi verður að ráða yfir búnaði til að bregðast við ógn.“

Ekki kom fram í vefútgáfu viðtalsins hvaða ógn réttlætir það að lögreglan sé hervædd en þetta er hugsunarháttur sem var einnig samþykktur með þögninni og áframhaldandi réttlætingum yfirmanna lögreglunnar.

Gerum okkur grein fyrir einu.

Það er stór munur á mili þess að vera lögregla og her.

Lögreglunni er ætlað að vera hlutlaus stofnun sem hefur það hlutverk að upplýsa glæpi og gæta öryggis allra borgara fyrir glæpamönnum sem geta m.a. leynst í meðal efstu laga samfélagsins líkt og lekamálið og bankahrunið sýndi. Her er aftur á móti pólitískt valdbeitingartæki sem stjórnmálamenn beita vegna pólitískra ástæðna. Í höndum spilltra stjórnvalda er þetta einnig stórhættulegt valdbeitingartæki þar sem herjum hefur margoft verið beitt gegn almennum borgurum til að tryggja völd þeirra stjórnvalda.

Þessi hugsunarháttur gefur til kynna að lögreglan áliti sig vera pólitískt valdbeitingartæki ríkjandi stjórnvalda en ekki verðir almannahugsmana. Það getur því verið hættulegt lýðræðinu að vopna slíka stofnun með skotvopnum sem gætu verið beitt gegn almennum borgurum sem ógn.

Í beinu framhaldi af þessu er nefnilega þriðja ástæðan sem fær mann til að telja að lögreglan eigi ekki að vera með skotvopn.

Það eru beinu tengslin og áhrifin sem pólítískir áhrifamenn hafa á yfirmannamönnum lögreglunnar og sérstaklega ráðamenn úr núverandi stjórnarflokkum.

Nú hefur það ekkert verið leyndarmál lengi að margur yfirmaðurinn þar er góður flokksmaður innan Sjálfstæðisflokksins s.s. ríkislögreglustjóri og fleiri lögreglustjórar. Þegar lögreglan var að rannsaka lekamálið þá var lögreglustjóranum sem vildi halda rannsókninni gangandi þrátt fyrir þrýsting ráðherra, bolað úr starfi og flokksholl vinkona ráðherra sett í starfið án þess að það væri auglýst enda ætlað að tryggja að flokksóþægilegar rannsóknir færu ekki fram. Auk þess voru gerðar svipaðar tilfærslur þar sem gamlir og vanhæfir flokksmenn fengu áframhaldandi vegtyllur.

Slíkir yfirmenn eiga að fá svo að taka ákvarðanir um beitingu skotvopna m.a. við mótmæli og friðsamlegan aktivisma gegn núverandi stjórnvöldum og flokkum þeirra. Sumir þessara yfirmanna voru á því að það hefði verið of vel komið fram við mótmælendur í Búsáhaldabyltingunni og vildu víst að það yrði hörð valdbeiting sem hefði getað breytt Búsáhaldabyltingunni í mjög óhugnanlegan viðburð í sögu Íslands. Vei, ef sömu menn hefðu fengið að ráða og það með aðgang að skotvopnum til handa lögreglunni, það hefði getað orðið Blóðugur sunnudagur að hætti sögu Norður-Írlands.

Þegar það er haft í huga að pólítískir yfirmenn sem gætu verið þjakaðir fyrrnefndum hernaðarhugsunarhátt eru við völd innan lögreglunnar þá gefur það augaleið að maður vill ekki setja skotvopn og valdbeitingu þeirra í hendur þeirra.

Það munu einhverjir deyja þá.

Svo er það hin hatramma ásókn innan lögreglunnar í það að lögreglan fái einhverskonar vopn og helling af þeim sem hræðir mann og er enn ein ástæðan.

Við hvert tækifæri sem kemur upp þá er talað um að það þurfi að útbúa lögreglunna rafbyssum, skotvopnum, vélbyssum og helst stórskotaliði ef sumir fengju að ráða.

Það skiptir engu hvað það er: mótmæli, mótórhjólagengi, fíkniefnamál, hryðjuverk út í heimi, stríð og hver veit hvað hefur ekki verið notað sem ástæða.

Maður fær það á tilfinninguna að lögreglan vilji fá að vera einhverskonar bandarískar donuts-löggur sem nenni ekki hlutunum og vilji því stuða og skjóta til að létta sér daglegu störfin en ekki til að taka á málunum.

Enda kemur i ljós líkt og í umræðunni um vélbyssurnar í fyrra að glæpum hefur fækkað þannig að það er ekki ástæða, það er frekar friðsamt þannig séð og enginn sérstök ógn á ferði þó sífellt sé reynt að búa til slíkar með hræðsluáróðri hér á landi.

Að auki er það hjákátlegt að veifa hryðjuverkum sem réttlætingu í ljósi þess að lögreglan nennti ekki að rannsaka og ákæra eina sprengjutilraun við stjórnarráðið. Manni datt líka í hug þegar maður heyrði það að vesaldarlegu gamalmenninu sem stóð fyrir því, hafi verið vísað bara á dyr og sagt að þetta gengi bara betur næst þar sem um var að ræða vinstri stjórn. Þess til viðbótar þá hefur lögreglan sýnt lítinn áhuga á að rannsaka það sem mesta hættan stafar af þ.e. uppganga hægri öfgamanna sem dreifðu svínshausum á moskulóð og hafa farið hamförum um að drepa þurfi múslima hér á landi í símatímum og Fésbókarhópum sem minna mann talsvert á Breivíska aðdáendaklúbba.

Slíkir eru mun líklegastir til að fremja hatursglæpi og önnur voðaverk hér á landi heldur en einhverskonar óskilgreind, erlend ógn sem kalli á hervæðingu og herlögreglu.

Þetta er svo sem ekki tæmandi listi um ástæður þess að almenna lögreglan eigi ekki að ganga með skotvopn en það má heldur ekki gleyma einu mikilvægu atriði.

Dauði mannsins í Hraunbæ og öll mistökin sem voru gerð þar.

Það eitt ætti að fá fólk til að staldra við og íhuga hvort þörf sé á vopnavæddri almennri lögreglu.

En til þess þarf að fara fram almennileg samfélagsumræða um málin.

Áður en lögreglan er skotvopnavædd.

Slíkt er aftur á móti að gerast þveröfugt núna.

Án þess að við fáum að segja okkar um þróun mála

Það gerir það að verkum að maður getur ekki treyst lögreglunni almennilega til verka.

Og fer kannski að hræðast hana frekar.

Það er ógnvekjandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni