Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Að auka streitu foreldra og barna

Að auka streitu foreldra og barna

Umræða undanfarinna daga um styttri opnunartíma leikskóla í Reykjavík hefur um margt verið sérstök. Orð leikskólastjóra sem birtust í Fréttablaðinu í byrjun vikunnar vöktu ekki síst athygli, en hún gaf í skyn að foreldrar væru ábyrgðarlausir og litu á leikskólann sem geymslu fyrir börn sín. Þá hefur það ítrekað komið fram af hálfu þeirra sem styðja styttingu að sambærileg stytting hafi átt sér stað í öðrum sveitarfélögum og allt gengið vel.

 Gekk allt vel í Kópavogi?

Mig langar að segja ykkur frá eigin reynslu af styttri opnunartíma í Kópavogi, sem nefndur hefur verið sem fyrirmynd. Ég var í fullu starfi í Reykjavík og með barn í leikskóla í Kópavogi, þegar ákveðið var á miðjum vetri að loka leikskólanum kl. 16:30. Ég vann í Laugarneshverfinu og fór vinnuveitandi minn, Reykjavíkurborg, fram á staðfesta viðveru mína á vinnustað til klukkan fjögur alla virka daga nema föstudaga. Reglulega voru fundir á vinnustaðnum seinnipartinn sem oftast stóðu til fjögur og jafnvel nokkrum mínútum lengur.

Ég nýt þeirra forréttinda að eiga einkabíl, annars hefði ég ekki getað verið í fullu starfi. Því miður dugði hálftíminn frá fjögur til hálf fimm samt ekki alltaf til þess að ég næði að sækja son minn á réttum tíma á leikskólann. Ég stoppaði ekki í búð á leiðinni, fór ekki í ræktina eftir vinnu og kíkti ekki á kaffihús, öfugt við það sem sumir leikskólastjórar virðast halda.

Kapphlaupið við opnunartímann

Ef ég fór mínútu of seint út á bílastæðið við vinnustaðinn, ef færðin var slæm, ef það var árekstur einhvers staðar á leiðinni eða einhver truflun á umferð, þá varð ég of sein. Yfirleitt endaði heimferðin með því að ég ók of hratt í gegnum Kópavog og kom á síðustu stundu inn á bílastæði leikskólans, þar sem fyrir voru aðrir foreldrar sem einnig voru á síðustu stundu. Oft voru foreldrar enn að koma að sækja eftir að ég hafði sótt mitt barn, þó klukkan væri orðin fimm eða tíu mínútur yfir hálf fimm.

 Fyrir styttingu opnunartímans var stundin sem ég sótti son minn á leikskólann róleg og þægileg. Ég gat leyft mér á slaka á, nokkuð sem við náðum yfirleitt ekki að gera á morgnana. Hann klæddi sig í rólegheitum og sagði mér frá deginum, sýndi mér kannski eitthvað sem hann hafði verið að gera í leikskólanum og við höfðum tíma til að ganga frá og kveðja starfsfólkið. Eftir styttingu var þetta orðið kapphlaup um að klæða barnið sem hraðast og drífa okkur sem fyrst út með tilheyrandi álagi á lítið barn.

 Fylgið ekki vondu fordæmi

Þessi breyting á daglegum opnunartíma leikskólans jók verulega á streitu bæði í lífi mínu og sonar míns. Ég kvartaði samt ekki við leikskólastjórann, því að ég vissi að það þýddi ekki neitt. Foreldrar leikskólabarna eru yfirleitt ekki mjög öflugur þrýstihópur, enda hafa þeir oftast meira en nóg á sinni könnu. Þess vegna geta leikskólastjórar núna stigið fram og sagt að allir hafi verið sáttir og enginn kvartað.

 Ég veit að þessi saga mín er ekkert einsdæmi. Stytting opnunartíma leikskólans í Kópavogi var stórmál og hún gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Hún var mál fyrir mig, þrátt fyrir mín forréttindi, og hún var eflaust enn meira mál fyrir annað fólk í verri stöðu. Skerðing opnunartíma leikskóla er rammpólitísk ákvörðun sem getur haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir samfélagið allt. Því skora ég á borgarráð Reykjavíkur að fylgja ekki vondu fordæmi Kópavogs, heldur hafna þeim breytingum sem lagðar hafa verið til.   

Byrjum á réttum enda

Ákvörðun um styttri starfstíma leikskóla er ekki bara streituvaldandi fyrir foreldra, heldur horfir hún framhjá því að það vinna ekki allir foreldrar sama vinnutíma, það vinna ekki allir í heimabæ eða í búsetuhverfi, það eru ekki allir foreldrar hluti af pari sem skiptist á að sækja og skutla, og það eiga ekki allir ættingja í röðum til að sækja börnin á leikskóla. Ef Reykjavíkurborg vill stytta daglegan opnunartíma leikskóla ætti hún að byrja á því að stytta almennan vinnutíma foreldra. Þar er borgin í góðri stöðu sem stór vinnuveitandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu