Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Íslendingar, þið hafið það gott!

 

Að gefnu tilefni fýsir mig  hugur að birta tvö brot úr kveri einu er koma mun út áður en langt um líður. Kverið ber nafngiftina Bréf, áeggjanir og hugleiðingar um lífsbrandarann og er eftir undirritaðan. Já, það má máske segja að verið sé að misnota aðstöðu sína. En hei svo læra börnin sem fyrir þeim er haft og þessi "spilling" er klárlega upp á borði. En þess fyrir utan þá eru ekki alltaf jólin hvað hugmyndir varðar og því ekki úr vegi að slengja einhverju fram sem þegar hefir verið fest á blað og er viðeigandi á þessum mótmælatímum.

Fyrra brotið:

"Kæru landar,

 mikið hefir borið á mótbárum undanfarið. Mótbárum, mögli og margvíslegum svívirðingum af yðar hálfu. Vissulega get ég eigi staðhæft, og það vil ég heldur ekki gera, að öll séuð þér undir sömu sök seld.

 Það vill nefnilega svo til að tölur sem ég hefi í mínum fórum benda eindregið til að svo sé ekki, að ég hafi ríkan stuðning þjóðfélagsins og fósturjarðarinnar. Vil ég þó ekki taka djúpt í árinni og halda fram að ég sé ástmögur ættjarðarinnar, hið besta sem komið gat fyrir hana, bjargvætturinn, kletturinn í hafinu, vitinn á tanganum, sinnepið á pylsunni, leiðréttingarlimur kynvilltrar kvinnu og þar fram eftir götunum." 

Og seinna brotið:

"Kæri hluti þjóðar, kæri ódæli hluti þjóðar,

[ ... ] 

Mótmælin undanfarið hafa einkum og sér í lagi beinst að lífskjörum almennings sem mótmælendur vilja meina að séu ekki allskostar góð. Raunar er því iðulega haldið fram að lífsgæðin hér séu í verri kantinum og standist engan samanburð. Hvað það varðar leyfi ég mér að fullyrða að sannlega er verið að mála vort gyllta dögurðarland kúkalitum, því nýjustu tölur sýna að vér höfum aldrei í sögu þjóðarinnar haft það betra og erum, hvort sem oss líkar betur eða verr, með hamingjusamari þjóðum sem fyrirfinnast á kúlunni. Vér mættum vera duglegri við að minna oss á þá staðreynd að vér þurfum ekki að svelta og að enginn er heimilislaus nema hann kjósi það sjálfur. Svo mikið er og fullveldi fjöldans.

Þannig má halda fram, eins og tölur sýna fram á, að mótmælendur séu einvörðungu hávær minnihlutaræflarokkshópur, já, pönkarar sem eru eingöngu á móti til þess að vera á móti og eru ekkert nema vanþakklátur skríll og ruslaralýður, mikið til þykjustulistafólk sem lifir á áli og vandlætingu og sér ekki eða neitar að sjá að einmitt vér höfum gert hvað mest fyrir þau. Það erum vér sem sköpum þau og gefum þeim lífsfyllingu og tilgang. Ekki voru forverar oss í starfi svo gjafmildir.

 Kæru landar, þið hafið það gott!"

PS. Hafi einhver hug á að kynna sér téð kver er hér og hér upplýsingar að finna.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu