Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þarf ferðaþjónustan ekki að fara að taka sér tak?

Um daginn kom frétt þar sem verið var að tala um að það skorti fólk í ferðaþjónustustörf. Þar kom fram kona á vegum ferðaþjónustuaðila að ræða þennan skort og í lok fréttarinnar sagði hún að Íslendingur þyrftu nú að hætta að líta niður á þjónustustörf og ættu nú að fara að vinna við ferðaþjónustu.

Ég hugsaði þá með mér og sagði við vin minn síðar út af þessari frétt að kannski væri nú betra að hækka launin frekar enda hefur maður heyrt að  verið sé að bjóða hæfu fólki með reynslu lág laun fyrir mikla vinnu sem skilar því að það fólk hefur áhuga á að leita í annað.

Núna í dag og fyrr á árinu hefur verið í fréttum að ferðaþjónustuaðilar eru að svindla á starfsfólki sínu og brjóta á þeim kjarasamninga sem og önnur réttindi sem launafólk hefur.

Svo þegar maður bætir við þetta fregnum af gríðarlegum og hugsanlega frekar algengum skattsvikum í þessum geira auk fjölmargra fregna af ýmiskonar ergelsi vegna framkomu ferðaþjónustuaðila, frekju og yfirgangs ferðaþjónustunnar gagnvart samlöndum og réttindum þeirra þá er varla hægt annað að spyrja upphátt:

Ætti ferðaþjónustan kannski ekki að fara að líta í eigin barm og taka til í sinum ranni áður en hún fer að tala um það að Íslendingar vilji ekki vinna við þennan geira vegna þess að þeir líti niður á þjónustustörf?

Flestir hafa nefnilega lítinn áhuga að vinna hjá fyrirtækjum sem koma svona fram við fólk eða vilja taka áhættuna á því að vera rændir af slíku siðblindu liði sem sækir í svona gullgrafaraæði auk þess sem það stelur fé sem er ætlað að reka m.a. heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Við höfum bitra reynslu af svoleiðis liði.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu