Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hjólaskýlið og hrægammarnir

Í metsölubókinni Lögmál Parkinson eftir C. Nortcote Parkinson er athyglisverð dæmisaga um nefnd sem á að ræða byggingu kjarnorkuofns en endar á því að eyða mestum tíma í að þræta um hjólaskúr. Lögmál Parkisons um smámuni eða hjólaskýlis-áhrifin gengur út á að því flóknari og dýrari sem hlutir eru þeim mun minna eru þeir ræddir.

Nefnd hittist til að ræða 10 milljón punda kjarnaofn. Eftir nokkrar mínútur er komist að þeirri niðurstöðu að reisa þurfi ofninn og auka framleiðslu kjarnorkuversins. Að sjálfsögðu hefur enginn sérstakar skoðanir á ofninum í sjálfu sér. Þegar hins vegar kemur að því að ræða hjólaskýlið sem á að reisa fyrir starfsfólk kjarnorkuversins koma fram alls kyns skoðanir. Einn vill nota asbest, annar vill nota járn, einn er á móti því að hjólaskýli sé reist enda algjör óþarfi. Hjólaskýlið kostar auðvitað bara brotabrot af kjarnaofninum, 350 pund skipta engu máli til eða frá í hinu stóra samhengi, ekki liturinn á því heldur. En allir hafa lagt hjólinu sínu einhvers staðar, allir hafa hjólað, allir hafa haft 350 pund í veskinu og skilja hvað sú upphæð þýðir. Eftir 40 mínútna umræður er búið að ákveða að reisa hjólaskýlið en nefndin hefur komist að niðurstöðu sem sparar heil 50 pund.

Þriðja mál á dagskrá varðar kaffi. Allir hafa skoðun á því hvernig kaffi eigi að kaupa inn og engin niðurstaða kemst í málið.

 

Þessi dæmisaga er eiginlega alltaf viðeigandi sama hvað er verið að ræða á Íslandi. Við rífumst um listamannalaun, um hvort að hinn eða þessi pistill hafi verið móðgandi, húsin í miðbæ Reykjavíkur. Allt gott og gilt í sjálfu sér.

En þegar kemur að gjaldeyrishöftunum þá heyrist fátt. Ég skal vera fyrstur til að játa að þegar kemur að stóru tölunum þá fæ ég suð í eyrun og veit ekki alveg hvað ég á að segja næst. Það er samt eitthvað gruggugt við það að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur vilji breyta skattalöggjöf svo að peningar eigi auðveldara með að fara úr landinu. Eitthvað sem kannski varðar ekki minn eigin hóflega stóra og vel-skiljanlega bankareikning sem myndi aldrei þurfa á aðstoð alþjóðlegs skattaráðgjafa til að finna út úr. En gæti samt haft afleiðingar fyrir mig og okkur öll næst þegar það þarf peninga til að kaupa tæki fyrir landspítalann.

Það er svolítil synd að enginn sé búinn að útskýra fyrir okkur gjaldeyrishöftin með nægilega skýrum hætti til að við getum haft skoðun á þeim. Þessi króna er vesen, ég er búinn að ná því, ég veit að InDefence vilja meina að kröfuhafar séu að taka allt of mikið af peningum úr landi og að það ógni stöðugleikanum. Og svo sá ég það sem Össur Skarphéðinsson skrifaði á Feisbókina hjá sér:

Mér er mjög illa við að samþykkja á Alþingi tillögur sem ég skil ekki. Nú ræða menn hér á Alþingi tillögu ríkisstjórnarinnar um að fella niður sérstakan afdráttarskatt á skuldabréf sem kröfuhafar fá í sinn hlut í uppgjörinu við slitabúin. Ég skil ekki tilganginn.. Ísland hefur nú þegar tvísköttunarsamninga við flest, eða öll, lönd Evrópu, og við Bandaríkin. Þar er obbi kröfuhafanna. Mér virðist því niðurfelling þessa skatts eingöngu gagnast þeim sem hafa flúið með fé sitt í paradísir skattasniðgöngu, kröfuhöfum með fjárfesti á eylendum einsog Tortólu. Á meðan það er ekki skýrt fyrir mér hvernig þetta tengist farsælu afnámi gjaldeyrishafta lít ég á þetta sem smyglgóss sem laumað er með í leiðangurinn. Ég lít ekki á það sem mitt hlutverk að standa vörð um hagsmuni Tortólaliðsins.

Eins og ég sagði áðan þá skil ég þetta ekki til fullnustu. En einhver mjög skýrmæltur stjórnmálamaður sem áður barði sér á brjóst með In Defence, sagði mér að hann hefði haglabyssu sem hann hikaði ekki við að nota á hrægammana. Gæti verið að sumir hrægammana séu Engeyjingar eða kannski fyrrum þingmenn framsóknarflokksins. Maður veit ekki. Í augnablikinu eru þetta stórar nafnlausar tölur, alveg eins og þeir sem sviku undan skatti í Tortóla og mikið lá á að sýkna með afturvirkum lögum. (Fyrst barðist ráðherra gegn því að upplýsingar um íslenska skattsvikara yrðu keypt, síðan vildi hann gefa þeim sjéns á að komast undan því að fá refsingu). 

 

En að lokum. Festumst ekki í að ræða hjólaskýlið. Við getum alveg hneykslast á því sem Guðbergur Bergsson sagði um seinasta miðilsfund ef við viljum, en spáum samt í þessum skrilljörðum sem bráðum eiga eftir að hverfa úr íslenskum bankahólfum og yfir til skattfrjálsari landa. Þeir eru mál málana hvort sem við skiljum 5.000.000.000.000.000 krónur eða ekki. Kannski hefur In Defense nokkuð til síns máls og væri ekki fínt að hækka laun kennara, hjúkrunarfræðinga og leggja nýja vegi á vestfjörðum frekar en að láta skrilljarðana safna ryki í Tortóla. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni