Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Var íslenskt samfélag hakkað?

The medium is the message- Marshall McLuhan

Mér finnst skrítið hvernig íslenskir kjósendur flakka. Það gleður mig að fáir séu enn svo flokksbundnir að þeir íhugi ekki aðra valkosti. Flokkshollusta er ávísun upp á spillingu þar sem flokkunum er aldrei refsað í kosningum fyrir jafnvel alvarleg afbrot og hroka.

Ég skil vinsældir Pírata vel, þeir sýna heiðarleika, staðfestu og tala á mannamáli. Grundvallar hugmyndafræði þeirra er mikilvæg í dag, aðrir flokkar eru enn þá ekki farnir að móta afstöðu gagnvart þeirri þjóðfélags-umbreytingu sem hefur átt sér stað með internetinu (og er að eiga sér stað, og mun eiga sér stað í framtíðinni).

Einn kunningi minn sem var í framboði fyrir pírata í seinustu kosningum og reyndar sat við hlið mér í kínversku tímum (það situr ekki mikið eftir af því fallega máli í hausnum mínum því miður) kom með ágætis greiningu á þeim umbreytingum sem hafa átt sér stað.

Hvers vegna umbreyttust íslenskir kjósendur frá því að vera frjálslyndir og evrópusinnaðir í kosningunum 2009 yfir í að kjósa þjóðernisíhald í næstu kosningum? Hvers vegna eru sömu kjósendur búnir að færa sig frá þjóðernisíhaldinu yfir til teknó-róttæklinganna í pírötum?

Svona greinir Halldór Berg Harðarson þetta:
 

Haustið 2008 bjó ég á strönd í Suður Frakklandi og var að mestu leiti netlaus á meðan. Þegar ég snéri heim aftur var Ísland gjörbreytt. Það hafði orðið efnahagshrun, fyrirtæki og stjórnmálaflokkar risu og féllu en ég man mjög glöggt eftir því að það sem vakti mesta athygli mína við heimkomuna var breytt fjölmiðlaumhverfi. Flestar fréttirnar sem ég las um hrunið voru ekki í gegnum Morgunblaðið eða RÚV. Þær voru í gegnum netmiðla sem hétu ýmsum nöfnum sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Nöfnum eins og Eyjan og Pressan. Þjóðarsálin var heldur ekki lengur á milli 16:00 og 17:00 í útvarpinu, hún var í kommentakerfum þessara miðla. [...]

Það vildi svo til að sú bylting átti sér stað u.þ.b. bil á sama tíma og hrunið. Það voru örar breytingar að eiga sér stað á öllum sviðum og ekki laust við að þessi grundvallarbreyting hafi farið svolítið fram hjá mér. Ég man eftir að hafa tekið eftir því en svo varð þetta bara að nýjum raunveruleika og týndist í hafsjó upplýsinga í huga mér. Ekki í fyrsta og ekki í seinasta skiptið.

Þetta fór samt ekki framhjá öllum. Þegar ég frétti að pressan og eyjan hafði sameinast undir stjórn Björns Inga man ég að þetta var aftur eitthvað sem stakk mig sem eitthvað undarlegt. Var ekki Björn Ingi sami gaur og ætlaði að sigra heiminn nokkrum árum fyrr? Metnaðarfyllsti ungi maðurinn í íslensku stjórnmálalífi? Hafði hann komist að þeirri niðurstöðu að maður fær ekki vald yfir landi í gengum kosningar heldur í gegnum fjölmiðla? Eða hafði hann kannski komist að því að maður fær ekki vald yfir landi í gegnum hefðbundna fjölmiðla heldur í gegnum því að stjórna netumræðunni?

Aftur týndist þetta í huga mér. Björn Ingi og Pressan urðu einfaldlega hluti af landslaginu og athyglin fór eitthvað annað. [...]


Oft eru afleiðingarnar þó öfga- og ýkjukenndara þjóðfélagslíf. Meiri hávaði og hraðari og stærri sveiflur. Hrein vinstrisveifla endar í hreinni hægri sveiflu. Evrópuást breytist í Evrópuhatur. Smá mál verða stór. Stór mál týnast.

Það er auðvelt að framleiða ýmiskonar áhrif í svona umhverfi ef viljinn er til staðar. Oft þarf ekki nema að ýta smá hér eða stöðugt viðhalda ákveðinni umræðu þar og það vindur upp á sig. Ég er ekki svo barnalegur að halda að Björn Ingi sé sá eini sem áttaði sig á því. Þeir voru vafalaust fleiri sem voru fljótari en við hin upp á lagið með að tryggja sér ákveðna stöðu í þessum nýja heimi. Ef ég væri í þeirri stöðu þá myndi ég helst ekki láta bera mikið á því. Það er ekki hægt að espa fólk upp nema að það trúi því að skoðanir þess séu þeirra eigin.

Af hverju segi ég að Ísland hafi verið hakkað?

Jú, því í seinustu kosningum, aðeins 5 árum eftir hrun, stóðu Íslendingar allt í einu þeirri trú að gömlu valdaflokkarnir væru aftur þeir einu réttu. Einhvernveginn trúði fólk því að allt í einu skulduðum við ekki kröfuhöfunum pening, heldur skulduðu ÞEIR OKKUR pening. Að helsta ógæfa Íslands hafi ekki verið bankahrunið heldur ICESAVE (afleiðing bankahrunsins) og orsökin því upprunin frá útlendingum en ekki Íslendingum. [...]

 

Það er enginn snjallari en framsóknarmenn í því að snúa upp á umræðuna. Skella inn sprengju sem snýr athyglinni annað. Við gætum verið að tala um hvernig framsóknarflokkurinn lagði orkuveituna í rúst, hvernig hann er flokkurinn sem bæði fann upp á verðtryggingunni og bjó til húsnæðisbóluna með 90% lánum, en í staðinn erum við að tala um moskur. Framsókn er framsækin og alltaf skrefi á undan.

Eða hvað? Mun þetta á endanum snúast í höndunum á Björn Inga? Það er nefnilega munur á netmiðlunum og gömlu flokksblöðunum sem hleyptu bara að sjónarmiðum eigenda sinna. 

Aldrei í sögunni hefur veðrið í íslensku stjórnmálalífi verið jafn rysjótt, einn daginn er íhaldspopúlismi með meirihluta, þann næsta eru píratar skyndilega að mælast stærsta stjórnmálaaflið á Íslandi. Þótt vissulega hafi undanfarin ár verið lituð af óvæntum uppákomum og skrítnum aðstæðum þá er óhætt að fullyrða að netumræðan hafi gjörbreytt afleiðingunum og hvernig fólk bregst við. Á vissan hátt mætti segja að Píratar t.d. séu að hakka íslenskt stjórnmálalíf með því að tala beint við fólk á netinu, á áður óþekktan hátt [...]

Núna er hins vegar fólk meira og meira á nótunum og það er tækifæri til þess að lagfæra þessa villu strax í dag. Ég vil að almenningur eigni sér umræðuna í landinu í fyrsta skipti í sögunni. Læri að verða betri og betri í því að skipuleggja góða umræðu. Rökræða. Taka þátt í samtali. Gera kröfu um staðreyndir og að öll sjónarmið séu tekin til greina.

Við munum einfaldlega ekki leyfa neinum að komast upp með neitt annað.

 

Björn Ingi keypti eyjuna sem hafði verið frjálslyndur miðill með evrópuáherslur. Hann notar þá góðvild sem bloggararnir hafa þar inn á til að selja leiðara frá Davíð Oddssyni og áróðurspunkta úr þætti sínum á stöð 2. Hann keypti DV, fyrst og fremst til að ná tökum á dv.is, þriðju mest lesnu síðu landsins. 
 

En allt kemur fyrir ekki. Hann nær ekki að kaupa kjarnann eða stundina, kvennablaðið eða alla þá netmiðla sem munu spretta upp í framtíðinni, hann nær ekki að kaupa feisbók eða twitter jafnvel þótt frúin í Hamborg gæfi honum öll auðæfi sín. (Eða bara kona Sigmundar Davíðs).

Við höfum fullt af ástæðum til bjartsýni, jafnvel grúppur eins og beuty tips geta orðið að fjölmiðlum í dag þar sem komið er upp um myrkraverk sem ekki þola dagsins ljós. Já, og jafnvel þótt þið kærðuð alla bloggara og feisbókarnotendur landsins (sjá hér) þá væri það bara spurning um tíma hvenær mannréttindadómstóll Evrópu myndi leiðrétta það. (sjá hér)

 

P.S.

Þið getið lesið feisbókpóst Halldór Bergs Harðarsonar hér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni