Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Forsetaframbjóðendur – mín sýn á þá

Nú styttist í að maður þarf að fara að velja sér forseta. Línur eru farnar að skýrast. Mér skilst að níu eða tíu hafi skilað inn framboðum. Þeir koma hér í stafrófsröð og álit mitt á þeim:

Andri Snær Magnason: Ég kann að meta málflutning Andra. Af öllum frambjóðendum virðist hann vera sá eini (fyrir utan kannski Ástþór!) sem hefur hugmyndafræðilega víðsýni þegar kemur að framtíð þessarar þjóðar. Meira og minna allt sem Andri segir um þarfir þjóðarinnar til að breytast er rétt. Raunar svo óumdeilanlega rétt að það er leiðinlegt að hrepparígur og skammsýni hefur komið því til leiðar að það er viðtekið hjá fáránlega stórum hópum að hann sé róttækur eða öfgafullur. Hann er það alls ekki. Í alþjóðlegu samhengi er hann meira að segja frekar „meinstrím“. Hann virkar bara róttækur innan um afdankaða molbúa. Galli Andra er yfirborðskenndur. Hann virðist vera intróvert og á auðveldara með að virka snjall á prenti en í orði. 

Ástþór Magnússon: Að sumu leyti hefur sagan verið Ástþóri hliðholl. Það hefur oft verið sannleikskorn í því sem hann hefur verið að segja. Vandamálið er hann sjálfur. Hinn augljósi banabiti hans er að friðarboðskapur verður aldrei sannfærandi úr munni manns sem er jafn herskár og aggresífur og Ástþór. 

Davíð Oddsson: Sé öllu til haga haldið þá er það alveg rétt að Davíð lét óánægju sína í ljós þegar góssið í græðgisvæðingunni sem hann kom til leiðar fór að falla í hendur óvina hans. Hann átti líka nokkur augnablik á valdastóli sem voru býsna falleg. Loks var býsna svalt að Davíð skyldi hrinda Ólafi Ragnari út af sviðinu. Vandi framboðs Davíðs sést kannski best á stuðningsmönnum hans. Hirð Davíðs er frekar aum. Litlir, hræddir kallar sem vilja fá sterkan leiðtoga í sína óttaþrungnu tilvist. Enda ætlar Davíð fyrst og fremst að fara fram á þeirri forsendu að hann sé óhræddur við að taka af skarið. Það er vissulega hugrakkt – en vanhugsað. Þótt ekki sé nema vegna þess að þessi sama dómgreind hefur oft og ítrekað reynst einstaklega óáreiðanleg og siðferðilega vafasöm. Framboð Davíðs líður mest fyrir stuðningsmennina en næst mest fyrir það að hrópandi ósamræmi er milli sterkukarlaímyndarinnar og þeirrar augljósu staðreyndar að í þessum kosningum er Davíð leppur. Hann er handbendi þeirra sem óttast róttækar breytingar í auðlindamálum. Fólkið sem haldið hefur Davíð uppi síðustu ár ætlast nú til að fá greiðann endurgoldinn. Hann skal drepa allar tilraunir til að breyta stjórnarskrá. Þess vegna hleypur hann á eftir egói sínu út á vígvöllinn eins og asni á eftir gulrót þótt öllum, m.a.s. stórum hluta Sjálfstæðismanna, sé það algjörlega ljóst að hann er búinn að missa það.

Elísabet Jökulsdóttir: Hún ætlar að púlla Gnarr á þessar kosningar. Sem auðvitað mun aldrei virka. Þótt ekki sé nema vegna þess að þjóðin er svo gegnsýrð af karlrembu að hún er ekki tilbúin að sætta sig við konu í hlutverki trúðsins.

Guðni Th. Jóhannesson: Jafn skrítið og það er þá nýtur Guðni yfirburðafylgis vegna þess að hann náði plássinu sem Davíð ætlar sér að troðast í. Á tímum þegar þjóðin sat skelfingu lostin fyrir framan skjáina og velti því fyrir sér hvers konar fávita hún hefði kosið yfir sig gat hún huggað sig við það að Guðni virtist hafa allt á hreinu. Og þegar kemur að forsetaembættinu þá kemst Guðni eins nálægt því að hafa allt á hreinu og komist verður. Að auki virðist hann einlæglega viðkunnalegur náungi og skemmtilegur. Hann mun sigra kosningarnar vegna þess að hann hefur augljóslega hæfni til að gegna embættinu og stórum hluta þjóðarinnar líkar við hann. Tilraunir til að sverta hann koma fyrst og fremst úr herbúðum klækjarefa. Þær missa flestar marks nema Guðni sjálfur fari að eltast við þær. Ég sé raunar aðeins einn galla á framboði hans. Hann hefur sagt að hann hafi verið farinn að íhuga framboð um áramót. Í því ljósi er dálítið óþægilegt að hann hafi tekið að sér svo stórt hlutverk sem varð í fréttaskýringum er vörðuðu forsetaembættið. Þar er hagsmunaárekstur. Vissulega ekki eins stór og að láta vildarvin skrifa ógnarlanga lofrullu um mann sjálfan í blað sem maður ritstýrir eða láta vef sama blaðs sýna frá opnun manns eigin kosningaskrifstofu. En þetta er óþægilegt engu að síður. Á móti kemur að Guðni hefði auðveldlega getað þagað um þetta atriði til að líta betur út. Hann gerði það ekki enda virkar hann ærlegur. Og ekkert í framgöngu hans síðustu vikur og mánuði gefur annað í skyn en að hann hafi komið heiðarlega fram.

Guðrún Margrét Pálsdóttir: Samkvæmt Guðrúnu hafði ekki hvarflað að henni að fara í forsetaframboð fyrr en maðurinn hennar sagði henni að gera það. Hún tók upp Biblíu og „boraði fingrunum“ í hana og Guð sagði henni að taka slaginn. Og auðvitað gerði hún eins og Guð skipaði. Ég vona í lengstu lög að konan verði ekki forseti séu ákvarðanir hennar teknar svona. Það er aldrei að vita hvað Guð segir henni að gera næst.

Halla Tómasdóttir: Halla reynir mikið þessa dagana að gefa til kynna að henni hafi blöskrað viðskiptalífið á sínum tíma. Það hafi verið eftirsókn eftir vindi. Allt hafi snúist um ofsavöxt án innihalds. Hún hefur líka fengið mun meiri athygli en búast mætti við sé miðað við það fylgi sem hún hefur í skoðanakönnunum. Að því er virðist vegna þess að gengið er út frá því að hún verðskuldi athygli því hún sé kona (jafnvel eina konan í þessum slag sem taka ætti alvarlega). Tengsl Höllu við viðskiptalífið eru þó augljóslega skaðleg framboðinu. Og jafnvel því skaðlegri sem hún heldur því hærra á lofti að hún hafi haft djúpstæðar efasemdir um þetta allt saman. Því fylgja nefnilega óþægindi að hugsa um forsetann í klappstýruhlutverki. Við höfum af því bitra reynslu og hluti af léttinum við að losna við Ólaf Ragnar er að þvo hendur okkar af þessum þætti embættisins. Ég upplifði það þannig að það væri að komast skriðþungi í framboð Höllu nýlega en ég er hræddur um að hún hafi klúðrað því með klaufaskap. Hún reyndi til dæmis að vera hipp og kúl á Twitter – og var hvorugt – og svo er bréf hennar til Guðna þar sem hún telur upp allt það frábærasta við sig vandræðalegt.

Hildur Þórðardóttir: Það er vissulega jákvætt að það skuli bæði vera kven- og karl rugludallar í framboði. Það er tímana tákn. Hildur á auðvitað engan séns. Hún á heldur ekki að eiga séns. Ekki frekar en Ástþór. Þótt ekki sé nema vegna þess að konan hélt því í alvöru fram að brjóstakrabbamein væri tilkomið af neikvæðum tilfinningum og hefði ekkert með erfðir að gera. Konur sem létu taka af sér brjóstin í forvarnarskyni væri að láta plata sig – því neikvæðar tilfinningar myndu bara drepa þær með hjartaáfalli í staðinn. Tilraun hennar til að segja að hún hafi í engu gert lítið úr vísindum sýna svo ekki verður um villst að hún skilur ekki vísindi. Þótt forsetinn sé vissulega ekki vísindamaður þá getur hann breytt áhrifum sínum og því ætti hvorki helfararafneitari, hlýnunarafneitari né svona augljós kuklari að sitja á Bessastöðum.

Sturla Jónsson: Má heldur ekki verða forseti. Þótt ekki sé nema vegna þess að hann hefur svo gott sem hótað því að verði hann kosinn ætlar hann sér að verða einræðisherra yfir Íslandi.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu