Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Það er pírati í smurolíunni minni

Það er pírati í smurolíunni minni

Upp úr 1960 átti sér stað heilmikið uppgjör við voðaverk nasista. Hápunktinum var náð þegar gyðingar handsömuðu Adolf Eichman og réttuðu yfir honum í Ísrael. Réttarhöldin urðu ungum, bandarískum vísindamanni innblástur að einni alræmdustu sálfræðitilraun allra tíma. Hann hét Stanley Milgram. 

Sumir töldu ekki útilokað að Þjóðverjar yrðu alltaf ógn við heimsfriðinn. Það gæti ekki verið hending að ein og sama þjóðin væri ábyrg fyrir tveim heimsstyrjöldum á örfáum áratugum. Kannski væri skýringanna að leita í menningu þeirra eða erfðum. 

Milgram hannaði tilraun sem í grófum dráttum fólst í því að athuga hve langt venjulegt fólk væri tilbúið að ganga við að hlýða skipunum. Sagt er hann hafi ætlað að prófa tilraunina á Þjóðverjum til að athuga þá tilgátu að auðveldara væri að fá þá til að fremja voðaverk en annað fólk. 

Samkvæmt þeirri útgáfu sögunnar þurfti Milgram samanburðarhóp áður en hann færi kerfisbundið að mæla undirgefni þeirra þýsku. Hann prófaði tilraunina við Yale háskóla. Sú prufukeyrsla felldi tilgátuna um þýskt óeðli. 

Af fyrstu 40 þátttakendum tilraunar Milgrams reyndust 26 reiðubúnir að drepa saklaust fólk að fyrirskipun annarra. Seinna kom í ljós að niðurstöðurnar eru svipaðar um heim allan.

Grimmdin er sammannleg

Voðaverk nasista eru því hvorki bundin eingöngu við erfðafræðilegan né menningarlegan bakgrunn þýsku þjóðarinnar. Grimmdin er sammannleg.

Raunar voru niðurstöður Milgrams fyrst notaðar markvisst til að skýra hroðaleg fjöldamorð bandarískra hermanna á saklausu fólki í Víetnamstríðinu undir lok sjöunda áratugarins. 

Að mörgu leyti einkennist samfélag okkar af afneitun grimmdarinnar. Við höfum álíka billegt viðhorf gagnvart grimmd og við áður höfðum gagnvart geðveiki. Í gömlum blöðum er geðveiki notuð sem allsherjar skýring á ótrúlegustu frávikum í mannlegri hegðun. Það þótti heldur ekkert tiltökumál að loka geðveika inni árum eða jafnvel áratugum saman og geyma í böndum eða lyfjamóki öðrum til hugarhægðar. Eins er grimmdin geymd í búri. Við höfum enn ekki lært að gangast við henni. Samt er hún rótgróin í okkur flest – alveg eins og geðveikin. 

Þessir páskar fela í sér óvenju öfluga áminningu um grimmdina. Nærri hundrað og fimmtíu ungmenni í kenýskum háskóla voru tekin af lífi af vígamönnum á skírdag. Sum voru neydd til að hringja í foreldra sína til þess að foreldrarnir yrðu vitni að aftökunni. Aðrir voru látnir bíða skelfingu lostnir á meðan böðlarnir gengu rólega á röðina og skutu hvern gíslinn á fætur öðrum.

Rétt fyrir síðustu jól var svipaður fjöldi drepinn í Pakistan. Þá voru flest fórnarlömbin börn á aldrinum átta til átján ára. Viðbrögð yfirvalda voru að dusta rykið af dauðarefsingum. Grimmd hefur tilhneigingu til að ala af sér frekari grimmd.

Stundum er grimmdinni þó tekið með öðrum hætti – síst skiljanlegri.

Ótímabær fyrirgefning?

Eins og áður sagði voru tilraunir Milgrams fyrst notaðar til að varpa ljósi á voðaverk bandarískra hermanna í Víetnam. Þann 16. mars 1968 missti sveit hermanna algjörlega stjórn á sér og myrti á milli þrjú og fimm hundruð óvopnaðra víetnamskra þorpsbúa. Börn voru skotin í fangi mæðra sinna. Konum var hópnauðgað og þær limlestar áður en þær voru myrtar. Hermennirnir hikuðu hvorki við að drepa hvítvoðunga né gamalmenni.

Myndir náðust af atburðunum (sjá t.d. mynd sem fylgir pistlinum) og vitni innan hersins gáfu sig fram. Það kom ekki annað til greina en að Bandaríkjamenn gerðu málið upp eftir að hermennirnir sneru aftur heim. Tuttugu og sex hermenn voru kærðir fyrir þáttöku sína í morðunum. Aðeins einn, foringinn, var dæmdur. Hann fékk ævilangt fangelsi. Forseti Bandaríkjana, Richard Nixon, gaf honum upp sakir eftir þrjú og hálft ár af stofufangelsi.

Þeir fáu hermenn sem reynt höfðu að stöðva ódæðið og höfðu reynt að forða fólki frá drápssveitunum voru sakaðir opinberlega um landráð af bandarískum öldungardeildarþingmönnum. Það liðu þrjátíu ár þar til yfirvöld viðurkenndu að þeir hefðu gert rétt.

Grimmdin ríður aldrei við einteyming. Henni fylgja aðrir mannlegir brestir. Hvers konar þjóð heldur hlífiskildi yfir barnamorðingjum og nauðgurum?

Raunin er sú að það er ekkert sérstakt við Bandaríkin í þessu tilliti. Það eru engin bandarísk gen sem valda því að mildilega er tekið á hermönnum sem brotið hafa á sér. Þvert á móti er um ákveðna hugmyndafræðilega strauma að ræða sem finnast í einhverri mynd víðast hvar.

Íhaldsmenn, smurolía alræðisins

Merkileg bók eftir dr. Róbert Altemeyer segir frá rannsóknum á íhaldssömum hægrimönnum í bandarísku þjóðfélagi. Niðurstaða bókarinnar er að ákveðnar persónugerðir séu eins og sérsniðnar til að koma alræðisöflum á legg. Þetta séu gjarnan íhaldssamt fólk, sem hallar sér að hinu hefðbundna. Það hafi óvenju litla samúð með fólki sem lendir í erfiðleikum og telji að ógæfufólk geti yfirleitt sjálfu sér um kennt.

Hinsvegar horfir málið öðruvísi við þegar um er að ræða valdafólk sem misnotar aðstöðu sína. Slíku fólki eiga þessar persónugerðir auðvelt með að fyrirgefa og telja jafnvel enga sérstaka þörf á uppgjörum. Töluvert var um að íhaldssamir hægri menn teldu að Richard Nixon hefði lítið til saka unnið, jafnvel eftir að hann neyddist til að segja af sér. Lögreglumönnum er gjarnan fyrirgefið ef þeir brjóta á borgaralegum réttindum almennings, sérstaklega ef fórnarlömbin eru úr neðri þrepum þjóðfélagsins. Raunar er það nokkuð viðtekin skoðun meðal þessa hóps að ýmis borgarleg réttindi hafi oftar en ekki þau áhrif að koma seku fólki undan réttmætri refsingu.

Þessi manngerð hefur að auki tvenn einkenni önnur. Í fyrsta lagi virðist hún allra manngerða ónæmust fyrir rökum sem stangast á við sannfæringu hennar (manneskja af þessu tæi mun t.d. næstum örugglega engan lærdóm draga af því að lesa pistil sem þennan) og í öðru lagi er hún gjarnan mjög áköf í andúð á þeim sem hún upplifir sem andstæðinga.

Henni er sérlega illa við frjálslynda og róttæka. Alla þá sem ógna stöðugleikanum. Hún sér ekkert nema upplausn við uppgang slíkra afla. Þá er henni sérlega uppsigað við þá sem halda á lofti málstað undirmálsfólks, t.d. flóttafólks eða glæpamanna. Ef þessi manngerð upplifir sig í meirihluta (þótt ekki sé nema mórölskum) er hún gjörn á að safna í lið til að lemja á andstæðingum sínum við hvert færi sem gefst.

Maður þarf ekki að róta lengi í okkar fábreyttu, litlu samfélagsumræðu til að rekast á nákvæmlega þessa manngerð og nákvæmlega þessi sjónarmið.

Ástæða þess að þessi manngerð er hættuleg er, eins og áður sagði, hve rausnarleg hún er á valdið þegar þannig stendur á. Hún fyrirgefur ekki aðeins þeim sem misfara með vald heldur er vantrúuð á ýmsar skorður sem valdhöfum eru settar. Ein uppáhalds mantra manngerðarinnar er þessi: Ef þú hefur ekkert að fela þarftu ekki að hafa áhyggjur.

Landráð Sjálfstæðismanna og aðdáendur alræðisins

Upp á síðkastið hefur verið nokkur umræða um það í íslensku þjóðfélagi hve Sjálfstæðisflokkurinn sé mikil meinsemd. Þannig sé orðið ljóst að flokkurinn hafi njósnað um fólk, skráð niður pólitískar skoðanir þess og haft flugumenn á sínum snærum á fundum róttæklinga. Sumir vilja kalla slíka starfsemi landráð. 

Ég held það sé næstum óefað að meðlimir Sjálfstæðisflokksins séu sekir um það sem þeim er gefið að sök og ég held raunar að um það þurfi ekki að efast sérstaklega að þeir sem þar gengu harðast fram hafi verið fólk af nákvæmlega því tæi sem lýst er hér að ofan. Sú manngerð hefur lengi viljað loða við þann flokk og er síður en svo að öllu leyti horfin (eins og sást svo berlega í Lekamálinu).

Ég held samt að uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn að þessu leyti verði að taka til greina að íhaldssama manngerðin er ekki eina leið alræðisins til valda. Ef eitthvað hefur sameinað hægrið og vinstrið á Íslandi í gegnum tíðina er það furðulega mikið kæruleysi gagnvart grundvallarréttindum og -skipulagi. Íslenska stjórnarskráin er til að mynda ótrúlega máttlaust plagg, danskt afrit sem aldrei hefur tekist að uppfæra. Stjórnsýslan hefur ævinlega verið plöguð af því að vildarvinum hefur verið troðið í allar smugur. Á meðan Sjálfstæðismenn nóteruðu hjá sér pólitískar skoðanir íbúa heilu bæjanna voru andstæðingar þeirra vinstra megin síður en svo einhverjir andstæðingar alræðisins, þvert á móti voru margir þeirra sérstakir aðdáendur alræðis í margvíslegum myndum.

Samfélag án grundvallar

Samfélag virkar ekki nema það standi vörð um grundvallaratriði sín. Nú er svo komið að Ísland er líklega það land í vestrænum heimi sem fjarlægast er því að byggja á skýrum grunngildum. Nokkur hluti þjóðarinnar er svo gott sem búinn að segja sig úr lögum við stjórnarskrána og bindur trúss sitt við aðra stjórnarskrá sem aldrei varð að veruleika. Enn stærri hluti er stjórnarskrárlaus; gengur að því sem vísu að það þurfi nýja stjórnarská en það séu varla uppi pólitískar aðstæður til að ráðast í skrif hennar. Þeir fáu sem tilbúinir eru að slá skjaldborg um gildandi stjórnarskrá gera það vegna þess að hún er gömul og hefðbundin – og eru fremstir í hópi þeirra sem fyrirgefa valdamönnum þegar þeir fara á svig við reglurnar.

Ef þú hefur ekkert að fela...

Aðeins eitt stjórnmálaafl á Íslandi kemst nálægt því að berjast fyrir grundvallarmálum sem þessum. Það eru píratar. Gott gengi þeirra í skoðanakönnunum stafar þó ekki af því. Fólk er fyrst og fremst komið með upp í kok af hinum stjórnmálaöflunum. Píratar vilja standa vörð um borgaraleg réttindi. Þeir hafa sýnt það og sannað í öllum sínum málflutningi. Að vísu á stór hluti þjóðarinnar mjög erfitt með að skilja það. Hann heldur að píratar vilji bara leyfa fólki að niðurhala bíómyndum eða tónlist án þess að borga.

Vissulega eru tengsl milli ólöglegs niðurhals og pírata. Þau tengsl eru þó tilfallandi. Undirliggjandi er alvöru hugmyndafræði. Hún er eitthvað á þessa leið: Eina leiðin til að koma í veg fyrir að fólk deili með sér höfundaréttarvörðu efni er að setja slík mörk á samskipti og tjáningu að það er óverjandi. 

Það er líklega alveg rétt. Ef ég vil deila bíómynd með vinum mínum er í raun og veru ekki hægt að koma í veg fyrir það nema að skoða allt sem fer á milli okkar. Annað er útilokað. Sá sem samþykkir slíkt er í grundvallaratriðum að segja að sá þurfi ekkert að óttast sem ekkert hafi að fela!

Pírati getur síðan haft hverja þá skoðun sem hann vill á fyrirbærum eins og vefsíðum sem safna saman ólöglegu efni. Það má vel halda því fram að slíkum síðum eigi að loka. Málið fer ekki að nálgast gráa svæðið fyrr en maður fer að velta fyrir sér heimildum þess opinbera til að fylgjast með ferðum fólks inn á slíkar síður og með hvaða hætti slíkt er tæknilega framkvæmanlegt.

Hinn nýi heimur

Ástæða þess að píratar spretta upp sem stjórnmálaafl (og skipta einhverju máli) er að heimurinn hefur breyst. Við eigum okkur öll rafrænt hliðarsjálf. Við búum í fleiri en einum heimi. Hinn nýi heimur hefur orðið prófsteinn á ýmis mörk samfélagsins. Í þessum heimi hafa allir kostir og lestir okkar þrifist. Fólk níðist hvert á öðru, það fremur glæpi og hið opinbera reynir að beisla allt saman. 

Alræðið hefur átt undarlega greiða leið í þessum nýja heimi. Heimurinn er nýr og þess vegna erum við flest frekar íhaldssöm þegar við vegum hann og metum. Okkur ofbýður ofbeldið og viðbjóðurinn sem þar þrífst og við höfum litla samúð með þeim sem okkur finnst nota heiminn til vondra verka. Á sama tíma hegðar valdið eins og vald gerir vanalega. Það eflir sjálft sig.

Einhvernveginn eigum við auðveldara með að fyllast andúð á því að flugumaður hafi lekið upplýsingum í gamla ritstjóra Moggans en því að meirihluti allra stafrænna samskipta sé vaktaður af leyniþjónustum. Við kipptum okkur t.a.m. ekkert upp við það þegar í ljós kom að bandarísk yfirvöld starfrækja miðstöð í Danmörku þar sem ljósleiðarar eru vaktaðir og upplýsingarnar sem þeir bera eru greindar niður í öreindir. 

Við kippum okkur ekki einu sinni neitt sérstaklega upp við umræðu um forvirkar rannsóknarheimildir. Við hugsum bara enn og aftur að þeir sem ekkert hafi að fela...

Við erum blind á hið augljósa

Staðreyndin er sú að borgaraleg réttindi eru ein af undirstöðum ríkja. Ríki þurfa alvöru stjórnarskrá sem afmarka svið þess leyfilega. Það voru ekki bara hugverkaþjófar sem nýttu sér agaleysi hinna nýju netheima. Valdið sýndi sitt rétta andlit líka. Mikilvægur þáttur í undirstöðum þjóðar er að takmarka valdið.

Grimmd er aðeins einn af mörgum löstum manna. Grimmd er ekki afbrigðilegt frávik. Grimmd er undirliggjandi eiginleiki. Grimmd getur sífellt blossað upp. Hún getur virst óskiljanleg og framandi þeim sem lifa sínu lífi í mestu makindum – en því verr sem menn skilja hana, því líklegri eru menn til að lenda á valdi hennar þegar hún skýtur upp kollinum. Grimmdin er aðeins ein af þeim hneigðum sem búa innra með öllum þjóðum. Við erum öll hneigð til heimsku, ágirndar og spillingar.

Innan hverrar þjóðar er hópur fólks sem telur sig vera sérstaka útverði góðra gilda. Þetta er gjarnan trúað fólk sem aðhyllist það sem gamalt er og gott. Staðreyndin er sú að þetta fólk er alls ekki þeir öryggisventlar sem það heldur. Þvert á móti er það þetta fólk sem líklegast er til að leiða valdníðinga til hásætis. Íhaldsmenn eru smurolía alræðisins. 

Einu sinni fóru fundargerðir af kommúnistafundum eftir krókaleiðum í bandaríska sendiráðið. Í dag megum við búast við að öll samskipti okkar endi í höndunum á leyniþjónustum nema við grípum til sérstakra ráðstafana. 

Það er ekki tilviljun að á sama tíma hafa bandarísk yfirvöld endurvakið bæði pólitísk launmorð og pyntingar. 

Þess vegna þarf að skammta valdið.

Staðreyndin er nefnilega sú að fyrr eða seinna mun ævinlega reyna á valdið. Valdið mun fyrr eða seinna reyna að auka vægi sitt og beita til þess þeim ráðum sem því þóknast. Þá má ganga að a.m.k. tvennu vísu: grimmd og undirgefni við grimmd. 

Vissulega stendur okkur ógn af grimmdarverkum meðborgaranna. Okkur stendur þó mun meiri ógn af kerfisbundinni grimmd og kerfisbundinni heimsku. Kerfisbundin grimmd kemur þá fyrst til þegar grimmdin er tekin til þjónustu við valdið. 

Þess vegna þarf að skammta valdið.

Þetta hefur verið vitað í meira en tvöþúsund ár. Síðustu hundrað ár hafa verið lítið annað en stöðug ábendingarskilgreining um þetta sama.

Samt föttum við þetta sjaldnast.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni