Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ótti Óttars

Smábörn orga, gamalmenni nöldra. Þessi ævagömul sannindi komu upp í huga minn þegar ég las enn eina greinina hans Óttars Guðmundssonar um það hvernig við aumingjarnir værum hætt að bera harm okkar í hljóði.

Ég las einhverntíma að ástæðan fyrir nöldri gamalmenna væri sú sama og fyrir gráti ungbarna – að þetta væru óttaviðbrögð þeirra sem finnst heimurinn framandi og ógnvekjandi staður, afhjúpað varnar- og áhrifsleysi. 

Það er alls ekki svo að einhver gerbreyting sé bundin við það hvernig við tökumst á við áföll. Forsíðuviðtöl um sjúkdóma, barna- og makamissi eru ekki merki um það að mannkynið hafi tekið einhverja u-beygju í því hvernig hún höndlar áföll. Forsíður glansblaðanna þessa dagana eru uppteknari af því að þekkt leikkona muni eftir forsetanum á bleiunni, að skemmtikraftur hafi svo mikið að gera að hann hafi ekki tíma fyrir Pókemon Gó og að umdeildur lögreglustjóri hafi étið kolkrabba á Azor-eyjum. 

Við erum nefnilega ekki bara farin að bera sorg okkar á torg í áður óþekktum mæli, við berum allt á torg. Hin eiginlega bylting nútímans er bylting í samskiptum. Hugsanir okkar og orð fá langfleygari og hraðskreiðari vængi en nokkru sinni fyrr. Áar okkar þjáðust í hljóði vegna þess að þeir gerðu meira og minna allt í hljóði – en ekki vegna þess að þeir væru meiri hreystimenni en við.

Þannig hafa eldri Íslendingar kynslóð fram að kynslóð látið nútímann skaprauna sér – án þess að það hafi orðið tilefni síendurtekinna upphrópanna og blaðaskrifa. Það er ekki vegna þess að þeir hafi betur þolað þá þjáningu að horfa upp á samfélag sem þeim mislíkar án þess að láta á því bera. Það er ekki vegna þess að þeir höfðu þann sálræna styrk að þurfa ekki stöðuga áfallahjálp í formi útrásar, umræðu, lasts og lofs. Það er einfaldlega vegna þess að þeir bjuggu í meira fámenni og við meiri einangrun.

Hjól tímans hefur verið notað til að færa okkur nær hverju öðru. Við erum meiri þátttakendur í lífi hvers annars. Við deilum sigrum, sorgum og fánýti hvert með öðru. 

Vegna þess að maðurinn er félagsvera. Hann getur ofið listilegan sammannlegan vefnað þar sem hugsanir, hugmyndir og tilfinningar bergmála um hinn manngerða heim.

Það er þess vegna sem börn hafa alltaf grátið og gamalt fólk hefur alltaf nöldrað – hin eilífa leit eftir bergmáli eigin tilveru.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni