Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Í sorginni einn

Gunn­ar Eyj­ólfs­son leik­ari lést á dög­un­um, einn þekkt­asti og virt­asti lista­mað­ur þjóð­ar­inn­ar. Fyr­ir hálf­um öðr­um ára­tug tók Ill­ugi Jök­uls­son röð við­tala við Gunn­ar, þar sem hann lýsti með­al ann­ars djúpu sam­bandi sínu við móð­ur sína og því mikla áfalli sem hann varð fyr­ir þeg­ar hún dó, er hann var að­eins 14 ára gam­all. Ill­ugi hef­ur hér bú­ið þessi við­töl til prent­un­ar.

Gunnar Eyjólfsson leikari lést á dögunum níræður að aldri. Gunnar hef ég þekkt og dáð alla mína ævi en kynni okkar urðu sérstaklega mikil á árunum upp úr aldamótum. Þá stóð til að ég skrifaði ævisögu hans og ég fékk að njóta bæði einstakrar sagnasnilldar hans og þess djúpa örlætis og góðsemi sem einkenndi þennan mikla listamann. Það verður mér ævinlega til skammar að hafa ekki klárað verkefnið, en sem betur fer tók Árni Bergmann það að sér í staðinn og skrifaði eftir honum frábæra bók, Alvara lífsins, sem ég hvet alla til að lesa sem vilja kynnast listamanninum og mannvininum Gunnari. En ég hafði þó tekið heilmikið af viðtölum við Gunnar á sínum tíma, sem nota átti í bókina, og það fór ekki hjá því að ég hrifist af hve djúpt og náið hafði verið samband hans við móður sína, hina hnarreistu alþýðustúlku Þorgerði Jósefsdóttur úr Keflavík, sem hann missti aðeins 14 ára gamall. Frá því öllu sagði Gunnar mér af hreinskilni og einlægni, jafnvel þegar hann talaði um andlát hennar þar sem sársaukinn var greinilega enn til staðar þótt sex áratugir væru liðnir. Í stað minningargreinar um Gunnar ákvað ég að ganga endanlega frá til prentunar þeim viðtölum við hann sem snerust um hina mögnuðu konu móður hans. Hann hafði raunar sjálfur lagt blessun sína yfir þessa viðtalskafla á sínum tíma, og nú birti ég þá hér sem minn persónulega bautastein um góðan og örlátan og ógleymanlegan vin.

Illugi Jökulsson

 

FjölskyldanHér er Gunnar lítill með foreldrum sínum og systur, þeim Þorgerði, Ívönu og Eyjólfi Bjarnasyni. 

Leiðin á Klepp   

Ég vona bara að þetta hafi verið fallegt kvöld; því fegurðin var henni svo mikils virði, henni mömmu.

Ég vona að sólin hafi hnigið til hafs í kyrru veðri en skýjaslæður ofan við sjóndeildarhringinn litast fagurrauðar og gular; ég vona að það hafi blikað fallega á Snæfellsjökul; ég vona að Esjan hafi verið djúpblá; ég vona að það hafi sindrað á sundin; ég vona að brumið á hríslunum hafi verið farið að ilma.

Ég vona að gluggarnir á vagninum hafi verið opnir svo hún hafi fundið ilminn af bruminu.

Hún var bara nítján ára og hún var á leiðinni inn á Klepp.

Það hefur sjálfsagt þótt saga til næsta bæjar þegar fréttist suður í Keflavík að Þorgerður Jósefsdóttir væri komin á Klepp.

Svona óbrjáluð og skynsöm eins og hún hafði alltaf virst vera, stúlkan!

Enda fylgdi fljótt sögunni þangað suður eftir að hún Þorgerður væri auðvitað ekki orðin vistmaður á geðveikrahælinu inn við Sundin blá, heldur væri hún farin að vinna þar. Hún færi á kvöldin með vagninum inn eftir og sæti svo gervalla nóttina yfir geðsjúklingunum.

Þetta átti víst að heita einhvers konar undirbúningur fyrir ljósmæðranámið sem hún stefndi á.

Að sitja yfir brjálæðingum á Kleppi? spurði fólk.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu