Pistill

Stoltið sem festist í fátæktargildrunni

Einu sinni þurfti Lára Guðrún Jóhönnudóttir á hjálp að halda. Þá lærði hún að það sem hún hélt að væri skammarlegt var í raun hugrekki og sjálfsbjargarviðleitni manneskju sem var föst í kviksyndi fátæktargildrunnar sem íslenska kerfið er.

Fyrir nokkrum árum lenti ég í krísu. Ég nefnilega brann út. Ég var orðin örmagna á líkama og sál og komin í spikfeitan andlegan mínus, ég skuldaði sjálfri mér svo mikið, svo mikla hvíld, svo mikinn svefn, svo mikla ást. En ég átti ekki fyrir því. Það eru takmörk fyrir því hversu mörg áföll ein manneskja getur tekið við áður en heimurinn hrynur.  Það var engin innistæða og ytra umhverfi mitt var ekki þannig að ég gæti fengið lánað. Ég er nefnilega foreldralaus. Þó ég sé fullorðin kona þá er það fjölskyldan sem gefur manni skjól þegar maður lendir í krísu. Manneskja sem brennur út í starfi og er orðin óvinnufær af þunglyndi og kvíða þarf mikla umbun frá umhverfinu. En það sem maður gerir þegar maður lendir í þessum aðstæðum er að byrja á því að negla fast fyrir allar inngönguleiðir umbunar. Ef það hljómar fyrir þeim sem hefur ekki upplifað þunglyndi og kvíða eins og maður sé að vinna gegn sjálfum sér, þá bara bingó! Það er akkúrat það sem maður gerir. Rökréttar hugsanir verða eins og lúxusdýfa á ísinn þinn. Eitthvað sem þú færð bara stundum.

En hvað tekur þá við þegar ung kona á þrítugsaldri brennur út og er á svipstundu orðin einstæð móðir, atvinnulaus, heilsulaus, nándar nærri því heimilislaus (leigumarkaðurinn = rússnesk rúlletta) og hefur ekki fjölskyldutengslanet sem tekur við manni? Það sem tekur við er að maður glatar sjálfum sér og byrjar upp á nýtt. Sem er nákvæmlega það sem ég gerði. Þegar ég rifja upp þetta tímabil þá upplifi ég flóknar samsetningar tilfinninga eins og stolt í bland við skömm. 

Skömmin tengist samanburðarmaníunni. Utan frá var ég ung og efnileg, dugleg, klár og öflug kona sem leit út fyrir að geta sigrað heiminn. En inni í mér var ótti, kvíði, sjálfsniðurrif, örvænting og vonleysi sem passaði ekki við hið ytra útlit sem heimurinn sá. Ég óttaðist að einhver myndi sjá að ég væri berskjölduð og ég væri ekkert að standa mig. Ég var orðin að sófakartöflu sem átti í heitu ástarsambandi við sængina og myrkrið, því þar var ég örugg og þekkti mig svo vel þar. Ef ástvinir reyndu að nálgast mig þá var ég ekki heima því mér fannst alveg hræðilegt að bjóða þeim upp á mig, ég hafði ekkert að gefa þeim en rökhugsunin mín fattaði ekki að þau vildu ekkert frekar en að ég myndi þiggja frá þeim.

Stoltið var það sem átti eftir að koma mér mest á óvart. Það sem ég hélt að væri skammarlegt var í raun hugrekki og mögnuð sjálfsbjargarviðleitni manneskju sem var föst í kviksyndi fátæktargildrunnar sem íslenska kerfið er. Kerfið sem tók við mér hafði enga burði til að taka á móti mér. Þetta kerfi er stórhættulegt fólki sem lendir í áföllum. Kerfið átti stóran þátt í því  að ég var tveimur árum lengur að koma mér upp úr þessari gryfju sem ég hafði fallið ofan í. Hið minnsta. Það eina sem ég þráði var að komast út á vinnumarkaðinn og verða fúnkerandi manneskja aftur. En fyrst þurfti ég að sleikja botninn.

„Það eina sem ég þráði var að komast út á vinnumarkaðinn og verða fúnkerandi manneskja aftur. En fyrst þurfti ég að sleikja botninn.“

Ég þurfti einu sinni að leita á náðir hjálparsamtaka. Félagsráðgjafinn hafði yppt öxlum þegar ég spurði hana hvað ég ætti að gera, ég sæi ekki fram á hvernig ég myndi lifa af þennan mánuð, sem var rétt nýhafinn. „Geturðu ekki bara slegið lán hjá einhverjum?“ Nei. Það var ekki í boði. „Ehm, þá sko, næsta skrefið er þá að sækja um inneignarkort í matvöruverslunum hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.“ Þarna áttaði ég mig á því að ég myndi þurfa heljartak til að koma mér upp úr gryfjunni, það er ekki hægt að hjálpa þeim sem vilja ekki hjálpa sér sjálfir. Nú þyrfti ég að kasta af mér egóinu. Þannig að einn góðan miðvikudag manaði ég mig upp í að leita hjálpar hjá þeim. Þarna fékk ég innsýn í veröld sem krefst mikils hugrekkis til að lifa af í. Fólk sem lendir í þessum aðstæðum eru hetjur. Þetta er fólk úr öllum stéttum samfélagsins, sumir hafa lent í skyndilegum atvinnumissi, erfiðum veikindum eða slysi. Þetta er ekki fólk sem „nennir ekki að vinna“. Þetta er ég, þetta gæti orðið þú og þetta er mögulega náinn ástvinur sem setti á sig andlit og skrapaði saman síðustu aurunum til þess að geta komið með brauðrétt í fjölskylduboðið. Stoltið, maður. 

Mesta hindrunin í mínu bataferli var samfélagið. Þegar kemur að geðheilsu manneskjunnar má segja að viðhorf okkar sé fast einhvers staðar á miðöldum. Það sama má kannski segja um þá sem lenda í því að veikjast, mögulega gera þeir ráð fyrir því að samfélagið sé ekki opið fyrir því. En þetta er að breytast, hægt og rólega. Ef fólk sem hefur lent í mínum sporum á einn eða annan hátt heldur áfram að miðla sinni reynslu og láta í sér heyra þá smátt og smátt breytist viðhorf samfélagsins til hins betra. Eina vandamálið er að ef þú ert fastur í miðjum storminum þá er það síðasta sem þig langar að gera er að skrifa pistil. Byrjaðu á því að draga frá og losa þig við samviskubitið yfir öllum ósvöruðu símtölunum.

Krafturinn í mannauðinum sem er pikkfastur í þessum sporum eða svipuðum er gríðarlegur. Það þarf að leysa orkuna úr læðingi og búa til kerfi sem virkar, kerfi sem grípur þig þegar þú hrasar og kemur þér út í samfélagið mun hraðar en það gerir í dag. Þeir sem sækja sér aðstoð eru hetjur. Við skulum ekki gera þeim erfiðara fyrir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Úttekt

Nýlendur unga fólksins

Pistill

Eitraðir ísbirnir hröktu nasista Hitlers brott; nú er Pútin mættur

Fréttir

Ferð án fyrirheits: Flokkurinn sem boðaði nýja og breytta pólitík endar ferð sína í hægri stjórn

Fréttir

Ætlar að taka tillit til gagnrýni fjármálaráðs í næstu fjármálaáætlun

Spurt & svarað

Skýrsla um loftlagsmál var „sjokk“

Fréttir

Þeir verst settu borga þrefalt meira í tannlækningar en lög gera ráð fyrir

Mest lesið í vikunni

Pistill

Um kosti þess að búa á Íslandi

Úttekt

Björn Ingi fékk kúlulán meðfram lundafléttu

Fréttir

Segir Viðskiptablaðið fara með dylgjur og lygar

Pistill

Baráttan um heilbrigðiskerfið er barátta fyrir lýðræði

Pistill

Ísland efnahagsbrotalaust land 2020

Pistill

Vaxandi misskipting