Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Ábyrgð og fóstureyðingar

„Í raun er orð­inu „ábyrgð“ hald­ið í gísl­ingu og það not­að til að ýta und­ir druslu­skömm,“ skrifa þær Silja Bára Óm­ars­dótt­ir og Stein­unn Rögn­valds­dótt­ir. Ef smokk­ur er not­að­ur eru 18 pró­sent lík­ur á þung­un á einu ári. Fóst­ur­eyð­ing­ar hafa ver­ið sveip­að­ar leynd­ar­hjúpi, en þær rjúfa leynd­ina í nýrri bók. Í um­fjöll­un um ábyrgð þeirra sem fara í fóst­ur­eyð­ingu skoða þær mál­in út frá sjón­ar­hóli kvenna og vitna í við­mæl­end­ur bók­ar­inn­ar.

Ábyrgð og ábyrgðarleysi koma oft við sögu þegar fóstureyðingar ber á góma, jafnvel þótt það sé ekki nefnt berum orðum. Oftast er vísað til þess ábyrgðarleysis að kona hafi ekki komið í veg fyrir ótímabæra þungun heldur þurfi að fara í fóstureyðingu þegar þungun hefur átt sér stað. Reglulega er vísað til þessarar ábyrgðar þegar vel meinandi fólk segir að auðvitað eigi konur að hafa aðgang að fóstureyðingum, en þær eigi ekki að nota þær sem getnaðarvarnir. Ótrúlega margir virðast halda að það séu í alvörunni til einhver slík tilvik, sem er reyndar afar órökrétt þar sem ekki er hægt að varna getnaði ef hann hefur þegar farið fram. 

Þegar við ræddum við félagsráðgjafa vegna ritunar bókar okkar um reynslu kvenna af fóstureyðingum, kom þessi orðræða til tals. Félagsráðgjafinn sagði okkur að þrátt fyrir að hafa hitt þúsundir kvenna á leið í fóstureyðingu þá hefði hún enn ekki hitt konu sem gerir þetta að gamni sínu eða lítur á fóstureyðingu sem eins konar getnaðarvörn. Óvíst er hvaðan þessi flökkusaga kemur eiginlega um stúlkuna sem er alltaf í fóstureyðingu af því hún hefur ekki fyrir því að nota getnaðarvarnir (sem fólk gefur sér að standi henni til boða). Og sjaldan er rætt um rekkjunauta þessarar dularfullu konu þegar ábyrgð er til umræðu.

En sögur kvennanna í áðurnefndri bók okkar um reynslu kvenna af fóstureyðingum, veita mörg önnur sjónarhorn á ábyrgð í tengslum við fóstureyðingar. Við skulum skoða þau nánar.

„Ég hef endalaust velt því fyrir mér hvort ég hafi fengið gubbupest eða hvað? Hvers vegna virkaði pillan ekki?“

Höfundar bókar um fóstureyðingu
Höfundar bókar um fóstureyðingu Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt í stjórnmálafræði, og Steinunn Rögnvaldsdóttir, félags- og kynjafræðingur, hafa skrifað bók um ástæður og veruleika kvenna sem fara í fóstureyðingu. Þær leita eftir stuðningi almennings.

Getnaðarvarnir og frjósemi

Til eru margar sögur af ótímabærum þungunun sem komu til vegna þess að getnaðarvarnir voru ekki notaðar – eða brugðust. Nokkrar konur í bókinni segja frá því að þær trúðu því einlæglega – og höfðu fyrir því orð læknis – að þær sjálfar væru ófrjóar, nú eða rekkjunauturinn. Einnig segja konur, sem hafa ekki getað notað hormónagetnaðarvarnir heilsu sinnar vegna, sögu sína. 

Sandra: „Ég kynntist strák sem var með mér í tímum. Hitti hann oft í bænum. Fórum heim saman eftir djammið en úr þessu varð ekkert samband. Ég varð ólétt eftir hann. Óvart! Mig minnir að ég hafi notað hettuna á þessum tíma. Hettan er ágætis getnaðarvörn, þ.e.a.s. ef hún er notuð. Við tókum „sénsinn“ sem er ekki góð getnaðarvörn.“

Rut: „Ég var eitthvað kærulaus með pilluna, hélt einhvern veginn að ég yrði ekki ófrísk þótt ég gleymdi að taka hana. Hann var líka alltaf að segja að hann væri ófrjór, því hann hefði tekið sénsinn svo oft í lífinu og það ætti örugglega ekki fyrir honum að liggja að eignast börn.“

Guðlaug: „Ég hef farið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í fóstureyðingu, alltaf með núverandi eiginmanni. Við erum brjálæðislega frjó saman og ég get ekki verið á hormóna-getnaðarvörnum, hvorki pillu, né lykkju né neinu öðru. Ég fer öll í klessu, ég er stanslaust á túr og ég upplifi ýmis óþægindi. [...] Og auðvitað reynum við að passa okkur, og notum þær getnaðarvarnir sem við getum, en það er ekkert eins öruggt og svona inngrip með hormónum.“

En sama hversu vandlega er hugað að meðferð getnaðarvarna, þá eru alltaf ákveðnar líkur á að þær virki ekki. Vandinn er að fæstir nota getnaðarvörn rétt og oft fer eitthvað úrskeiðis. Smokkar, ef þeir eru notaðir hárrétt, virka til dæmis alltaf… nema í 2% tilvika! Meðalnotkun á smokkum á eins árs tímabili hefur í för með sér um 18% líkur á þungun og getnaðarvarnapillan klikkar í 9% tilvika á sama tímabili. Margar konur sem sögðu sögu sína í bókinni höfðu brennt sig á því að það þurfti lítið að fara úrskeiðis til að þungun ætti sér stað þrátt fyrir að þær væru á á pillunni eða öðrum hormónagetnaðarvörnum, og aðrar segja frá því hvernig smokkurinn hefur brugðist. 

Hólmfríður: „Svo að það sé alveg á hreinu þá notuðum við alltaf smokk þegar við sváfum saman en í eitthvert skiptið hlýtur hann að hafa rifnað eða verið gallaður.“

Stefanía: „Þetta var svo ruglað því ég var á pillunni og tók hana alltaf samviskusamlega, tíðahringurinn var alltaf eins, og að eignast barn var alls ekki á dagskrá hjá okkur – þó svo að við höfum talað um að eignast börn í framtíðinni.“

Hrafnhildur: „Ég var á pillunni, það var ekki á dagskrá að verða ólétt. Ég hef endalaust velt því fyrir mér hvort ég hafi fengið gubbupest eða hvað? Hvers vegna virkaði pillan ekki? Ég hef a.m.k. aldrei treyst á hana síðan.“ 

Vigdís: „Ég skipti um getnaðarvörn og byrjaði á NuvaRing, sem er hringur sem maður setur upp í leggöngin og hann gefur frá sér hormón þaðan. Í þetta skipti fylgdi ég leiðbeiningunum fullkomnlega og gerði „allt rétt“ en innan árs varð ég aftur ófrísk.“ 

„Loforðið um að hætta að berja mig nú þegar ég gekk með barnið hans fauk út í veður og vind um leið og hann fékk sér í glas.“ 

Ástæður fóstureyðinga eru ákaflega mismunandi en í flestum tilfellum er um að ræða óvænta þungun (þó á því séu undantekningar). Eins og dæmin hér sýna er ekki hægt að gefa sér að eingöngu „óábyrgt kynlíf“ leiði til fóstureyðinga. Í stuttu máli, þá virka getnaðarvarnir ekki alltaf.

Að taka ábyrgð í vonlausum aðstæðum

Eins og áður segir þá er öll umræða um ábyrgð mjög einhliða og beinist að þeim konum sem verða óvænt þungaðar. Skilaboðin eru að þær hefðu átt að passa sig betur og sýna meiri ábyrgð. Þannig er skautað fram hjá ábyrgð karlmanna í þessu samhengi. Í eldri sögum í bókinni má sérstaklega greina að fóstureyðingar séu ekki karlmönnum sérstakt áhyggjuefni. Þótt slíkt megi líka greina í nýlegri frásögnum þá virðist þrýstingur á konur af hálfu hlutaðeigandi karlmanna um að eignast ekki barn, koma oftar fyrir í nýlegri sögum. Hugsanlega er þetta vegna þess að samfélagið hefur breyst í afstöðu sinni gagnvart uppeldis­hlutverki karlmanna. Fyrir utan það að þeir þurfa að borga meðlag þá er beinlínis ætlast til þess af þeim að þeir séu ástríkir feður. Séu þeir ekki tilbúnir til þess er hætt við að samfélagið dæmi þá, og þar af leiðandi sé nú meira í húfi heldur en áður fyrir þá. 

Margar konur sem segja sögu sína í bókinni lýsa miklum stuðningi af hálfu karlmannanna í lífi þeirra. Aðrar hafa reynslu af þvingun og þrýstingi. Erlendar rannsóknir sýna að á milli 6-22% kvenna sem fara í fóstureyðingu upplifa ofbeldi af hálfu maka. Í bókinni okkar lýsa nokkrar konur reynslu sinni af því hvernig ofbeldi af hálfu maka hafði áhrif á ákvörðun þeirra um að fara í fóstureyðingu.

„Erlendar rannsóknir sýna að á milli 6-22% kvenna sem fara í fóstureyðingu upplifa ofbeldi af hálfu maka.“

Pála: „Loforðið um að hætta að berja mig nú þegar ég gekk með barnið hans fauk út í veður og vind um leið og hann fékk sér í glas. Í þriðja skiptið sem maðurinn minn barði mig ólétta  ákvað ég að það væri öllum fyrir bestu, sérstaklega litlu verunni, að þetta barn myndi ekki fæðast. Jafnvel þótt ég myndi einhvern veginn komast í gegnum það að pluma mig sem einstæð móðir þá væri ólíklegt að ég gæti meinað barninu að kynnast föður sínum. Ég er sjálf alin upp við gífurlega spennu og rifrildi á æskuheimilinu og ég átti erfitt með að sjá annað fyrir mér en að ætti ég barn með þessum manni myndi það líða fyrir skaplyndi hans og óstöðugleika.“

Drífa: „Þótt ég væri staðföst í minni ákvörðun frá fyrstu tíð var reynt að tala mig til um að eiga barnið. Auðvitað komu upp efasemdir hjá mér en ég horfði raunsætt á málið eins og til dæmis það að ég yrði einstæð móðir ef ég ætlaði að eiga þetta barn. [...] Síðast en ekki síst hugsaði ég stöðugt og með hryllingi til þess að eiga þennan mann fyrir barnsföður. Hann var einfaldlega vondur maður, það var ég búin að sjá og ef ég ætlaði að eiga barnið þá myndi ég neyðast til að eiga einhver samskipti við hann í framtíðinni barnsins vegna. Hann yrði örugglega samur við sig, hann myndi halda áfram að djöflast í mér og notfæra sér mínar veiku hliðar, eitthvað sem ég mátti síst við. Ég sá ekki fram á að hann myndi breytast eða mannast sama hvað henti hann á lífsleiðinni. Til að kóróna þetta sagðist hann ekki vilja þetta barn og ásakaði mig meira að segja að eiga það framhjá sér með einhverjum öðrum.“ 

Þessar konur upplifa sorg og sársauka við fóstureyðinguna og má líklega rekja það til þess að það er ekki raunverulegur vilji þeirra að binda endi á meðgöngu heldur er það útgönguleið úr ömurlegum og ofbeldisfullum aðstæðum. Ákvörðunin er tekin í þvingandi aðstæðum sem gerir konunum erfiðara fyrir að sættast við hana. En það að fara í fóstureyðingu er jafnvel það ábyrgasta sem stendur konum til boða í aðstæðum þeirra. Þannig axla þær ábyrgð á sjálfri sér og sinni velferð, mögulega líka aðstæðum þeirra barna sem þær eiga, og jafnvel þeim sem seinna koma. Það eru fáir sem geta kennt þessum konum eitthvað sem þær ekki vita um ábyrgð.

Um „góðar“ og „slæmar“ fóstureyðingar

Þessari umfjöllun er alls ekki ætlað að gera á neinn hátt upp á milli fóstureyðinga vegna getnaðarvarna sem virkuðu ekki eða ofbeldisfullra aðstæðna, og fóstureyðinga þar sem getnaðarvarnir voru ekki notaðar eða kona hefur ekki aðra ástæðu en að vilja ekki eignast barn.

Að axla ábyrgð er ekki bara eitthvað sem hægt er að gera með að verða ekki þunguð.“

Það eru ekki til „góðar“ og „vondar“ ástæður fyrir fóstureyðingu, þó að samfélagið haldi afturhaldssömum hugmyndum í þeim anda að konum, meðal annars með því að koma inn skömm hjá þeim. Ef kona vill fara í fóstureyðingu á hún að geta gert það, sama hvernig getnað hefur borið að. Hér er hins vegar verið að benda á að öll orðræða um ábyrgð eða ábyrgðarleysi í tengslum við fóstureyðingar er gildishlaðin og einhliða. Hún er líka röng, þar sem að margir einstaklingar reyna augljóslega eftir fremsta megni að koma í veg fyrir getnað – það tekst bara ekki alltaf.

Tilgangurinn með því að draga þessar aðstæður fram í kastljósið er fyrst og fremst að benda á að það eru of fjölbreytilegar aðstæður að baki fóstureyðingum til að það sé ásættanlegt að segja konur vera óábyrgar. Í raun er orðinu „ábyrgð“ haldið í gíslingu og það notað til að ýta undir drusluskömm, skömm fyrir að hafa ekki sýnt aðgát eða bara fyrir að hafa yfir höfuð stundað kynlíf sér til ánægju. En að axla ábyrgð er ekki bara eitthvað sem hægt er að gera með að verða ekki þunguð, það er líka hægt að axla ábyrgð með því að taka ákvörðun um hvað sé best fyrir þig sjálfa í erfiðum aðstæðum.

* Greinin er byggð á bók höfunda sem byggir á frásögnum rúmlega 70 kvenna af fóstureyðingum. Öll nöfn sem koma fram í umfjölluninni eru dulnefni. Nánari upplýsingar um bókina er að finna á fjáröflunarsíðu verkefnisins á Karolina fund, karolinafund.com/project/view/956

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu