Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Kjarasamningar kennara: Pistill fimmþúsund og eitt

Mér finnst ég hafi skrifað óteljandi pistla um kjarasamninga kennara. Nú er komið að einum enn. Í næstu viku verður nebblega kosið um nýjan samning – sem er ögn breytt útgáfa af samningnum sem kolfelldur var síðasta vor.

Þegar samningurinn féll í vor skrifaði ég:

„Ef þessi samningur lekur ekki í gegn um atkvæðagreiðslu aðeins minna loðinn og með smá gulrót – má búast við mjög viðsjárverðum tímum.“

Og nú er komið að því. Ögn rökuð og með gulrót stendur skepnan fyrir framan okkur. Engar raunverulegar launahækkanir. Nokkurn veginn nákvæmlega sama og það sem var kolfellt. Og miðað við fyrstu viðbrögð kennara má búast við því að mjög margir ætli sér að kasta þessum samningi út í hafsauga með hinum. Þá má reikna með að allt verði vitlaust.

Mig langar mikið til að samþykkja samninginn. Ef hann fellur má reikna með fullkominni óreiðu. Það verður erfitt fyrir forystusveit kennara að sitja áfram.  Það verður erfitt að halda viðræðum áfram á þeim nótum sem gert hefur verið síðustu ár og allt ferlið sem verið hefur í gangi lendir í uppnámi. 

Innan raða sveitarstjórnarmanna sitja síðan skammsýnir púkar á fjósbitum og bíða þess að geta lýst yfir þroti í samskiptum kennara og samtaka sveitarfélaga svo hægt sé að fara dönsku leiðina og afnema samningsrétt kennara með lögum. 

Það er mjög alvarlegt mál ef þessi samningur fellur – og ef kennarar fella hann verða þeir að vera tilbúnir í alvöru átök. Og þau átök verða grimm – og að sumu leyti munu átakalínur liggja innan stéttarinnar sjálfrar. 

Þess vegna er svo grátlegt-svo sorglega hroðalegt að samningur sem átti að vera leiðrétting á feilsporunum í síðasta samningi skuli enn fela í sér ótrúlegan galla.

Allt varð vitlaust í síðasta samningi vegna gæslumála. Gallinn við núverandi samning er af sama meiði. Nú er opnað á það að sveitarfélög hagræði í launakostnaði með því að fela kennara kennslu tveggja aukastunda í hverri viku. Að vísu hefur kennari neitunarvald en það vald er veikt. Alveg eins og kennarar áttu að hafa neitunarvald gagnvart gæslu – en höfðu það ekki þegar á reyndi í nærri öllum tilfellum. 

Vinnumatið sem kjarasamningurinn byggir á er óskapnaður. Helst hefðum við þurft að losna við það fyrir fullt og allt. Það er bara skaðlegt rugl.

Nú hefst sumsé dans þar sem skólastjórar reyna að sannfæra kennara um að þeir hafi rými til að kaupa launahækkanir með aukinni kennslu – og, það sem verra er – sveitarfélög hafa ekki nokkra ástæðu til að ráða einn einasta kennara hér eftir til starfa í minna en 28 kennslustunda starf – í stað 26 nú. Það verður fullkomlega löglegt og í fullu samræmi við samninginn. 

Þó verður að segja að núverandi samningur sé framför frá samningnum sem féll í vor að því leyti að þá höfðu menn engan vara á sér gagnvart þessu ákvæði og það var opið í báða enda. Nú er þó 28 stunda þak á því.

En 28 stunda þak eða ekki breytir því ekki að samningurinn inniheldur raunverulegan hagræðingarmöguleika fyrir sveitarfélögin – sem þýðir auðvitað um leið að mjög líklega þarf að kaupa launahækkunina með aukinni vinnu. Sveitarfélögin væru ekki með þetta ákvæði inni nema ætla að nota það. Þar vilja menn að kennarar kaupi sínar launahækkanir sjálfir. 

Og það í stétt sem er krónísk álagsstétt.

Það er ekki langt síðan því var haldið fram fullum fetum að kennarar hefðu fengið stórkostlegar launaleiðréttingar fyrir stuttu. Meira að segja trúðu margir kennarar því að vinnumatið myndi leiða til miklu betri kjara. Núna er staðan sú að kennarar hafa nánast ekkert fengið nema það sem allir hafa fengið nema að litlu leyti – og þá í skiptum fyrir aukna vinnu.

Eina launahækkun kennara síðustu ár er í raun borin uppi af eldri kennurum sem leggja á sig miklu meiri kennslu en áður og borga þannig þá tíund eða svo sem laun kennara kunna að batna á næstu misserum.

Staðan er svört. Forysta kennara situr á suðupotti. Kennarar eru reiðir, örvæntingarfullir og sárir. Sveitarfélögin virðast ekki ráða við það verkefni að eiga í heilbrigðum og uppbyggilegum samskiptum við þetta vinnuafl sitt. Stjórnmálamenn á sveitarstjórnarstigi eru upp til hópa huglausar gungur þegar kemur að málefnum kennara og embættismennirnir sem fara með málaflokkinn eru Excel-þumbar.

Danska leiðin þýðir stríð. 

Áframhald á þessu þýðir áframhaldandi hnignun. Þróttlítið skólakerfi sem hnígur hægt og rólega til viðar með útþrælkuðum kennurum á sjötugsaldri.

Það er eiginlega kominn tími til að sveitarfélögin skili skólanum til ríkisins og játi sig sigruð. Þau kunna þetta ekki, þau geta þetta ekki. Þau náðu aldrei tökum á þessu verkefni. 

Verði þessi samningur samþykktur framlengist dauðastríðið um nokkur misseri. Og líklega bara vegna þess að nógu margir kennarar óttast meir að eiga ekki mat ofan í börnin sín í verkfalli en að starfa í hægdrepandi kerfi.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu