Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Fimm ára snáði og oftraustið norska

 Lagið heitir The Kids, platan Berlin, söngvarinn Lou Reed:

"They're taking her children away

  Because they said she was not a good mother..."

 

Í bakgrunni heyrist sár barnsgrátur.

 

Drengur dæmdur til vistar

Hvað um snáðann fimmvetra  sem var dæmdur til vistar  í Noregi? Mun hann gráta jafn sárt þegar hann verður tekinn með valdi frá ömmu sinni?  Kannski hefur norska barnaverndarnefndin lögin með sér í þessu sambandi en hver veit nema lögin séu óréttlát. Kannski eru aðstandendur hans ófærir um að sjá um hann en hvers vegna á að senda hann til Noregs? Dreng sem varla kann orð í norsku. Af hverju ekki  vista hann hjá íslenskum fórsturforeldrum? Að senda hann í norska vist er að dæma hann til að verða Norðmaður. Hefur réttarkerfið rétt til að svipta börn samsemd (identiteti) sínu? Spyr sá sem ekki veit.

Norsk oftrú á kerfið

Eins og áður segir ofreyna Norðmenn sig ekki á að gagnrýna barnaverndarnefndina, þó má nefna að sálfræðingurinn Einar Salvesen berst með oddi og egg gegn meintu gerræði nefndarinnar. Einnig félagsskapurinn Barnefjern, á heimasíðu hans er m.a. rætt við Salvesen. Í nýlegri bók, Norske tabuer, gagnrýnir  finnski álitsgjafinn Sanna Sarromaa þrúgandi sáttamenningu í Noregi. Henni tengd  sé sú staðreynd að Norðmenn hafi of mikið traust á kerfinu. Hún tekur sem dæmi litla umræðu um óréttláta  atkvæðaskipan. Dreifbýlisatkvæðin norsku  vega mun meir en þéttbýlisatkvæðin. Sérhvert atkvæði í Finnmörku vegur rúmlega  tvöfalt meir en atkvæði í Ósló (einhver e.m.o.v.s.   hélt því fram að misvægi atkvæða væri séríslenskt fyrirbæri en það er tóm vitleysa, vænissýkis-væl). Sarromaa bendir á að borgaralegu flokkarnir hafi fengið fleiri atkvæði en norsku vinstriflokkarnir í kosningunum 2005 og 2009. Samt hafi vinstriflokkarnir fengið meirihluta á þingi, einfaldlega vegna þess að þeir höfðu meira fylgi í dreifbýlinu. Hún segir réttilega að þetta misvægi atkvæða í Noregi sé ótrúlega lítið gagnrýnt, þó að Öryggis og samvinnustofnun Evrópu  hafi snuprað Norðmenn hressilega fyrir þetta  óréttláta fyrirkomulag.  Hún  telur ástæðuna vera oftrú á kerfið (Sarromaa (2016): Norske tabuer, bls. 217-218). Því er engin furða þótt barnaverndarnefndin sé ekki mikið gagnrýnd í Noregi.

Lokaorð

Spurt er: Á fimm ára drengur að líða fyrir andvaraleysi norsku þjóðarinnar?

Reed syngur áfram:

„…the real game‘s not over here

But my heart is overflowin' anyway..."

 

Eigum við öll að syngja með?

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni