Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ísland þarfnast betri þjóðar

Dagar ríkisstjórnarinnar eru taldir. Spurningin er bara hvort dauðastríðið verður snöggt eða ögn lengra. Því lengur sem ríkisstjórnin situr, því meira afgerandi verður fall hennar. Lengst getur hún setið út kjörtímabilið. Ef það gerist verður það vegna þess að hún lendir í sömu stöðu og ríkisstjórn Jóhönnu – þar sem hangið er yfir eigin dánarbeði vikum og mánuðum saman.

Mönnum hefur verið tíðrætt um „stóru myndina“ upp á síðkastið. Flestar myndir sem dregnar hafa verið upp eru nokkuð smáar. Ég hygg að stærsta myndin sem blasir við núna sé sú að hrunið var augljóslega ekki tilviljun – og að ekki hefur tekist að komast fyrir rætur orsaka þess sem enn í dag gegnsýra íslenskt samfélag.

Ríkisstjórnin er dauð vegna þess að hún sá sjálfa sig í útlenskum spegli. Það blasir við að stjórnarhættir á landinu uppfylla hvergi nærri sjálfsögð lágmarksskilyrði um fagmennsku, hlutleysi og siðferði. Raunar má segja það sama um íslenskt samfélag eins og það leggur sig. Mikilvæg gildi ná ekki upp á yfirborðið. Við erum faglega og siðferðilega veikburða þjóð.

Eitt einkenni veikleika okkar er augljóst í viðbrögðum persóna og leikenda við vandanum. Bjarni Ben reynir að láta sem málið snúist aðeins um umboð kjósenda. Það verði leyst með kosningum. Nýi forsætisráðherrann telur málið ofur eðlilegan hluta af hinum pólitíska leik; það sé eðlilegt fyrir stjórnarandstöðu að mála skrattann á vegginn og fyrir stjórnina að mála jafnharðan yfir hann. Mótmælendur, hverra siðferðiskennd er ofboðið, heimta ríkisstjórnina frá – enda er erfitt að senda flókin skilaboð með trommuslætti til fólks sem reisir um sig víggirðingar.

Stóra myndin sýnir að það er ekki nóg að setja ríkisstjórnina af. Það er eins og að taka hitalækkandi verkjalyf við bráðri sýkingu. Það getur vel verið að eitthvað slái á alvarlegustu einkennin en meinið er dæmt til að komast á skrið aftur. 

Stóra myndin sýnir að það er tímabært fyrir okkur sem þjóð að taka ríkisstjórnina út fyrir sviga og spyrja okkur hvað við þurfum í viðbót við það að losna við þá sem nú standa að stjórnun landsins.

 

Ísland þarfnast betri þjóðar. Ef við erum ekki tilbúin að breytast, verða sanngjarnari og siðferðilega hraustari hljótum við samt að vilja börnunum okkar að geta horfst í augun við ákveðin sammannleg lágmarksgildi um hæfni, siðferði og sanngirni án þess að skammast sín.

Í þessu samhengi vil ég enn einu sinni minna á að í stjórnlagaráði sátu bullandi frjálshyggjumenn, umdeildir trúmenn, róttækir vinstri menn, tortólamenn og meira að segja páfinn af Útvarpi Sögu. Þar gátu menn samt rætt saman. Kannski vegna þess að þar nálguðust þeir viðfangsefnið undir því viðhorfi að laga það sem var að – í stað þess að slá vörnum um einbera hagsmuni.

Við þurfum að komast þangað aftur. 

Góð byrjun verður að kjósa aðeins það fólk á þing þegar þessi stjórn hrökklast frá sem horfist í augu við vandann og viðurkennir hann. En einnig með því að verðlauna þá í kosningum sem ekki taka þátt í yfirklóri núna – jafnvel þótt þeir tilheyri Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu