Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

„Góða fólkið“ vs. „Vonda fólkið“

Umræðan á Íslandi um málefni flóttamanna, sem og annars staðar reyndar líka, virðist oft og tíðum lenda í eins konar öngstræti svívirðinga. Sé notast við umtalsverðar einfaldanir þá kalla þeir sem óttast að innflytjendur og flóttamenn muni verða landi og þjóð til vansa þá sem ekki eru á þeim buxunum einfeldinga og „gott fólk“. Vilja þeir meina að góða, einfalda fólkið sé blindað af pólitískum rétttrúnaði og stigi ekki í vitið. „Góða fólkið“ er oft fljótt að taka upp kynþáttahyggjustimpilinn og uppnefnir þá sem uggandi eru yfir komu innflytjanda og þeim vandmálum sem þeim kunna að fylgja „vont“ og heimskt fólk.

Má sannlega greina yfirlæti hjá báðum fykingum og virðist vera algerlega ómögulegt að sætta þær, eða allavega þá sem hafa sig hvað mest frammi í þessum efnum. Hjá hvorum tveggja er það „my way or the highway“. Varla er afraksturinn mikill af slíku og því síður þegar stjórnmálamenn uppnefna fólk og notast við óyrðin „góða fólkið“ til að gjaldfella orðræðu þeirra sem þeirrar skoðunar eru að landið megi vel við því að opnast og að rétt sé að taka við flóttafólki hvaðanæva úr heiminum . Er ekki skylda stjórnmálamanna að hlýða á raddir samfélagsins séu þær ekki litaðar öfgum sem lítið þýðir að tjónka við?

Þess má svo til gamans geta að þýska orðið „gutmensch“, sem útleggst sem góða fólkið á íslensku, var valið óyrði síðasta árs í Þýskalandi.

En fyrir hvað stendur, á einfaldaðan máta, „góða fólkið“ og fyrir hvað stendur „vonda fólkið“? Hér skal gengið útfrá því að hvorugur hópurinn sé einfaldur, barnalegur, heimskulegur, illa innrættur, hvorki múslima- né nasistasleikjur, vilji ekki menningarlega umpólun, vilji ekki setja veg hins hvíta í öndvegi á kostnað hins ekki hvíta og þar fram eftir götunum.

Hér skal gengið útftá því að „góða fólkið“, almennt séð, óttist  að öfgahópum á hægri vængnum kunni að vaxa ásmegin líkt og raunin hefir verið víðsvegar um Evrópu. Sumir óttast, og skyldi ekki gera lítið úr þeim ótta, að öfgafull þjóðernisstefna verði á ný samkvæmishæf með stofnun flokka sem gera út á, í það minnsta, gagnrýnt viðhorf gagnvart innflytjendum og flóttafólki; að það kunni að vera líkt og örvandi ólöglegt efni á ofbeldishneigða hópa sem aðhyllast að ganga gegn sumum stjórnarskrárákvæðum. Enginn sem ekki er hreinlega eldheitur aðdáandi kynþáttahyggju vill að slíkt eigi sér stað á Íslandi. Má ekki fullyrða slíkt?

Ber ekki að hlýða raddir sem óttast uppgang hægri öfgaflokka?

Hér skal svo gengið útfrá því að „vonda fólkið hafi í sjálfu sér ekkert á móti múslimum en óttist öfgahliðar stefnunnar sem endurspeglast í hryðjuverkum og viðhorfum sem ganga gegn vestrænum stjórnarskrám. „Vonda fólkið“ elur ugg í brjósti gagnvart þeim anga íslam sem er sannlega mannfjandsamlegur og fremur óhæfuverk í nafni spámannsins og Allah. Jafnframt óttast það ýmsa neikvæða fylgifiska "þessa menningarsvæðis", hvort sem heimfæra má þá fiska upp á trúarbrögð eða aðra samfélagsþætti.

Ber ekki að hlýða á þær raddir sem óttast umpólun samfélagsins?

Má og ekki fara fram á að umræðunni sé lyft upp á annað plan? Ágætis byrjun væri máski að hætta að tala um „góða“ og „vonda“ fólkið. Þeir sem eru í stjórnmálum mættu taka það eina helst til sín. Má ekki og spara gífuryrðin og notast við skynsöm yrði?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu