Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Markaðssósíalisminn

Ég man þá tíð þegar frjálshyggjan var að ryðja sér til rúms  á Íslandi um 1980. Hannes Gissurarson og Jónas Haralz skrifuðu hálft Morgunblaðið og voru fyrirferðamiklar annars staðar. Þeim var mikið í mun að kynna kennismiði frjálshyggjunnar og var tíðrætt um markaðssósíalisma sem þeir töldu mjög af hinu illa. Tal þeirra (og Ólafs Björnssonar) um markaðssósíalisma var eins og eintal sálarinnar. Vinstrimenn virtust flestir koma af fjöllum er þetta afbrigði sósíalismans var nefnt enda kom það hvergi við (skáld)sögu(r).

Ég nefndi reyndar markaðssósíalisma stuttlega í Kreddu í kreppu en dró upp  of neikvæða mynd af honum, trúði alltof mörgu af því sem íslensku frjálshyggjumennirnir sögðu um  hann. Ég hafði ekki einu sinni lesið meginverk markaðssósíalismans, rit  hins ítursnjalla pólska hagfræðings Oskars Lange The Economic Theory of Socialism. Úr því hef ég bætt og varð  margs vísari fyrir vikið. En áður en lengra er haldið skal Skari Langi kynntur: Oskar Lange (1904-1965) var pólskur hagfræðingur af Gyðingaættum. Hann var um skeið prófessor í hagfræði við Háskólann í Chicago en flutti aftur heim til Póllands eftir síðari heimsstyrjöldina. Enda var hann eins konar marxisti og vildi ljá kommúnistastjórninni pólsku lið.

Lange og markaðssósíalisminn

Á fjórða áratugnum tók Lange að þróa kenningar um markaðssósíalisma sem áttu sér mun eldri rætur, t.d. hjá Fred W. Taylor (Taylor 1929: 1-8). Til þess að skilja boðskap Langes verðum við að þekkja rök frjálshyggju-hagfræðinga gegn áætlunarbúskap. Ludwig von Mises hélt því fram að áætlunarkerfið gæti ekki haft neinn mælikvarða fyrir skynsamlegri tilhögun framleiðslu, ráðamenn yrðu að renna blint í sjóinn. Gagnstætt því virkaði verðkerfið sem upplýsingarmiðill í markaðskerfi, mikil verðlækkkun getur t.d. verið merki um offramboð á tiltekinni vöru. Áætlunarkerfið hefði ekki upp á bjóða neinn viðlíka upplýsingamiðil, ráðamenn þess lags kerfis yrðu að renna blint í sjóinn með efnahagslegar ákvarðanir (Mises 1922: 118-123). Í markaðskerfi er verðmyndun eins og mælitækin sem skipstjóri notar til að stýra skipi sínu. Áætlunarkerfið er eins og skip án mælitæki, skip sem hlýtur að reka stjórnlaust. Frjálshyggjumenn töluðu um „reiknivanda“ (e. problem of calculation) áætlunarkerfisins: Til að leysa vanda áætlunarkerfisins yrði að leysa milljónir af stærðfræðijöfnum  en fyrir daga tölvunnar var slíkt ekki gerlegt. En atferli markaðsgerenda á frjálsum markaði komi  fyllilega í staðinn fyrir útreikningana (samkvæmt t.d. Hannesi 1988: 59-67). Oskar Lange svaraði þessum rökum með kenningu sinni um  að áætlunarráð í áætlunarkerfi gæti notað verðmekanisma til að afla upplýsinga um hagkerfið. Áætlunaráðið lætur hækka verð ef skortur er á vöru, lækka það ef um offramboð er að ræða. Verðmekanismanum er þannig beitt með happa-og-glappa-aðferð, áætlunarráðið býr til líkan af markaði og lætur fara fram sýndarsamkeppni. Þessi aðferð sé  skilvirkara tæki til öflunar upplýsinga í markaðssósíalísku kerfi en í kerfi einkarekstrar. Ein af ástæðum þess sé sú að einkakapítalistar borga oft ekki fullt verð fyrir efnahagsvirkni sína  en láta ríkið og annað fólk um að borga reikninginn. Þetta gildir fyrst og fremst um kostnaðinn af úthrifum (e. externalities), t.d. kostnað af umhverfisspjöllum. Þess vegna geti verðmyndun í kapítalisku samfélagi gefið skakkar upplýsingar. Í  markaðssósíalismanum borgi fyrirtækin fullt verð fyrir sína efnahagsvirkni og því virkar verðmyndunin betur, gefur réttari upplýsingar.  Önnur ástæðan sé sú að í markaðssósíalísku kerfi geta fyrirtæki  ekki lengur leynt þekkingu sinni fyrir keppinautum, því yrði upplýsingastreymið hraðara og betra í markaðssósíalismanum en í einkarekstrarkerfinu Í ofan á lag hefur áætlunarráðið góða yfirsýn yfir hagkerfið, m.a. þess að enginn hefur hag af að leyna upplýsingum, t.d. um tækninýjungar. Þessi góða yfirsýn gerir að verkum að hægt er að koma í veg fyrir efnahagskreppur, segir Lange. Í markaðssósíalísku kerfi yrði flestum fyrirtækjum stjórnað af verkamannaráði og það á ekki vera markaður  fyrir auðmagn, aðeins neysluvörur. Markaðsöflin eiga  að ráða launamyndun að miklu leyti og rúm á að vera fyrir smáfyrirtæki í einkaeign á sviðum þar sem góður möguleiki er á raunverulegri samkeppni, t.d. í landbúnaði og smáiðnaði. Stórfyrirtæki aftur á móti beri að þjóðnýta enda séu þau í reynd einokunarfyrirtæki. Lange segir að ekki megi útilka þann möguleika að hið markaðssósíalíska kerfi muni hægt og bítandi hverfast í kommúnisma eins og Marx hugsaði sér hann: Kerfi án ríkisvalds þar sem menn stjórna efnahagslífinu í sameiningu, engin sérhæfing angrar menn. Þeir búi  við allsnægtir, fá eftir þörfum, en framlag fer  eftir getu. Lange segir að það megi hugsa sér að í hinum skilvirka markaðssósíalisma verði æ fleiri gæðum úthlutað ókeypis rétt eins og í kommúnisma Marx. Nú þegar er ýmsum gæðum úthlutað þannig, t.d. götulýsingu og opinberum lystigörðum. Úthluta má gæðum ókeypis svo fremi eftirspurnin eftir þeim sé ekki þjál  (eftirspurn eftir skóm  er þjál, menn geta fundið hjá sér þörf til að eignast æ fleiri skó). En jafnvel þótt sápu yrði úthlutað ókeypis þýðir það vart að eftirspurnin muni aukast verulega mikið, það eru takmörk fyrir því hve mikið af sápu menn geta nota (Lange 1936: 53-71), (Lange 1937: 123-142), (Lange/Taylor 1974: 53-132).

Tölvan og markaðssósíalisminn

Í seinni ritum ritum sínum reyndi Lange að leysa reiknivandann með því að vísa til hæfni tölvunnar til að leysa urmul af stærðfræðijöfnum, nota mætti þær í áætlunargerð með góðum árangri (Lange 1969: 158-161). Breski blaðamaðurinn  Paul Mason  segir að tölvur vorra tíma og aðgengi þeirra að ótrúlegu upplýsingamagni gæti leyst reiknivandann (Mason 2015: 226-227). Næstum öll viðskipti skilja eftir sig stafræn spor sem ofurtölvur geta fundið og notað í útreikningum sínum. Þær geta án nokkurra erfiðleika leyst milljónir af jönfum á nóinu sem þýðir að milljónjöfnurök frjálshyggjunnar eiga ekki lengur við rök að styðjast. Við getum því ekki útilokað að ofurtölvur og Netið geti lagt grundvöll að velvirkandi áætlunarkerfi (við getum talað um „stafrænt áætlunarkerfi“). Hin upprunalega hugnmynd um sósíalískt áætlunarkerfi var hugmyndin  um að áætlunargerð yrði með lýðræðislegum hætti. En mjög erfitt var að samrýma lýðræði og áætlunarkerfi, alla vega  fyrir daga ofurtölvu og Nets. Hugsanlega má lýðræðisvæða áætlunarkerfið með fulltingi tölvanna og Netsins góða. Kjósendur geta með skjótvirkum hætt greitt atkvæði á Netinu um áætlunarkosti. Þeir munu geta aflað sér upplýsinga um þessa kosti með skjótvirkum hætti vegna þess urmuls upplýsinga sem finna má á Neti og í gagnabönkum. Hættan er sú að áætlunarráð í stafrænu kerfi gæti fengið of mikið vald yfir almenningi vegna þess að það hefur aðgengi að miklum upplýsingum um atferli manna. Þetta vald gæti trompað hið stafræna áætlunarlýðræði. En athugið að sama hætta er á ferðinni í einkakapítalisma nútímans, stórfyrirtæki í stafræna geiranum (Google, Facebook og kó) búa þegar yfir gífurlegu upplýsingamagni um einkalíf manna og efnahagslegt atferli þeirra. Þessi  fyrirtæki geta ógnað einstaklingsfrelsi og lýðræði, rétt eins og mögulegt stafrænt áætlunarráð.

Umræðan um Lange

Víkjum aftur að Lange og hans upprunalegu hugmyndum. Benjamin E. Lippincott ver Lange og segir að til að koma í veg ofurveldi áætlunaráðsins mætti hugsa sér að það yrði gert ábyrgt gagnvart löggjafanum. Gera mætti tækniteymin sem starfa fyrir ráðið óháð stjórnmálamönnum og áætlunaráðinu með því að stjórendur teymanna væru ráðnir til nokkuð langs tíma, t.d. 10-15 ár. Um leið mætti hafa svæðisbundin áætlunarráð sem tækju virkan þátt í ætlunargerð, aðalráðið hefði aðallega það hltuverk að samhæfa störf svæðisráðanna  (Lippincott 1974: 38-39). Hættan er sú að ákvarðanakerfið Lippincotts yrði of flókið og þungt í vöfum. En tölvurnar gætu hugsanlega leyst þann vanda. Frjálshyggjumenn halda því fram að Lange hafi vanmetið sköpunarmáttinn sem leysist úr læðingi við raunverulega samkeppni einkafyrirtækja. Markaðssósíalismi að hætti Langes gæti orðið ansi þunglamalegur og gefi lítið svigrúm fyrir nýjungar og tilraunastarfsemi. Því myndi fylgja skrifstofubákn sem gæti orðið frelsinu skeinhætt. Auk þess sé þetta ekkert annað en líkan sem svífi í lausu lofti og hafi fáa snertifleti við veruleikann, segja frjálshyggjumenn  (samkvæmt Ólafi 1978: 78-79, Hannesi 1988: 85-107og Hannesi 1997: 105-128). Frjálshyggjmönnum ferst reyndar að gagnrýna aðra fyrir trú á líkön sem svífa í lausu lofti, hugmyndir þeirra um hin frjálsa einkamarkað einkennist af líkanatrú á vart framkvæmanlegar hugmyndir (ég hef margoft sagt að vart sé hægt að raungera frjálsan markað). En það er út af fyrir sig rétt að það er mikill líkanafnykur af markaðssósíalisma. Reynt var að framkvæma hann að einhverju leyti í Júgóslafíu heitinni en þar réði kommúnistaflokkurinn of miklu (þess utan var markaður fyrir auðmagn þar, gagnstætt hugmyndum Langes). Einnig var reynt að framkvæma markaðssósíalsima í Tékkóslóvakíu sálugu árið 1968. Sú tilraun  hefði kannski heppnast ef ófétis Sovétið hefði látið landsmenn í friði. Segja má að sýndarmarkaður ríki í norska háskólakerfinu en það kerfi þekki ég vel af eigin raun. Háskóladeildir keppa um stúdenta og fá borgað frá ríkinu í samræmi við stúdentafjölda. En til þess að fylgjast með þessu og öðrum þáttum sýndarmarkaðarins hefur orðið að byggja upp heilmikið skrifstofubákn. Kannski yrði sýndarmarkaður Langes ekkert skárri.

Lokaorð

Sósíalismi er nú til umræðu á Íslandi, í fyrsta sinn í áratugi. Ég hef áður kynnt „cyber“-sósíalisma þeirra Pauls Mason og Jeremys Rifkind. Hann, ásamt markaðssósíalismanum,  er eina vitlega hugmyndin um sósíalisma sem ég þekki. En allur er varinn góður.

Heimildir:

Hannes H. Gissurarson (1988): Markaðsöfl og miðstýring. Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar.

Hannes H. Gissurarson (1997): Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Reykjavík: AB.

Lange, Oskar (1936) “On the Economic Theory of Socialism. Part One”, The Review of Economic Studies, Vol 4 (1), október, bls. 53-71 (finnanleg á Neti).

Lange, Oskar (1937) “On the Economic Theory of Socialism. Part Two”, The Review of Economic Studies, Vol 4 (2), febrúar, s. 123-142( finnanleg á Neti).

Lange, Oskar; Taylor, Fred M. (1974)  Om socialismens økonomiske teori (þýðandi  Poul Ipsen). Kaupmannahöfn: Finn Blytmanns forlag.

Lange, Oskar (1969) “The Computer and the Market”, í C.H. Feinstein (ritstjóri): Socialism, Capitalism, and Economic Growth. Essays presented to Maurice Dobb. Cambridge: Cambridge U.P., bls. 158-161 (finnanleg á Neti).

Lippincott, Benjamin E. (1974) “Indledning”, í O. Lange og F.W. Taylor: Om socialismens økonomiske teori (þýðandi Poul Ipsen. København: Finn Blytmanns forlag, bls. 11-40.

Mason, Paul (2015):Post-Capitalism: A Guide to Our Future. New York: Farrar, Straus og Giroux.

Mises, Ludwig von (1922) Die Gemeinwirtschaft. Untersuchungen über den Sozialismus. Jena: Verlag von Gustav Fischer. www.mises.de. Síðast halað niður  8/10 2011.

Ólafur Björnsson (1978): Frjálshyggja og alræðishyggja. Reykjavík: AB.

Taylor, Fred M.  (1929) “The Guidance of Production in a Socialist State”, American Economic Review, 19 (1), bls. 1-8.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu