Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Oft var þörf en nú er nauðsyn

Oft var þörf en nú er nauðsyn

Ég horfði á síðasta kosningaþátt Ríkissjónvarpsins í gærkvöld, þar sem Þóra Arnórsdóttir og Einar Þorsteinsson ræddu við formenn þeirra sjö stjórnmálaflokka sem eiga möguleika á að ná mönnum inn á þing. Það vakti furðu mína hversu lítið var rætt um ástæðu þess að við erum að kjósa nú í lok október, en ekki að vori til eins og venjulega.

Við erum að kjósa vegna þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins féll. Við erum að kjósa vegna þess að forsætisráðherra Framsóknarflokksins varð uppvís að lygum um aflandsfélag sitt og konu sinnar í margfrægu sjónvarpsviðtali. Við erum að kjósa vegna þess að tveir ráðherrar í viðbót, formaður Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra, áttu einnig aflandsfélög og þögðu yfir því. Öll eru þau í framboði. Enn einu sinni er Ísland umræðuefni umheimsins vegna vafasamra fjármála og spillingar.

 

Svikin loforð og sérhagsmunir

Fráfarandi ríkisstjórn hefur notið lítilla vinsælda. Í vor studdi aðeins um þriðjungur Íslendinga stjórnina, miðað við könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Enda hefur stjórnin verið ríkisstjórn sérhagsmuna og svikinna loforða. Eitt helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins í síðustu kosningum var að afnema verðtryggingu neytendalána. Það var ekki gert. Forysta beggja flokka lofaði að við fengjum að kjósa um áframhaldandi viðræður við ESB. Það var ekki gert. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti árið 2013 að ellilífeyrir yrði hækkaður strax í samræmi við hækkanir lægstu launa frá 2009. Það var ekki gert. Svo mætti lengi telja.

Það sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði í staðinn fyrir að efna loforðin einkenndist af þjónkun við sérhagsmuni. Eitt af fyrstu verkum stjórnarinnar sumarið 2013 var að lækka veiðigjöld úr 12,8 milljörðum í 4,8 milljaða, þrátt fyrir methagnað sjávarútvegsins og tugmilljarða arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja. Eitt af síðustu verkum stjórnarinnar var að samþykkja umdeilda búvörusamninga, sem eru óhagstæðir neytendum og kosta ríkissjóð yfir 130 milljarða króna. Þar með fengu bakhjarlar beggja flokka sitt, en almenningur sat eftir.

Góðæri hinna ríku

Stjórnarflokkarnir hrósa sér af meintu góðæri og stöðugleika. Góðærið er ekki meira en svo, að margir finna ekki fyrir því. Skattar hafa hækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar hjá öllum nema þeim tekjuhæstu. Betri staða þjóðarbúsins er vegna ytri aðstæðna á borð við fleiri ferðamenn og lægra olíuverð, en ekki vegna stjórnkænsku ríkisstjórnarinnar. Hræðsluáróður um að aðrir geti ekki stjórnað fellur um sjálfan sig, sérstaklega þegar bent er á að þær þrjár ríkisstjórnir sem fallið hafa vegna óánægju kjósenda og getuleysis frá 1980 hafa verið með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs.

Framtíðin er í þínum höndum

Í síðustu skoðanakönnun Gallups fyrir kosningar, sem birt var í gær, munaði aðeins einu þingsæti á meirihluta umbótaflokkanna og áframhaldandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks með fulltingi Viðreisnar. Dæmið getur auðveldlega snúist við, ef fáir mæta á kjörstað, því þeir sem mæta helst eru eldri og íhaldssamari kjósendur. Ekki vakna við vondan draum í fyrramálið. Ekki láta sérhagsmuni hinna fáu stjórna landinu áfram. Ekki láta spillinguna sigra. Mættu á kjörstað og kjóstu einhvern af þeim fjórum flokkum sem geta velt íhaldinu úr sessi. Því oft var þörf, en nú er nauðsyn. Framtíðin er í þínum höndum.  

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu