Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fuglar himinsins í Bíó Paradís

Fuglar himinsins eru indælasti félagsskapur sem menn hafa hér á jörðinni. Þeir eru frjálsari en önnur dýr og geta flogið um loftin blá, hvert sem þá lystir, hvenær sem er. Svo tylla þeir sér niður á trjágrein eða stein, skima í kringum sig, flögra svo burt við minnstu þrusk. Eða lenda augnablik við lítinn læk, og fá sér að drekka, varir um sig. Margir þeirra syngja fallega. Hver veit nema þeir hafi kennt mönnunum þá góðu list í árdaga. Þá má þakka fuglunum fyrir yndislegustu stundir sem mennirnir geta átt úti í náttúrunni, við fuglasöng og lækjarnið. Hafi fuglarnir kennt mönnum að syngja má þakka þeim fyrir yndislegustu stundirnar í borginni líka. Þær stundir eru auðvitað þegar menn standa upp frá verkum sínum og fara á tónleika til að hlusta á tónlistarmenn stunda þá list sem forfeður okkar og formæður lærðu af fuglunum og fuglarnir kunna þó alltaf best.

Nú er sýnd á Kvikmyndahátíðinni Riff ljómandi falleg og fróðleg heimildarmynd um fugla. Hún heitir The Messenger, eða Sendiboðinn, og er eftir Su Rynard, sem er gestur kvikmyndahátíðarinnar.

Eins og allir vita hefur mönnum fjölgað gegndarlaust á jörðinni okkar á undanförnum áratugum. Þeir hafa um leið orðið sífellt stórtækari til hvers kyns framkvæmda, lagt vegi, byggt skýjakljúfa, höggvið skóga, fundið upp ýmis konar tæki og tól og eitur og áburði. Þessu fylgir að lífsrými annarra tegunda af dýrum og jurtum minnkar sem þessu nemur, enda stækkar jörðin ekki eins og við vitum. Í myndinni er sýnt á áhrifamikinn hátt hvernig framkvæmdir og lífshættir manna skaða fuglalífið og er sjónum myndavélarinnar sérstaklega beint að farfuglum og smáfuglum. Sagt er frá því að smáfuglum og farfuglum hafi víða fækkað ógnvænlega mikið.

Meðal ógnvalda fuglanna er ljósmengun. Það var áhrifamikið að sjá hvernig ljóskeilurnar, sem settar voru upp til minningar um Tvíburaturnana á Manhattan og fórnarlömb hryðjuverksins sem þar var gert, rugla fugla í ríminu. Fuglarnir virðast slysast til að fljúga inn í þessa ónáttúrulegu og skæru ljóskeilu en ruglast þar og hringsóla þar bara í stað þess að fljúga sína leið. Mér varð hugsað til Friðarsúlunnar í Viðey og hvort sú ljóskeila rugli fuglana þar. Mér finnst trúlegt að allar ljóskeilur sem beinast til himins séu truflun fyrir fuglana.

Annar ógnvaldur eru háhýsin. Víða háttar svo til að þau standa í flugleið farfuglanna, sem ekki greina gagnsætt gler á sama hátt og við. Þeir fljúga því unnvörpum á hin glampandi hús og stráfalla. Nú munu komin lög í Kanada sem taka á þessum vanda, því það mun vera hægt að merkja glerið á sérstakan hátt, sem fuglarnir átta sig á og læra því að forðast hættuna. Þar er komin sú lagaskylda að bregðast á viðeigandi hátt við því, ef mannvirki eru hættuleg fuglum.

Þriðji ógnvaldurinn er hávaði. Eins og við vitum fylgir mikill hávaði mönnum, og nægir að minnast á umferðina í því samhengi. Leikstjóri myndarinnar, Su Rynard, sagði okkur bíógestum frá því í spjalli á eftir sýningu myndarinnar, að sums staðar sé ástandið svo að hávaðinn af bílaumferðinni komi í veg fyrir að karlfuglar og kvenfuglar nái saman. Karlfuglarnir neyðist til að hækka róminn til að reyna að yfirgnæfa hávaðann frá bílunum, en þá reyni þeir of mikið á röddina fyrir smekk kvenfuglanna, svo ekkert verði úr neinu.

Þá má nefna fleiri ógnvalda, svo sem hnattrænar breytingar sem valda því að jöklar bráðna og land, sem áður var vökvað ár hvert af jökulbráð þornar upp. Og skordýraeitur, til að mynda svonefnd neonicotinoid-eitur, sem er húðað utan um jurtafræ í þeim tilgangi, að eitrið smjúgi inn í plöntuna meðan hún spírar úr fræinu, þannig að plantan verði gegnsósa af eitrinu, ef svo má segja, og ég hef skilið myndina rétt. Þegar jurtin sprettur upp úr moldinni og teygir sig til sólar ætti hún að réttu lagi að lenda öðru hvoru í því að lítið skordýr fengi sér bita, en svona eiturhúðaðar jurtir ýmist drepa skordýrin eða fæla þau frá. Þetta leiðir svo til þess að fuglarnir, sem lifa á skordýrum, hafa ekki nóg að borða.

Hér hef ég aðeins tæpt á nokkrum þeim hættum sem að fuglunum stafar og lýst er í myndinni. Ég vil hvetja alla fuglaáhugamenn og áhugafólk um hina lifandi náttúru og auðvitað kvikmyndaáhugafólk til að fara og sjá myndina. Hún er stórfróðleg og mjög falleg. Myndin, sem er eftir Su Rynard, verður sýnd á morgun, sunnudaginn 27. september kl. 17:30 í Bíó Paradís og eftir þá sýningu munu áhorfendur geta spurt leikstjórann spurninga um myndina. Þá verður myndin sýnd þann 30. september nk. kl. 13:30 á sama stað.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu