Pistill

Miðaldra viska?

Valgeir Magnússon skrifar um það sem skiptir mestu máli í lífinu og þá gæfu sem honum bar til þess að segja vel launuðu en leiðinlegu starfi lausu þegar hann var 27 ára gamall.

Þegar maður er kominn á miðjan aldur þá verður maður pínu skrítinn. Losar sig við það sem skiptir ekki máli og reynir að halda í það mikilvæga. Ég er einmitt kominn á miðjan aldur og því er ég skrítinn eins og flestir mínir jafnaldrar. Líklega aðeins skrítnari. En hvað er skrítið og hvað er eðlilegt? Ég stend alla vega í þeim sporum að ég reyni að skoða inn á við til að ná árangri í lífinu, líða betur, gefa af mér á réttum stöðum og halda heilsu.

Ég hef verið að velta fyrir mér orðinu jafnvægi. Hvað er að vera í jafnvægi? Það hlýtur að vera einstaklingsbundið og því er ég ekki með einhvern boðskap eða boðorð um það hvernig fólk finnur sitt jafnvægi. Ég er eingöngu að segja frá hvernig ég finn mitt. Alla vega það sem ég trúi á núna. Svo hugsanlega kemst ég síðar að öðru. Lífið er stöðug breyting og maður þroskast með því. Ég reyni að taka á göllunum til að finna jafnvægi. Afstaða mín til lífsins hefur unnið með mér þó svo að ég þurfi reglulega að minna mig á það og uppfæra eftir því sem ég átta mig betur og betur á göllunum og jafnvel kostum.

Áhyggjur stjórna mér ekki, vinnan stjórnar mér ekki og hræðsla stjórnar mér ekki.

Hvar liggur mitt jafnvægi? Það liggur í æðruleysi. Þar sem ég ræð lífi mínu eins langt og það nær. Sumu get ég ekki ráðið og því tek ég með æðruleysi. En því sem ég get ráðið stýri ég sjálfur hiklaust. Áhyggjur stjórna mér ekki, vinnan stjórnar mér ekki og hræðsla stjórnar mér ekki. Ég trúi og treysti. Öll mál enda einhvern veginn og ef ég geri mitt vel þá enda flest mál vel. Ég treysti því.

Jafnvægi er að hafa tíma fyrir mig. Hugsa um mig. Verja tíma með þeim sem mér þykir vænt um. Sinna þeim sem mér þykir vænt um en þau eru ekki á mína ábyrgð. Una þeim sem mér þykir vænt um að vera þau sjálf en leiðbeina. Ef fólk tekur ekki leiðbeiningum mínum, þá ber ég ekki ábyrgð á því.

Ég er sáttur og get tengt mig við umhverfi mitt. Ég nærist á umhverfi, náttúru, hreyfingu, félagsskap og gleði. Ég stend aldrei einn, þó ég sé einn með sjálfum mér. Ég er tengdur og hef fjölda fólks og fullt af orku í kringum mig. Ég deili ábyrgð en sit ekki einn uppi með hana. Ég hleð mig orku og nýti orku. Gleði er besta orkan. Gleði kemur mér af stað, keyrir mig áfram og leiðir mig að góðri niðurstöðu. Það eina sem er hallærislegt er að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Þá hverfur gleðin. Að gera allt sem mann langar til, sama hvað öðrum finnst, er gleði.

Skyldurækni er ekki næg ástæða til að halda áfram. Peningar eru aldrei leiðin áfram heldur gleði. Með gleði fyllist ég orku og held áfram hvert sem ég vil og næ alltaf árangri, án hennar koðna ég niður og tapa allri orku.

Jafnvægi er gleði.

Það sem gefur mér gleði þarf ekki endilega að gefa öðrum gleði. Gleði er tilfinning sem ég finn við athafnir, samveru og hugsanir sem fylla mig ánægju. Gera nýja hluti, svala forvitni og fræðast, æsa upp keppnisskapið, skapa, þykja vænt um, sjá árangur, gefa af mér, skapa öryggi, fá viðurkenningu og standa stoltur með afraksturinn. Gleði er hrein og sönn. Skemmtun er ekki alltaf gleði. Skemmtun er líka fjarvera og leið til að gleyma raunveruleikanum. Gleði er ekki afleiðing skemmtunar heldur getur skemmtun framkallað gleði vegna aðstæðna og samveru. En skemmtunin sjálf skapar ekki gleði. Gleði er raunveruleg og sönn og í henni býr kraftur.

Þegar ég var 27 ára bar mér gæfa til að segja upp ömurlegu starfi sem borgaði þó mjög vel. En mig var hætt að langa að fara á fætur á morgnana og uppgötvaði sem betur fer hvað ég þyrfti að gera. En af hverju var ég samt í starfinu? Það borgaði vel og ég var að byggja yfir fjölskylduna og þurfti fjárhagslegt öryggi. Það sem ég lærði af þessu var: Greiðslubyrði fjötrar þig. Þú vinnur fyrir bankann en ekki þig. Ekki fyrir gleði heldur peninga. Án greiðslubyrði ertu frjáls og getur valið hvað þú vinnur við út frá áhuga og gleði. Sem betur fer bar ég gæfu til að taka þessa afstöðu 27 ára gamall og vinna aldrei aftur út af peningum heldur alltaf vegna áhuga og gleði. Ef ég hef eitthvað lært í lífinu sem er þess virði að gefa öðrum ráð þá er það að skulda sem minnst, því það gefur þér frelsi til að vinna við það sem þú vilt. Annars verðurðu að vinna vegna launanna og týnir gleðinni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Baráttan um heilbrigðiskerfið er barátta fyrir lýðræði

Pistill

Vaxandi misskipting

Fréttir

Landlæknir leiðréttir „misskilning“ Óttars – lagatúlkun ráðuneytisins opni á einkavæðingu heilbrigðiskerfisins

Fréttir

Páll vill sýna United Silicon skilning: „Það getur kviknað í hverju sem er“

Úttekt

Nýlendur unga fólksins

Pistill

Burt með grasið, lifi mosinn!

Mest lesið í vikunni

Viðtal

Heimsækja allar kirkjur á höfuðborgarsvæðinu

Pistill

Um kosti þess að búa á Íslandi

Úttekt

Björn Ingi fékk kúlulán meðfram lundafléttu

Fréttir

Segir Viðskiptablaðið fara með dylgjur og lygar

Pistill

Ótrúlegt nokk: Norður-kóreski herinn er sá stærsti í heimi

Pistill

Ísland efnahagsbrotalaust land 2020