Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Á fleygiferð í áttina að engu

Íslensk stjórnmál eru þessa dagana á fleygiferð í áttina að engu. Sem er undarlegt í ljósi þess að nú er endanlega orðið algjörlega ljóst að landinu er ekki lengur vært í mókinu sem það hefur sofið í áratugum saman. 

Fyrir hálfri öld eða svo var landið nýskriðið úr hópi þróunarlanda í átt til efnahagslegrar velmegunar. Fyrir hálfum áratug vorum við nýskriðin úr hópi efnahagslega, siðferðislega og stjórnmálalega gjaldþrota ríkja.  

Búið er að gangast við því opinberlega að hlutirnir eru ekki að ganga. Það á að boða til alþingiskosninga. Til að almenningur fái að endurnýja stjórnun landsins. Nær allir þingmenn þjóðarinnar, sem á annað borð hafa tekið afstöðu, sjá fulla ástæðu til að þeir sitji áfram við stjórn landsins. 

Hraðinn í stjórnmálum síðustu vikna hefur verið sundlandi. Þess vegna er það enn furðulegra að við skulum í raun ekki hafa farið neitt.

Ástæðan sýnist mér vera sú að hin pólitíska stétt er meira og minna troðfull af sogmunnum. En sogmunnar eru fiskar sem soga til sín næringu með því að sjúga sig fasta við nánasta umhverfi. Öll stjórnmál í landinu þessa dagana snúast um smámál og aukaatriði.

Hvers vegna situr stjórnarandstaðan aðgerðalaus og ætlar að láta upptakt að kosningum snúast nær eingöngu um um það hvort tilteknir listar frá ríkisstjórninni eru útprentaðir og númeraðir? Hvernig má það vera að stjórnarandstaðan sitji næsta aðgerðarlaus milli funda með leppnum sem stýrir þessu landi? Af hverju er ekki verið að tala um framtíðina?

Hvaða árátta er þetta að láta íslensk stjórnmál alltaf snúast um sjóndeildarhring á stærð við pottlok? Hvernig hefur prinsipplega gjaldþrota þjóð efni á því að stara þar til hún verður blind  á örfáa róttæklinga sem hyggjast mótmæla við einbýlishús í Garðabæ? 

Á Íslandi verða smámálin alltaf ofan á. Við virðumst alltaf tilbúin að hella okkur af hjarta og hug í þau. Stóru málin liggja óbætt hjá garði. Svo erum við hissa að eftir allar hræringarnar um ekki neitt skulum við ítrekað lenda í því að vera gripin í nákvæmlega sama bólinu.

Í næstum heilan áratug hafa íslensk stjórnmál meira og minna snúist um leikjafræði í þingsölum, um reipitog. Það verður áfram þannig þangað til nógu margir átta sig á því að þetta þarf ekki að vera svona. Okkur vantar stjórnmálamenn sem geta gengið fram hjá pólitísku æti á steini án þess að sjúga sig fasta við það. 

Fólk mætir á Austurvöll til mótmæla því það trúir ekki lengur á þingið. Fólk mætir heim til Bjarna Ben því það trúir ekki lengur á mótmælin. 

Okkur vantar fólk til forystu sem trúir á eitthvað og getur fengið okkur til að trúa líka.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni