Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Nýr kjarasamningur kennara: Úr öskunni í eldinn

Í gær hætti störfum í skólanum mínum farsæll og reynslumikill kennari „langt fyrir aldur fram“. Þessi kennari taldi tímabært að róa á önnur mið – allavega í bili. Fyrir skólann er þetta áfall. Skarð kennarans verður ekki fyllt. Með honum fer gríðarmikil reynsla og alveg sérstök fagþekking sem er orðin harla fágæt á „kennaramarkaðinum“. 

Þetta er aðeins ein birtingarmynd djúpstæðari vanda. Allt frá því sveitarfélögin tóku við grunnskólanum hefur skammsýni og skilningsleysi leitt til þess að starf kennarans hefur svo gott sem verið eyðilagt. Í dag hvarflar ekki að ungu fólki að mennta sig til kennslu. Og þetta gerist á sama tíma og allar þjóðir í heiminum hafa áttað sig á því að án eflingar kennslu eru verulega viðsjárverðir tímar framundan. Fréttir síðustu daga hafa staðfest að hrun verður í „kennarastofninum“ í náinni framtíð. Ofan á það bætist þegar kennarar, eins og samstarfsmaður minn, kjósa af hverfa af vettvangi löngu fyrir ætluð starfslok.

Sveitarfélögin eru enn sömu þumbarnir. Það er orðið ansi langt síðan þeim varð ljóst að þau eru í miklum vanda. Í stað þess að ráðast að rót hans og fylgja fordæmi annarra þjóða – hafa allar aðgerðir þeirra síðustu misseri snúið að því að finna herbrögð sem tefja fyrir algjöru hruni með því að kreista meira út úr þeim kennurum sem þó hafa enn ekki horfið á braut.

Ein orsök vandans er hið illa launaða starf íslenska kennarans. Önnur er djúpstæð vanvirðing fyrir menntun. Framhaldsskólar og háskólar eru hér á landi svo alvarlega fjársveltir og stuðningur við námsmenn svo skammarlega lítill að það er full ástæða til að draga í efa að það sé raunverulegt markmið þjóðarinnar að viðhalda almennri velsæld í landinu. En höldum okkur við kjör kennara, nánar tiltekið grunnskólakennara.

Nú standa grunnskólakennarar frammi fyrir þriggja ára kjarasamningi sem að mati forystu Félags grunnskólakennara (FG) leiðir til þess að árið 2019 hafi kennarar náð að fylgja þeim hækkunum sem aðrir munu þá hafa fengið. Að auki hafi kennarar (með síðasta samningi) tekið að sér aukna vinnu og selt burt réttindi fyrir einhver tíu prósent eða svo. 

Það megi því túlka þannig að kennarar hafi haldið sjó – eða jafnvel að þeir hafi bætt um betur.

Raunin er sú að sá samningur sem nú situr á borðinu mun í engu breyta þeirri staðreynd að kennarar á Íslandi fá afkáralega lág laun. Launahækkanir kennara hafa síðustu áratugi ýmist verið keyptar með því að selja burt réttindi eða með því að kennarar hafa á örskotstíma aftur verið dregnir afturfyrir aðra í launum. Kennarar hafa ekki náð meðallaunum í landinu árum saman og það mun ekkert breytast með þessum samningi. Hvað þá að Ísland verði eins og önnur lönd þar sem kennarar eru töluvert yfir meðallaunum. Þar er enda talið brýn nauðsyn til að hægt sé að laða hæft fólk til starfa – ekki hér.

Með því að samþykkja samninginn sem nú eru greidd atkvæði um ákveða kennarar að halda þessum sama leik áfram næstu þrjú árin.

Það er hinsvegar örugglega rétt mat hjá samninganefnd kennara að meiri launahækkanir séu ekki í boði núna og það er engin skömm að því að bera á borð fyrir kennara það besta sem í boði er. Það eru enda kennarar sjálfir sem taka þurfa ábyrgð á því að fella samning. Alveg eins og þeir þurfa að bera ábyrgð á því að samþykkja þá.

Mér sýnist samt að samninganefnd og stjórn FG hafi mjög alvarlega misskilið tilteknar breytingar sem láta ekki endilega mikið yfir sér en til stendur að festa í sessi með þessum samningi.

Sveitarfélögum er mjög í mun að festa í sessi svokallað vinnumat. Frá þeirra dyrum séð snýst vinnumat um að breyta kennurum í einfalda undirmenn undir verkstjórn skólastjóra. Það er liður í því að ná fram hagræðingu. Til að manna stundir með nemendum sem hafa til þessa verið kostnaðarsamir veggir í kjarasamningum. Sveitarfélög vilja auka tíma með börnum og minnka tíma sem fer í annað. 

Sem segir sig algjörlega sjálft – og er útpælt viðbragð þeirra við því að fækkun kennara er í fullum gangi.

Fyrir síðasta samning voru sveitarfélög komin svo langt í þessa átt að þau hótuðu að ná þessum markmiðum fram með lagasetningu ef kennarar myndu ekki samþykkja slíkar breytingar. 

Með stórkostlegri fléttu af hálfu FG tókst að pakka breytingunum inn í þannig búning að margir kennarar héldu að til stæði að létta á þeim vinnuálagi. 

Ásetningur sveitarfélaga varð þó strax ljós þegar samningurinn kom til framkvæmda. Sveitarfélög fóru mörg rakleitt í það að plokka út úr kennurum ókeypis störf með nemendum sem áður höfðu kostað – og hefja þannig þá vegferð að fækka starfsfólki skólanna. Sum sveitarfélög biðu á meðan önnur riðu á vaðið. Samband sveitarfélaga var búið að fyrirskipa stórsókn næsta haust þar sem reka átti harðari hagræðingu en hingað til.

Og þá var samið.

Menntavísindasvið HÍ gengur svo langt að auglýsa kennaranám þessa dagana undir þeim formerkjum að laun kennara muni hækka um tæp 10% næstu ár og þess vegna sé þetta einmitt rétti tíminn til að hefja nám. Ég held að sviðinu færi betur á því að hinkra og sjá hvort samningurinn verður samþykktur. Það er nefnilega alls ekki víst.

Ég mun ekki samþykkja samninginn.

Af þeirri einföldu ástæðu að mér sýnist á öllu að hér hafi kennarar enn látið taka sig í bólinu. Ég furða mig raunar á því hve blindir þeir eru á raunverulegan ásetning sveitarfélaga þegar sá sami ásetningur er rækilega skjalfestur og augljós öllum sem vilja sjá.

Nú er okkur sagt að nýi samningurinn sé framför frá þeim síðasta. FG segir að nú hafi tekist að laga það sem aflaga fór við síðasta samning. Það er bara ekki satt – og það sem meira er – það er vaðið úr öskunni í eldinn í þeim efnum.

Ég verð að viðurkenna að ég dáist dálítið af samningamönnum sveitarfélaga. Þeir eru lúmskir andskotar. Þeim virðist takast að blekkja eða ginna samninganefnd kennara ítrekað.

Nú ætla ég að rekja það sem gerðist nú og er ástæða þess að alls ekki má samþykkja samninginn.

Síðasti samningur var umdeildur. Sveitarfélög ætluðu sér þrjá hagræðingarmöguleika. Þau ætluðu að auka kennsluskyldu eldri kennara, fá ókeypis forfallakennslu og ókeypis gæslu.

Þau náðu fram fyrsta markmiðinu. Þau gáfu annað markmiðið eftir. Þau héldu inni því þriðja.

Deilan um síðasta samning og hin vonda reynsla sem nú átti að læra af snerist að mestu leyti um gæslu.

Í kjarasamningi var nú sagt að kennari sem pláss hefði fyrir gæslu mætti taka gæslu án launa. Túlkun FG var allan tímann sú að hann mætti að sama skapi neita að gera það. Sveitarfélög voru bara ekki sammála því – og fjölmargir kennarar voru neyddir til að taka gæslu og búið var að gefa skólastjórum víða um land þá tilskipun að næsta haust yrði gengið enn lengra í að innheimta ókeypis gæslu.

Í nýja kjarasamningnum var eldra ákvæði um gæslu sett aftur inn. Samkvæmt því á að greiða yfirvinnu fyrir gæslu.

Margir gætu kannski hugsað sér að samþykkja samninginn bara út á það. Sum sveitarfélög hafa meira að segja lofað að settir verði peningar í gæslu næsta vetur.

Í mínum skóla er gæslan sáralitlar upphæðir. Og miðað við formann FG er vægi sölu hennar um 1% af launum (sem er athyglisverð fullyrðing í ljósi þess að sami formaður hefur hingað til haldið því ítrekað fram að ekkert hafi verið selt með gæsluákvæðinu). En gæslan eru smámunir. Miklu peningarnir liggja í forföllum og kennsluskyldu.

Og þar spiluðu sveitarfélögin vel að þessu sinni.

Inn í samninginn fór ákvæði sem í raun og veru þýðir að þú gefir stórkostlegan afslátt af forfallayfirvinnu gegn því að njóta sveigjanleika í vinnu. Þurfir þú til dæmis að fá leyfi frá vinnu vegna þinna eigin barna eða fjölskyldu má krefja þig um að vinna það af þér með formlegum og mjög hagstæðum hætti fyrir sveitarfélögin.

 Eftir sem áður er ekkert sem bannar sveitarfélögunum að gjalda forföllin fullu verði. Þau hafa hinsvegar þennan möguleika sem er þeim miklu ódýrari. Og auðvitað verður markvisst unnið að slíkri hagræðingu.

Í mörgum skólum er það blessunarlega svo að kennarar njóta sömu möguleika og aðrir til að sameina fjölskyldulíf og vinnu. Á sama hátt og við tökum á móti foreldrum til okkar á skólaskemmtanir og samráðsfundi – förum við og horfum á börnin okkar stíga á stokk og við reynum að virða undirbúningsdaga annarra svo eitthvað sé nefnt. Í flestum tilfellum er þetta lítið mál. Þó ekki öllum.

Hér hefur hinsvegar verið opnuð hagræðingarhola þar sem sveitarfélög geta gert sér kröfu um sveigjanleika að féþúfu. Það þarf ótrúlega skammsýni til að halda að það verði ekki nýtt.

Hitt er verra að í stað gæslunnar fór inn ákvæði um að láta megi kennara taka að sér meiri kennslu en hingað til – án launa.

Formaður FG mun fullyrða þar til hann verður blár í framan að ákvæðið sé þannig að það verði aldrei virkjað nema kennari kjósi það sjálfur. Þetta sé í raun og veru aðeins leið til að verða við óskum einhverra kennara sem sjálfir vilja kenna meira og gera minna af öðru.

Raunar kemur fram í kynningarefni FG að þetta sé möguleiki, óski kennari þess.

Ég vissi ekki hvort ég ætti að gráta eða hlæja þegar ég skoðaði þetta. Þetta er nefnilega nákvæmlega eins ákvæði og gilti um gæsluna – sem síðan reyndist baneitrað. Og þetta er nákvæmlega sami formaður og tilkynnti að það ákvæði snerist líka algjörlega um óskir kennarans.

Það var sumsé stoppað í gat í kjarasamningi með því að klippa utan um það miklu stærra gat.

Þetta er ákvæðið um gæslu sem féll brott vegna þess að það var notað til að neyða kennara til að gefa ókeypis gæslu:

„Skólastjóri getur, í samráði við kennara, falið honum gæslu nemenda s.s í frímínútum og hádegishléi og telst sá tími til annarra starfa innan B þáttar.“ 

Og þetta er ákvæði um aukreitis kennslu í samningnum sem nú er kosið um:

„Skólastjóri og kennari geta gert samkomulag um að kennari kenni meira eða minna og minnki eða auki þannig tíma til verkefna í B-þætti.“

Hér skiptir þessi B-þáttur öllu máli. Það er enginn grundvallarmunur á samráði og samkomulagi. Þeir stjórnendur sem létu kennara taka ókeypis gæslu í vetur fengu kennara til að skrifa upp á samkomulag þess efnis. Kennarar voru einfaldlega beittir þrýstingi. Til dæmis með þeim hætti að þeim væri tilkynnt að annað hvort tækju kennarar gæslu ókeypis eða að einhverjum yrði sagt upp.

Það sem meira er: Á hinu nýja ákvæði er ekkert þak. Kennarar, sem fyrir örfáum árum áttu að kenna 24 kennslustundir á viku, skulu nú kenna 26 tíma með möguleika á sveigjanleika í báðar áttir. Ég hef eftir samningarnefndarmanni að álit samninganefndar sé að sveigjanleikinn sé aðeins tvær stundir í hvora átt. Ekkert í samningnum styður það. Raunar virðist eina röksemdin fyrir því að skólastjóri muni ekki fara fram á 29 tíma, 30 tíma eða 32 tíma af einstökum kennurum vera sú að það Excel-skjal sem núna er notað til að fylla inn í vinnumat kennara geri ekki ráð fyrir því!

Ég sagði formanni FG þegar síðasti samningur lá fyrir að skólastjórar myndu ekki borga fyrir gæslu ef þeim stæði hún frí til boða. Jafnvel þótt menn skildu þetta þannig að kennarar hefðu neitunarvald. Kennurum yrði einfaldlega settur stóllinn fyrir dyrnar. Í boði væri starf upp á þessi býtti. Formaðurinn harðneitaði að það gæti gerst og sagðist ekki geta gert samning sem í væru tryggingar gegn lélegum skólastjórum.

Nú hafa verið viðurkennd mistök að þessu leyti og nýr samningur gerður. Nema að í þetta skiptið er opnað á þann ótrúlega möguleika að kennaranemi sem lætur glepjast af næstum 10% hækkun á námstímanum getur staðið frammi fyrir því að sækja um starf og fá þær upplýsingar að honum standi til boða starf þar sem hann skuli kenna 28 eða 30 eða 32 tíma innan vikulegrar vinnuskyldu. Honum verði haldið frá þróunarstarfi í staðinn. Og þessu boði má hann hafna eða taka.

Verði þessi samningur samþykktur munu sveitarfélög fara markvisst í að nýta þessa hagræðingarsmugu sem hingað til hefur verið lokuð. Og það er boðið upp í dans. Kennarar munu lenda í þeirri stöðu að þurfa að standa skil á hverju handtaki, hverri mínútu í störfum sínum. Það verður þeirra eina vörn gegn kröfu um auknar álögur og meiri vinnu.

Og í þessum slag standa kennarar einir því vinnumat hvers og eins er hans einkamál og háð samningum milli hans og stjórnandans. Stjórnandinn spilar þetta síðan eftir leikfléttum frá sambandi sveitarfélaga – en kennarinn eftir eyranu.

Þetta skulu kennarar greiða fyrir það að „fá“ að fylgja almennri launaþróun í landinu.

En fyndast af öllu er samt það sem formaður FG sagði á fundi í dag. Hann sagði að nú væri gæslan klöppuð og klár. Þessi ásteytingarsteinn síðasta vetrar væri nú á bak og burt. 

...og bætti síðan við að í nafni sveigjanleika væri samt enn heimilt að hafa gæslumál með nákvæmlega sama hætti og síðast. Sú tilhögun gæslu sem koma átti í veg fyrir er sum sé enn fullkomlega heimil. Hún fór ekki neitt. Það má sumsé heimta ókeypis gæslu með ýmsum ráðum (t.d. við ráðningu nýliða) en það er aðeins búið að tússa með aðeins sterkari litum við þann kost að hún sé greidd fullu verði!

Jafnvel ég hafði ekki hugmyndaflug í þá fléttu þótt ég skilji grunn hennar í ljósi þess hvernig vinnumatið virkar.

Þessi samningur er stórkostlegt glapræði. Verði hann samþykktur er nóg fyrir sveitarfélögin að herða snöruna um háls stjórnenda með fjárveitingum. Rökin verða þau að kennarar hafi gert samning sem opni á hagræðingu – og það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að innheimta hana. 

Stóra myndin er nefnilega sú að sveitarfélögin hafa aðeins eitt markmið með öllum sínum aðgerðum. Það er ekki að laða fólk til kennslu – það er að kreista eins mikið úr þeim sem þegar eru að kenna og mögulegt er svo kerfið kollvarpist ekki. Þetta gera þau af sjálfskipaðri neyð og þröngsýni. Og í trausti á það að fleiri fylgi ekki fordæmi kollega míns og yfirgefi þennan ruglbát í eitt skipti fyrir öll.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni