Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fallegasta bók í heimi

Í þessum pistli ætla ég aðeins frá hremmingum félaga minna og líka frá fallegri bók.

Tveir gamlir félagar mínir í Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur lentu í skrítinni uppákomu nú á vordögum. Tillaga um að reka þá úr þessu gamla og tiltölulega óformlega félagi var lögð fyrir á aðalfundi félagsins, fyrirvaralaust. Hún var meira að segja nafnlaus til að byrja með. Og tillagan var afgreidd á fundinum, eða nánar til tekið, það var haldin atkvæðagreiðsla um hana. Það reyndist að vísu aðeins vera um 30% fylgi fyrir því að reka þá, en það var meira en 25% fylgið fyrir að reka þá ekki. Þetta voru átta atkvæði á móti sjö. Ellefu skiluðu auðu.

Þetta hefur truflað mig talsvert því ég gekk inn í þetta ágæta félag til að vinna með þeim að sameiginlegum áhugamálum okkar. Við fórum að stunda járnsmíðar í hruninu. Hömruðum járnið, það var glóandi heitt og við bjuggum til hárbeitta hnífa. Úr bílfjöðrum og sænsku og japönsku stáli.  Í sköftin notuðum við íslenskt beyki og birki og útlenda eik. Það var merkileg hugfró í þessu þegar allt var í kaldakoli í landinu.

Og ég gerðist félagi í Myndhöggvarafélaginu með þeim. Ég ætla ekki að segja nánar frá því hvernig þeir voru reknir úr félaginu. Ef til vill verður leyst farsællega úr því. Vonandi. Hins vegar verður eiginlega ekki hjá því komist að ræða aðeins um bækur af þessu sama tilefni.

Ég er enginn náttúrufræðingur og á aðeins fáeinar bækur um náttúruna. Ein þeirra heitir Fuglar Íslands og Evrópu. Almenna bókafélagið gaf út. Óskar Ingimundarson sá um útgáfuna. Ég á fjórðu útgáfu, 2. prentun, sem kom út 1993. Þetta er handhæg bók sem passar í vel í einn bókaskápinn minn og hefur yfirleitt fengið að standa í hillu sem er ekkert sérstaklega há, þar sem ég geymi annars bækur frá Modern Library (innbundnar, nokkuð gamlar) og Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. Þetta er hilla fyrir bækur sem eru á ytra borði smávaxnar.

Ég hef stundum velt því fyrir mér að fara út í bókaútgáfu sjálfur, en það er vandasamt verkefni. Því það er ekki nóg með að það þurfi að velja góðar bækur til útgáfu. Til viðbótar við það að þurfa að velja eða skrifa góðar bækur, þarf bókaútgefandinn líka að leysa aðrar þrautir. Hann þarf til dæmis að velja brot bókarinnar, bandið og pappírinn.  Ákveða upplag og verð. 

Og ég hef skoðanir á þessu öllu. Ég vil til dæmis hafa góðar spássíur. Og ég vil mattan pappír og engan glanspappír nema þá ef til vill á sérstökum myndaopnum. Spássíurnar þurfa að vera góðar til þess að lesandinn geti skrifað athugasemdir á þær. Ég hef enga trú lengur á þeirri línu, sem ég ólst hálfvegis upp við, að maður eigi að fara svo vel með bækurnar að þær séu alltaf eins og nýjar og jafnvel næstum eins og ólesnar. Nú vil ég eignast bækurnar sem ég les til að geta krotað í þær athugasemdir og minnispunkta og strikað frjálslega undir. Smám saman fyllast spássíurnar í uppáhaldsbókunum af athugasemdum, sumar gamlar og aðrar nýrri. Svo kemur að því að maður hugsar til þess, hve slysalegt það er þegar pappírinn er sparaður og spássíurnar hafðar litlar. Það er allskyns vandi í þessu sambandi: stór spássía minnkar leturplássið og getur þar með fjölgað síðunum og gert bækurnar þykkar; svo getur stór spássía skilið leturplássið eftir óbreytt, en þá þarf að stækka brot bókarinnar. Þá fer hún ekki lengur eins vel í hendi. Svo eiga bækur helst að vera ódýrar. Og vel inn bundnar. Bókaútgáfa er ekki einfalt mál. 

Eintakið mitt af Fuglum Íslands og Evrópu er smágerð bók með litlum spássíum og það er þess vegna ekki mikið hægt að krota í bókina. Samt er ofurlítið svæði fyrir neðan textann á móti myndasíðunum, svo það væri hægt að skrifa örstuttar athugasemdir þar. En bókin er ekki bara í smáu broti heldur er hún líka prentuð á glanspappír. Glanspappír sem örugglega tekur illa við kroti úr mjúkum blýöntum og ég er viss um að blekið úr pennanum myndi hlaupa í kekki á blaðsíðunum og þorna seint og illa. Ég hef þess vegna ekkert reynt að krota í þessa bók. Það er kannski að einhverju leyti skýring á  því hve illa ég er að mér um fuglana á Íslandi. Vilji fólk læra verður það nefnilega að gera ýmislegt, til dæmis að skrifa hjá sér athugasemdir og rissa upp myndir af því sem það er að reyna að skilja og fræðast um.

Ég á ekki Flóru Íslands, sem ég held að sé ljómandi góð bók af sama tagi og Fuglar Íslands. Ég er líka heldur illa að mér um grösin og jurtirnar sem vaxa í landinu okkar. Ég man eftir þegar þessi bók kom út árið 1983 og hugsaði til þess þá að ég þyrfti að eignast þessa bók. Eða reyndar, kynna mér betur viðfangsefni hennar. Grösin og blómin. Margir bókaormar kaupa mun fleiri bækur en þeir lesa að einhverju gagni. Það á líka við um mig. En ég keypti aldrei Flóru Íslands. Ef ég hefði gert það, þá er ekki að vita nema ég hefði krotað í spássíurnar og smám saman öðlast betra skynbragð á grösin í landinu. Hver veit.

Höfundar Flóru Íslands voru tveir. Ég þykist vita að þeir séu báðir ágætir fagmenn, það er að segja mjög góðir fagmenn, hvor á sínu sviði. Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur samdi textann en Eggert Pétursson listmálari dró upp skýringarmyndirnar.

Bókin hefur komið út í fjölmörgum prentunum og í að minnsta kosti tveimur útgáfum. Það er að segja í "almenningsútgáfu" í þúsundum eintaka í litlu broti - og í lúxusútgáfu, í mjög stóru broti, sem er kannski aðallega hugsuð til að liggja á borði þegar hún er skoðuð. Í þeirri útgáfu njóta myndir Eggerts sín betur en í fyrri umgjörð bókarinnar. Mér skilst að þessi seinni útgáfa bókarinnar, sem mun hafa dálítið endurskoðaðan texta, sé nú uppseld. 

Ef ég hefði ætlað að kynna mér grösin og blómin sem vaxa á Íslandi að einhverju gagni, hefði mátt ætla að auðvitað ætti maður að útvega sér báðar útgáfurnar af bókinni. Handhægu og ódýru almenningsútgáfuna til að nota í gönguferðum um Hljómskálagarðinn, Grasagarðinn í Laugardal og í berjamó - en stóru útgáfuna fínu til þess að skrifa hvers kyns athugasemdir á spássíuna og rissa þar upp aðrar teikningar og jafnvel að líma þar inn aðrar myndir til samanburðar. Fína útgáfan hefði getað verið í bílnum. Hún hefði farið með í sumarbústaðinn, sem maður hefði leigt til að hafa sem aðsetur fyrir grasaferðir, til að skoða grösin  heima hjá sér, ef svo má segja, úti í móa. Hún hefði verið upplögð til að fara með manni hingað og þangað, en samt hefði maður aldrei tekið hana með í gönguferðir. Ódýra og handhæga útgáfan af bókinni hefði verið til þess.

Þrátt fyrir þetta hefði fallega útgáfan af bókinni óhjákvæmilega orðið fyrir svolitlu hnjaski í tímans rás við svona notkun. Allar bækur sem maður notar mikið verða smám saman fyrir einhverju hnjaski. Það á ekki síst við ef maður leyfir sér að skrifa athugasemdir í þær. Um leið og bókin slitnar og trosnar og spássíurnar fyllast eykst þekking lesandans sem hefur þvælst með bókina með sér og notað við margvíslegar aðstæður.

Um leið og bókin slitnar, bætist inn í hana margvíslegur fróðleikur á spássíunum og litlar rissmyndir verða til við hliðina á hinum fínu teikningum listamannsins. Svo verður bókin kannski svolítið bólgin, því inn í hana safnast útprentaðar ljósmyndir af sömu jurtum, sem límdar eru með lími á vandaðan pappírinn, en líminu fylgir svolítill klíningur eins og allir vita. Svona krot og teikningar og myndir eru nauðsynlegur hluti af því að nota bækur til að mennta sig í viðfangsefni bókanna, viðfangsefni á borð við jurtirnar á Íslandi.

Athugasemdir þarf að skrifa á spássíurnar og teikningar og skýringarmyndir í bókum getur þurft að leiðrétta svolítið, því það má alltaf búast við að einhverjar smá villur séu í bókum sem maður les eins og flestum öðrum mannanna verkum.

Lúxusútgáfan af Flóru Íslands er mjög falleg bók að mínu mati. Ég get vel trúað því sem stóð í auglýsingum sem mig rámar í, að hún hafi einmitt unnið til verðlauna sem fallegasta bókin í heimi. Pappírinn í henni er líka af því tagi sem svo þægilegt er að skrifa á, og ég er sannfærður um að hann tekur vel á móti bæði mjúkum blýanti og bleki. Hann er þykkur og góður.

Í minningunni ilmar bókin líka vel, eins og fallegar bækur þurfa að gera.

En í þetta eina sinn sem ég skoðaði lúxusútgáfuna af bókinni datt mér ekki í hug að kaupa hana. Verðmiðinn einn dugði til.

Ég hafði nú ekki mikinn tíma til  að handfjatla þessa fallegu bók. Því þetta var þegar félagar mínir, sem nú hafa verið reknir úr Myndhöggvarafélaginu, höfðu keypt hana til þess að búa til úr henni listaverk í anda Dieters Roths. Þeir tóku hana úr vönduðum kassa sínum og opnuðu. Og við dáðumst öll að því hve laglegur gripur hún væri. Og þegar þeir fóru að tína til tómata og þess háttar til að klína í bókina eins og þeir höfðu talað um að gera, gat ég ekki á mér setið og sagði, "nei! Er þetta nú ekki dálítið langt gengið?" En listamennirnir létu þetta viðbragð hins bókhneigða manns ekkert á sig fá. Þeir smurðu matvælunum inn í hverja opnu bókarinnar á fætur annarri. Þeir kölluðu verkið svo "Fallegasta bók í heimi."

Ég man enn hve vel bókin ilmaði áður en þeir byrjuðu á þessu. Þeir höfðu keypt bókina af útgefandanum fyrr um daginn, hún var gefin út í fimm hundruð tölusettum eintökum.

Það leið svo ekki á löngu þar til mikið ramakvein hófst upp meðal ýmissa listamanna sem töluðu um að verkið "Fallegasta bók í heimi" væri í rauninni ekki listaverk heldur skemmdarverk. Í rauninni skemmdarverk á listaverkinu Flora Islandica, Flóru Íslands eftir Eggert Pétursson. Þá fór maður að átta sig á því, að kannski hefði manni  í rauninni alls ekki leyfst að kaupa Flóru Íslands í stóra og fallega brotinu í þeim tilgangi að fara með bókina um landið, til að nota hana við að lesa í náttúruna og jafnvel krota í hana athugasemdir sínar. Því að kannski var hún seld kaupendum til varðveislu á öðrum forsendum en venjulega gerist. Venjulega þegar maður kaupir bók í búð, hefur maður keypt hana. Maður kannski skrifar inn á bókina, til dæmis, "Jólin 2008. Til Siggu frá pabba." Og svona nokkuð.

Auðvitað er skiljanlegt að útgefendur og höfundar bókarinnar Flora Islandica hafi ekki verið hrifnir af myndlistarverkinu Fallegasta bók í heimi. Það þarfnast engrar útskýringar. Þarna fækkaði líka eintökum bókarinnar á vissan hátt úr 500 niður í 499. 

Ramakveinið vegna Fallegustu bókar í heimi heyrist á vissan hátt enn. Eða kannski hefur það bara verið endurtekið í kjölfarið á því, að þeir félagar Hannes Lárusson og Ásmundur Ásmundsson voru reknir úr Myndhöggvarafélaginu. Eftir þetta hefur stundum verið talað um þessa tvo listamenn í því samhengi að þeir hafi eyðilagt verðmætt listaverk. Það finnst mér dálítið langt gengið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni