Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Af hverju ekki gæsluvarðhald?

Miðað við fregnir af nauðgaranum úr HR og félaga hans þá virðast þeir hafa verið skipulagðir og með einbeittan brotavilja.

Þeir voru með innréttaða íbúð til ódæða sinna og byrluðu allavega öðru framkomnu fórnarlambi ólyfjan.

Slíkt segir manni að þeir hafi verið búnir að ákveða fyrirfram hvað þeir ætluðu að gera og lagt talsverða vinnu í undirbúning glæpa sinna.

Á ensku myndu slíkir kynferðisbrotamenn kallast „sexual predators“ enda eru þetta siðblind rándýr á ferð sem munu ekkert hætta athæfi sínu.

Maður verður því gapandi hissa á að ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim í ljósi þess enda segir í lögum eftirfarandi um gæsluvarðhald:

„     Sakborningur verður því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda hafi hann náð 15 ára aldri. Auk þess verður að vera fyrir hendi eitthvert eftirtalinna skilyrða:

  1. að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni,
  2. að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar,
  3. að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi,
  4. að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.

    Einnig má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a–d-liðar 1. mgr. séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.“

Miðað við þetta ætti að vera frekar auðvelt að rökstyðja gæsluvarðhald yfir mönnunum því augljóslega miðað við brot þá eiga c og d við auk þess sem það ætti að vera hægðarleikur að rökstyðja fyrsta skilyrðið. Einnig er varla hægt að sjá annað en að það varði við almannahagsmuni að mennirnir gangi lausir.

Þess til viðbótar þá gengur núna sú saga að annar mannana hafi farið úr landi í morgun og ef það er rétt þá er klárlegt að gæsluvarðhald hefði komið í veg fyrir það.

Hingað til hefur gæsluvarðhaldi verið beitt í málum sem manni finnst sum hver mun minni í sniðum og tilefni.

Lögreglan þarf því að svara einni spurningu skýrt í ljósi hversu ógeðslegir og skipulagðir þessir glæpir voru:

AF HVERJU Í FJÁRANUM VAR EKKI FARIÐ FRAM Á GÆSLUVARÐHALD?

Það dugar lítið í ljósi framkomna frétta og alvarleika að skýla sér á bak við það að ekki sé hægt að tjá sig neitt um málið.

Slíkt rýrir eingöngu trúverðugleika lögreglunnar sjálfar og veldur vantrausti í hennar garð.

Líkt og þau mistök að fara ekki fram á gæsluvarðhald.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu