Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Óheiðarlegt Davíðsframboð

Það er einkennileg þversögn milli þeirrar ímyndar sem reynt er að mála af forsetaframbjóðandanum Davíð Oddssyni og þeirra aðferða sem beitt er í baráttunni. Framboð Davíðs er þegar (á mjög stuttum tíma) líklega orðið ódrengilegasta og óheiðarlegasta framboð í sögu forsetakosninga. Og hefur þó ýmislegt gengið á.

Eftir að ljóst varð að hringferð Davíðs um landið skilaði ekki þeirri fylgisaukningu sem vonast hafði verið til hefur framboðið verið keyrt áfram á fáu öðru en dylgjum og lygum. Svo virðist sem Davíð láti síðan leikstýra sér á sömu braut.

Vandinn er að framboð Davíðs átti að snúast um reynslu, áreiðanleika og ráðdeild. Það virtist allavega vera hugmyndin framan af. Það þarf enga stórsnillinga til að átta sig á því að kjósendur kaupa ekki slíkan boðskap af berlygnum klækjarefum – að minnsta kosti ekki í sæmilega opnu og upplýstu samfélagi.

Kannski er þetta ígrunduð ákvörðun. Það má vera að aðstandendur framboðsins séu komnir í slíka þröng að þeir reyni í örvæntingu öll ráð til að stórauka fylgi Davíðs á stuttum tíma – og þeir geri sér grein fyrir því að lítils árangurs sé að vænta sé kastljósinu beint að frambjóðandanum sjálfum og mannkostum hans. Kannski telja þeir að eina ráðið sé að ata aðra auri. 

Það mun að sjálfsögðu ekki virka. Með hverjum deginum sem líður dofnar ímyndin um Davíð sem hinn föðurlega og fyndna karl úr fortíðinni og sú sannreynd verður augljósari að maðurinn er tímaskekkja – sem getur ekki einu sinni sagt brandara skammlaust.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni