Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hænueggin brúnu og manneggin rotnu

 Enn einu sinni berast fregnir um svívirðilega hegðun íslenskra auðjöfra.

Fyrirtæki sem kennir sig við brún egg er uppvíst að því að hafa blekkt neytendur til að trúa því að það stundi vistvæna eggjaframleiðslu. Ekki nóg með það, fyrirtækið hefur gerst sekt um dýraníð af verra taginu. Stjórnvöld hafa algerlega brugðist í málinu, eina ferðina enn. Rotin mannegg fá að valsa frjáls, selja neytendum svikna vöru og misþyrma saklausum dýrum.

Önnur rotin  mannegg  telja sig eiga kvóta en dettur ekki í hug að styrkja Landspítalann til tækjakaupa og efla þar með hag almennings. Þessi kvóta-rotnu-mannegg sýna almenningi með því ótrúlegt vanþakklæti, almenningi sem gaf þeim afnot af kvóta án endurgjalds og gerði þá með fokríka. Önnur jafn rotin mannegg vilja ekki borga skatta heldur koma  fé sínu undan í skattaskjól. Atli Þór Fanndal segir í grein sem birtist í tímaritinu Man að rannsókn sýni að íslenskum atvinnurekendum skorti þá samfélagslegu ábyrgð sem einkenni stéttsystkini þeirra á hinum Norðurlöndunum.

Það er ekki hlaupið að því að skýra hvers vegna ástandið er svona. En víst er um íslensk alþýða er litlu eða engu betri en auðkýfingarnir. Tillitsleysi í daglega lífinu er ótrúlegt, menn svína villt og galið í umferðinni. Svinaríið er sagt skaða alla vegfarendur, meira að segja líka tvífættu svínin sem svína. Menn leggja einatt bílum á gangstéttum þannig að gangandi vegfarendur verða að ganga á vegunum sem auðvitað er stórhættulegt. Þessum bílaleggjendum er slétt sama um það, álíka mikið sama og manneggjunum rotnu er um hag dýra sinna. Til skamms tíma stóðu Íslendingar ekki í biðröðum ótiltneyddir, heldur ruddust áfram með frekju og ofstopa. Skattsvik þóttu og þykja enn harla kúl. Er furða þótt íslenskir auðherrar vaði svona uppi? Þeir eru bara auðugar og valdamiklar útgáfur af venjulegum íslenskum frekjuhundum.

Á Íslandi er ógrynni af rotnum manneggjum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu