Flækjusagan

Hvað eru fornir rómverskir peningar að gera í japönskum miðaldakastala?

Illugi Jökulsson gleðst yfir því að enn dúkki upp leyndardómar í sögunni.

Rómverjar á Okinawa? Konstanín mikli keisari í Kontanínópel, gæti hann hafa gert út menn tíu þúsund kílómetra leið til Okinawa?

Nýlega voru fornleifafræðingar að störfum í Kasturen kastala á eyjunni Okinawa sem nú er hluti Japans. Þeir rákust þá á dálítinn sjóð af smámynt, sem þeir héldu í fyrstu að væru einhvers konar gervipeningar sem ferðamenn hefðu skilið eftir sérstaklega til þess að stríða þeim.

Margir peninganna virtust nefnilega vera ævafornir rómverskir peningar og ekki var vitað um nein tengsl milli Okinawa og Rómaveldis í fornöld. Eða þá að þessir peningar hefðu verið í fórum bandarískra hermanna, en þeir lögðu eyjuna undir sig í síðari heimsstyrjöldinni og höfðu þar síðan og hafa enn miklar bækistöðvar.

En nú hafa bæði peningarnir og fundarstaðurinn verið rannsakaðir í bak og fyrir og niðurstaðan er sú að hvorki stríðnir ferðamenn né bandarískir hermenn hafi komið þessum peningunum fyrir. 

Og þeir elstu eru í rauninni mjög gamlir.

Og þá blasir við mjög erfið og óvænt spurning: Hvað eru rómverskir peningar frá því laust upp árinu 300 að gera á Okinawa?

Okinawa er stærsta eyjan í klasa sem er langt suður af Japan. Fjarlægðin frá Okinawa til syðstu stóru eyjanna í Japan eru um 600 kílómetrar. Það er svipuð vegalengd á sjó og ef farið væri siglandi frá Reykjavík til Akureyrar.

Álíka langt er frá Okinawa til Taívan.

Sérstök þjóð hefur búið á Okinawa-eyjaklasanum frá örófi landa. Á tímabili var þar heilmikið verslunarveldi. Rétt fyrir árið 1200 var komið þar á fót konungsríki sem kallast Ryukyu-veldið.

Á hæðardragi á sjálfri Okinawa-eyju var þá reistur kastali sem kallast Kasturen. Hann er nú á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Kastalinn er talinn hafa verið upp á sitt fegursta á 15du öld. 

Eftir að Ryukyu-veldinu fór að hnigna toguðust Kínverjar og Japanir á um áhrif á Okinawa. Á síðari hluta 19du aldar var eyjaklasinn orðinn leppríki Japans og Japanir innlimuðu að lokum Okinawa og aðrar eyjar þar um slóðir.

Elstu rómversku peningarnir sem nú hafa fundist í Kasturen-kastala eru frá því á dögum Konstantínusar mikla keisara. Hann er - eins og allir vita náttúrlega - frægastur fyrir að hafa leyft kristindóm í ríkinu árið 313. Einnig er hann víðkunnur fyrir að hafa fært höfuðborg Rómaveldis frá Rómaborg til Konstantínópel, sem nú heitir Istanbúl.

Konstantín ríkti til ársins 337.

Tíu þúsund kílómetrar eða svo eru frá Rómarslóðum til Okinawa. Lítil tengsl voru milli Rómaveldis og Kína í fornöld. Alltaf var vissulega um einhverja verslun að ræða, en hún var ósköp lítil. Og ekkert hefur hingað til verið þekkt um tengsl milli Rómaveldis og Okinawa. Um það leyti sem Konstantín var á dögum var Okinawa ekki mikið veldi, en einhvern tíma hafa rómversku peningarnir þó ratað alla leiðina þangað.

Auðvitað gæti það hafa gerst löngu eftir tíð Konstantíns. Það fundust ekki aðeins fornir rómverskir peningar í kastalanum á Okinawa, heldur líka peningar frá Ottómana-veldi Tyrkja frá því um 1300-1400. 

En hvort rómversku peningarnir bárust til Okinawa seint eða snemma, þá er þó ljóst að um einhvern ævintýralegan leiðangur hefur verið að ræða. Og einhver tengsl hafa verið millum Vesturlanda og hins „dularfulla austurs“ sem við vitum nákvæmlega ekkert um.

En verðum að reyna að ímynda okkur. Kannski að einhver hugmyndaríkur skáldsagnahöfundur setjist nú við að skrifi æsispennandi sögu um rómverskan sendiboða sem flækist með dágóðan ferðasjóð sinn yfir Persíu, Indland, Suðaustur-Asíu, Kína og svo út á Okinawa, vegna þess að hann þarf að - ja, þarf að hvað? Það er einmitt spurningin!

Leyndardómar kvikna enn í mannkynssögunni sem betur fer.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Úttekt

Nýlendur unga fólksins

Pistill

Eitraðir ísbirnir hröktu nasista Hitlers brott; nú er Pútin mættur

Fréttir

Ferð án fyrirheits: Flokkurinn sem boðaði nýja og breytta pólitík endar ferð sína í hægri stjórn

Fréttir

Ætlar að taka tillit til gagnrýni fjármálaráðs í næstu fjármálaáætlun

Spurt & svarað

Skýrsla um loftlagsmál var „sjokk“

Fréttir

Þeir verst settu borga þrefalt meira í tannlækningar en lög gera ráð fyrir

Mest lesið í vikunni

Pistill

Um kosti þess að búa á Íslandi

Úttekt

Björn Ingi fékk kúlulán meðfram lundafléttu

Fréttir

Segir Viðskiptablaðið fara með dylgjur og lygar

Pistill

Baráttan um heilbrigðiskerfið er barátta fyrir lýðræði

Pistill

Ísland efnahagsbrotalaust land 2020

Pistill

Vaxandi misskipting