Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Uppfinningamaðurinn og dauði í stjórnmálum

Meðal uppáhaldsbóka minna er Stiklað á stóru um næstum allt eftir Bill Bryson. Hana ættu allir að lesa. Hún eykur skilnings manns á – og meðvitund um – heiminn sem við búum í. Ég reyni að lesa hana á hverju ári. Um helgina las ég einn eftirlætiskaflann minn: Um baneitraða uppfinningamanninn Tómas Midgley.

Tómas þessi þykir stórmerkur efnafræðingur. Hann hlaut mörg heiðursmerki og -tilnefningar á efri árum. Þó hefur saga hans tekið á sig fölari mynd eftir því sem liðið hefur á. Honum virðist enda hafa tekist að vera með eindæmum óheppinn með starfssvið og uppfinningar.

Eins og aðrir ungir menn fyrir svo gott sem nákvæmlega öld var Tómas einkar spenntur fyrir möguleikum í orkuframleiðslu. Fyrst um sinn einbeitti hann sér að jarðefnaeldsneyti. Í þá daga var tiltölulega nýbúið að finna upp bílinn. Sá böggull fylgdi skammrifi að bensín var á þessum tíma ansi brokkgengur orkugjafni. Algengt var að í því yrðu sprengingar með tilheyrandi gangtruflunum og óhljóðum. Raunar man fólk af minni kynslóð líklega flest enn eftir slíkum pústsprengingum í gömlum bílum.

Tómas var lausnamiðaður maður og hann uppgötvaði að með því að blanda blýi í bensín varð það miklu stöðugri orkugjafi. Vandinn er auðvitað sá að blý er stórhættulegt taugaeitur og við því varð að bregðast. Það var gert með því að nefna blýblönduna alls ekki eftir blýi – heldur kallaðist hún eþýl. Þegar efasemdir vöknuðu um að heilnæmt væri að hinn ört vaxandi bílafloti keyrði um spúandi taugaeitri út í andrúmsloftið brást Tómas við með því að mæta á blaðamannafund og löðra sjálfan sig með blýi og anda að sér gufum þess í heila mínútu. Þetta sagðist hann geta gert á hverjum degi án þess að skaða sjálfan sig. Seinna þurfti hann að taka sér sitt annað veikindaleyfi til að glíma við blýeitrun.

Auðvitað varð það svo að blý í bensíni reyndist stórkostlegt heilsufarsvandamál. 

Eftir blýævintýrið sneri hann sér að kælitækni og tókst þar jafnvel verr upp þegar hann fann fann upp nú kæliefni. Það var ekki fyrr en seinna að menn skildu að efnin höfðu í för með sér stórkostleg umhverfisspjöll – og hafa meðal annars nagað gat á ósónlagið, með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn skaðlegra sólargeisla berst gegnum viðkvæmar varnir Jarðar.

Síðustu áratugir hafa snúist að nokkru leyti um að bæta fyrir uppfinningar þessa eina manns og þann skaða sem þær hafa valdið lífinu á Jörðinni.

Ef ljóðrænt réttlæti er til þykir mörgum dauðdagi Tómasar ágætis dæmi þar um. Hann krækti sér í lömunarveiki og þegar hann fann máttinn þverra brást hann við með því að smíða gríðarmikið stoðkerfi með vindum og köðlum sem hékk yfir rúminu hans og tengt var við hann. Með kerfinu átti hann að verða nokkuð sjálfbjarga. Það fór þó illa því dag einn tókst honum að flækjast svo illilega í köðlunum að þeir vöfðust um hann og hengdu hann. 

...

Meðan ég las kaflann varð mér reglulega hugsað til stemmningarinnar í samfélaginu okkar þessi misserin. Það hvernig trúin á athafnasemina virðist vera orðin æðst allra boðorða. Það hvernig samfélagið lendir ítrekað í því að leiða í öndvegi fólk, fyrirtæki og stofnanir sem jafnvel augljóslega valda skaða af margvíslegu tæi.

Þegar ég las um dauða uppfinningamannsins hugsaði ég um stjórnmálamennina okkar. Því laust nefnilega niður í kollinn á mér að pólitískur dauði á Íslandi virðist vera að mörgu leyti hliðstæða þeirra örlaga sem birtast í þessari litlu dæmisögu.

Stórnmálamenn eru gjarnan veiklaðir. Þeim er mikið í mun að vefa utan um sig stoðnet. Stoðnet sem einkennist af samherjum og skósveinum. 

Galdur stjórnmálanna er að láta þetta stoðkerfi ekki sjást. Ef það verður sýnilegt almenningi hengir það stjórnmálamanninn. 

Yfirleitt gengur það vel. Það er enda snilldarlega hannað. Þeir sem eiga að afhjúpa spillt stjórnmál eru virkir þátttakendur í yfirhylmingunni. Fjölmiðlar eru einn möskvi í þessu neti. Þeir eru eins og litlu fuglarnir sem éta flær af rassi flóðhesta. Með því að verða vildarvinir stjórnmálamanna fá þeir að éta upp „skúbb“ þegar það hentar þeim fyrrnefndu. Sagan sýnir að fjölmiðlar eru jafnvel tilbúnir að hylma yfir með glæpum þegar svo stendur á.

Þó hefur það gerst í auknum mæli að stjórnmálamenn verði berir að því að hanga í svona kaðlaneti. Og þá er ég ekki að tala um hinar augljósu vísbendingar eins og þær þegar vildarvinir og gæðingar eru settir í að handstýra stefnumörkun svo að ráðamenn geti þóst vera að vinna faglega. Ég er að tala um enn dularfyllra stoðnet. Það virðist til dæmis vera orðið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er einhverskonar frímúraraklúbbur. Þar passa menn hver upp á annan. Nú hafa til dæmis bæði Illugi Gunnarsson og Hannes Hólsteinn „misst“ húsin sín á síðustu árum. Þrátt fyrir það búa þeir báðir í þeim. Að því er virðist vegna þess að stuðningsnetið var virkjað. 

Þegar spottarnir verða ljósir byrjar fólk að plokka þá og gaumgæfa. Þá kemur í ljós að netið er víðtækara og þéttriðnara en flesta óraði fyrir. Eftir því sem meira er kippt og togað, því fastar herðist það að hálsi stjórnmálamannsins og á einhverjum tímapunkti verður öllum ljóst að hið pólitíska líf er brátt á enda. 

Auðvitað lifir svona net þó af einstaka dauða stjórnmálamenn. Það er eðli neta. Þau eru allsstaðar eins. Einhver annar tekur að sér hlutverk þess fallna í forgrunni og (að því er virðist) kemur hinn fallni sér fyrir aftur í netinu, bara í öðru hlutverki en áður.

...

Ég verð sífellt sannfærðari um mikilvægi þess að læra sögu. Gagnrýnin hugsun er fánýt án söguþekkingar. Án söguvitundar lifir maðurinn í stöðugu ástandi hinnar eilífu verðandi. Maðurinn hefur tilhneigingu til að rasa um ráð fram – og eins og dæmin sanna þarf ekki marga til svo hrundið sé af stað stórskaðlegri atburðarás. Það er ekki einu sinni svo að alltaf sé um yfirdrepsskap eða blekkingar að ræða. Það er til fullt af fólki sem er tilbúið að baða sjálft sig og aðra í blýi – þótt það þekki skaðsemina mætavel.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni