Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Svört staða í kjaramálum kennara

Kennarar felldu „nýjan“ kjarasamning nokkuð sannfærandi. Nú er staðan í grunnskólamálum orðin mjög alvarleg svo ekki séu notuð stærri orð.

Boltinn er núna hjá sveitarfélögum. Ef þau bregðast ekki við á næstu vikum og ætla að humma vandann fram af sér er næstum öruggt að næstu skref kennara eru fjöldauppsagnir seinna í vetur. Og jafnvel einhverjar aðrar aðgerðir.

Ég er enn á því að sá samningur sem nú var felldur hefði getað sloppið í gegn. Kennara langaði ekkert í slag og margir sem kjósa gegn samningnum gera það vitandi það að eitthvað verulegt þarf að gerast til að kennurum verði boðin betri kjör en þetta. Nokkrir hlutir gerðust þó frá því að skrifað var undir sem gulltryggðu að það fjaraði mjög hratt undan samningnum eftir því sem leið á.

Í fyrsta lagi var umræðan um rekstrarvanda skóla í Reykjavík afar slæm. Það er meiriháttar mál ef leik- og grunnskólastjórar stíga fram og segja að skólarnir búi við nærri krónískt og langvarandi fjársvelti. Slíkt svelti bitnar fyrr eða síðar á öllu starfsfólki skólanna, stóreykur álag og stendur í vegi fyrir kjarabótum. Þá hleypti verulega illu blóði í marga kennara að forystumenn borgarinnar skyldu stíga fram og eiginlega saka kennara um að bera ábyrgð á því að skólarnir væru á hausnum. Að þessu leyti eiga bæði Dagur B. Eggertsson og Skúli Helgason talsverða sök á því að samningar tókust ekki nú. Þeir hugsuðu ekki viðbrögð sín við til enda. Kennarar vita það manna best að hinar meintu, ríflegu launahækkanir til kennara eru meira og minna blekkingaleikur sem miðar að því að kennarar endi nákvæmlega þar sem þeir byrjuðu – töluvert undir meðallaunum í landinu. Þó með þeirri breytingu að elstu kennararnir munu árið 2019 kenna miklu meira en þeir gerðu fyrir 2014 vegna þess að nýliðun í kennarastétt er hrunin fyrir allnokkru. 

Sveitarfélögin bera líka ábyrgð með ósveigjanlegri kröfu sinni um að kennarar fylgi Salek-launaþróun. Þau hafa ákveðið einhliða að ekki megi hækka laun neins umfram annarra og með því hafa þau í raun dæmt kennara til að hafa hlutfallslega slæm laun miðað við aðra í samfélaginu. Það að framkvæma leiðréttingar (t.d. svo að laun kennara séu á pari við það sem gerist í öðrum löndum) stangast á við kjarastefnu sveitarfélaganna og er ekki einu sinni til umræðu við samningaborðið. 

Staðreyndin er sú að það komu aldrei til álita neinar breytingar á kjörum kennara nema í langsóttum felumyndum sem höfðu það að markmiði að ýkja kjarabætur og blekkja kennara til að halda að kjör þeirra myndu batna.

Þá féll samninganefnd sveitarfélaga fyrir eigin græðgi við samningaborðið. Í stað þess að álíta það sem sjálfsagðan hlut að kennarar fengju almennar hækkanir næstu 2-3 árin hélt samninganefndin áfram að heimta fórnir á móti. Gera átti mjög misráðna tilraun til að kúga gamla kennara til að bæta á sig kennslustundum og innleiða átti sveigjanleika í hámarkskennslu allra annarra sem í raun og veru engir skólastjórnendur voru að biðja um. Hér var aðeins um venjulega, óþarfa græðgi að ræða. Hefðu sveitarfélög boðið almennar launahækkanir möglunarlaust hefði það eitt og sér mögulega sloppið í gegn af þeirri ástæðu einni að flestir kennarar vilja ekki átök. Eða vildu þau ekki fyrir viku. Nú er það hratt að breytast.

Þá gerði forysta Félags grunnskólakennara og samninganefndin baneitruð mistök. Menn misstu sjónar á stóru myndinni. Í stað þess að vera að vinna að langtímamarkmiðum með skilgreindum áfangastöðum snerist öll samningagerðin um að þóknast þeim sem reiðastir voru orðnir á kjaramálunum öllum saman. Með smá brauðmolum var reynt að friðþægja þeim reiðustu – og samningurinn allur snerist um að laga mistök við fyrri samningagerð. Í þessu ljósi var samningurinn alltof langur. Hann átti að gilda fram eftir árinu 2019. Það er of langur tími þegar ekki er lagt upp með neina raunhæfa framtíðarsýn.

Nú er staðan sú að það er orðið verulega erfitt fyrir forystu kennara að halda áfram. Leikflétta sem nær aftur fyrir 2014 er komin í leikleysu. Það er búið að fá samþykktar ákveðnar breytingarforsendur sem hafa aldrei dugað til neins. Svokallað vinnumat er klúður frá upphafi til enda. Kjarabætur kennara eru ófullnægjandi með öllu og nú er fullreynt með að selja kennurum það að á þessu verði byggt til framtíðar. 

Á sama tíma er erfitt fyrir sveitarfélögin á þessum tímapunkti að grípa til flóttaleiðar sinnar. Allan tímann hefur nefnilega lúrt bak við tjöldin hótun sumra forsvarsmanna sveitarfélaga um að það þurfi ekki samningsvilja af hálfu kennara til að kalla fram þær kerfisbreytingar sem sveitarfélögin ætla sér að knýja fram – en hafa reynst ófær um að semja um. Sveitarfélögin hafa lengi ætlað sér að nota löggjafann til að taka samningsrétt af kennurum ef þeir semja ekki „rétt“.

Nú er landslagið í pólitíkinni hinsvegar flókið og erfitt. Það væri sjálfmorð fyrir núverandi stjórnarflokka að hjálpa sveitarfélögunum að berja kennara niður fyrir kosningar. Og það er alveg óljóst hvað gerist eftir kosningar. Fari svo að sveitarfélögin fái Alþingi til að standa gegn réttmætum kröfum kennara um leiðréttindu launa mun ekkert minna eiga sér stað en stríð. Kennarar munu aldrei una því og skólakerfið mun stórskaðast. 

Staðreyndin er sú að sveitarfélögin hafa aldrei náð tökum á rekstri skólanna. Og leggja þó meira til sinna skóla en ríkið gerir til framhalds- og háskóla. Sú staða er einfaldlega komin upp að þessi mikilvægi hlekkur í skólakerfi landsins riðar til falls. Skólakerfið mun sökkva til botns flækt í akkerisfesti heilbrigðiskerfisins sem sökk á undan.

 

Eins og staðan er núna virðast engir góðir kostir í stöðunni. Forysta kennara þarf að ákveða hvort hún treystir sér til að halda áfram og sveitarfélögin þurfa að ákveða hvort þau láti hótanir sínar verða að verki. Væntanlega er þægilegasti kosturinn sá að þegja í smá tíma. Sá kostur er þó aðeins tímabundið möguleiki því ef ekkert gerist mjög bráðlega munu kennarar grípa til aðgerða og fjölmargir munu segja upp störfum. Því verður ekki forðað.

Hér stefnir nefnilega allt í gamaldags uppgjör. Uppgjör sem eiginlega var óumflýjanlegt í ljósi þess hve skólakerfið hefur fengið að drabbast mikið niður.

Grundvallarvandamálið er síðan það að þeir sem ráða mestu um samskipti sveitarfélaga við kennara bera sáralitla eða enga virðingu fyrir kennurum. Og stjórnmálamennirnir, sem eiga að marka stefnuna, eru meira og minna huglausir og gagnslausir í spennitreyju hagsmunabandalags sveitarfélaga. Stjórnmálamenn hafa bæði framselt vilja sinn og dug til aðila innan kerfisins sem löngu eru búnir að sanna vanhæfi sitt. Stjórnmálamennirnir virðast bara hvorki þora né kunna að gera eitthvað í því.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni