Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Byrjar skólinn hjá barninu þínu eftir helgi eða ekki?

Einhver spennuþrungnasta helgi seinni tíma er runnin upp í málefnum grunnskólanna. Það er hreint ekkert öruggt að skólarnir geti allir byrjað í næstu viku eins og til stendur. Málið varðar eftirskjálfta af síðustu kjarasamningum kennara.

Eins og staðan er núna virðast sveitarfélögin og sumir hópar kennara hafa stillt sér upp í þrátefli. Það sem kannski er umhugsunarverðast af öllu er að forystusveit kennara tekur sér stöðu gegn kennurunum í málinu – þrátt fyrir að bera mikla ábyrgð á því að kennarar hafi tekið þessa afstöðu til að byrja með.

Aðdragandi málsins er þessi: Árum saman hafa sveitarfélögin viljað efla vald sitt yfir grunnskólunum. Þau vilja til dæmis taka miðlægar ákvarðanir um marga þætti skólaþróunar. Nær það allt frá verkefnum eins og Byrjendalæsi, SMT og Olweusaráætlunum til einstakra þátta í námsmati. Einn liður í valdeflingu miðstjórnarvaldsins er að brjóta niður kjarasamninga kennara. Þótt ekki væri nema vegna þess að þar þykjast sveitarfélögin sjá bestu hagræðingarleiðirnar í skólakerfinu. 

Kennarar hafa á móti verið óvenju varir um sig gagnvart mögulegri hagræðingu. Þeir tilheyra þeim hópum stétta sem mælast undir hvað mestu álagi í starfi. Áður en farið var af stað í síðustu kjaraviðræður var mikið gert með kannanir sem sýndu fram á að langflestir kennarar vinna miklu meira en þann tíma sem þeir fá greitt fyrir. 

Þrátt fyrir það ákváðu sveitarfélögin að nú væri komið að þeim tímapunkti að þau gætu sett kennurum afarkosti í kjaraviðræðum. Ástæðan er fyrst og fremst hið pólitíska bakland sem þau eiga í núverandi ríkisstjórnarflokkum. Þau vissu sem var, og ræddu það opinskátt, að þótt vissulega væri best að semja og forðast þannig langvarandi úlfúð og átök – þá hefðu þau alltaf þann kost að segja að samningaviðræður væru komnar í strand. Við slíkar aðstæður myndi Alþingi beita lögum til að ákveða lyktir deilunnar – og þar töldu sveitarfélögin réttilega að þau gætu náð flestum markmiða sinna án þess að semja um eitt eða neitt. Var þetta þeim mikill léttir enda hafði fyrrverandi menntamálaráðherra verið þeim að mörgu leyti erfiður.

Undir þessum skugga fóru kjaraviðræður fram og allt í ferli þeirra verður að skiljast í því samhengi að hótun um valdbeitingu var yfirvofandi allan tímann.

Forysta kennara var logandi hrædd en vildi alls ekki að kennarar fengju á tilfinninguna að verið væri að kúga þá. Forystan er enda afar upptekin af jákvæðri ímynd sinni eins og ég hef skrifað um áður. Reynt var til hins ítrasta að gefa í skyn að kennarar hefðu fengið ótrúlegar kjarabætur í samningunum (sem á endanum voru samþykktir) og lítið var talað um að sveitarfélögin fengu opnuð ýmis tækifæri til hagræðingar.

Og nú erum við komin að málefni helgarinnar. 

Í ljósi þess að farið var inn í samninga af hálfu kennara með, að þeirra mati, órækar sannanir fyrir því að þeir vinni nú þegar miklu meira en þeim ber er skiljanlegt að það fóru að renna á þá tvær grímur þegar þeim varð skyndilega ljóst að skilja mátti samninginn þannig að kennarar hefðu (auk þess að selja ýmis dýrmæt réttindi) tekið að sér meiri vinnu en áður – og það launalausa. 

Það mátti nefnilega lesa það út úr samningnum að skólastjóri mætti hér eftir nota kennara sem ókeypis gæslufólk.

Þegar þetta fór að kvisast út komust samningarnir í nokkurt uppnám. Það átti enn eftir að samþykkja seinni hluta hans og nú varð nokkur ókyrrð. Steig þá fram formaður Félags grunnskólakennara og sagði að engin breyting yrði á gæslumálum með nýjum samningi. Þeir sem vildu taka að sér gæslu í frímínútum gætu gert það – og fengju það borgað.

Samningurinn slapp að svo komnu máli í gegn.

Þegar búið var að éta rjómavöfflurnar drifu sveitarstjórnarmenn sig heim í hús og létu þau boð út ganga að samningar hefðu tekist og að bestu hagræðingartækifærin væru fólgin í því að hætta að greiða fyrir gæslu. Sveitarfélög gætu því að minnsta kosti byrjað á því að losa sig við óbreytta starfsmenn úr gæslustörfum eða gert ráð fyrir því að kennarar ynnu þetta ókeypis hér eftir. 

En hvað með orð formannsins um að engin breyting yrði á gæslu? 

Jú, sveitarfélög (og formaðurinn, þegar hann var inntur eftir því) áttu svör á reiðum höndum. Vissulega væri rétt að kennari ætti að fá greidda gæslu í frímínútum – en þó skipti öllu máli hvað menn ættu við með „frímínútum“. Kennari sem tekur gæslu í frímínútum nemenda er strangt til tekið ekki í sínum eigin frímínútum – og fær þá gæslu ekki greidda. En sé kennarinn sjálfur í fríi og á sama tíma á gæslu þá megi borga honum. 

Nú fóru margir kennarar að klóra sér í höfðinu. Þeir áttu erfitt með að skilja að frímínútur voru skyndilega orðin tvö aðskilin fyrirbæri eftir að hafa hingað til verið eitt og hið sama fyrir kennara og nemendur. Þegar formanninum var stillt upp við vegg og hann krafinn skýringa á því af hverju hann hefði sagt að gæslumál myndu ekkert breytast (en gæsla hafði verið greidd áður, óháð öllu tvíeðli frímínútna) maldaði hann dálítið í móinn, m.a. með því að segja að það væri eiginlega engin breyting. Einhverjir kennarar hefðu tekið ókeypis gæslu hér áður fyrr – þótt það væri strangt til tekið bannað. Þetta væri bara eins og það. Hann tók það óstinnt upp að vera sakaður um að hafa ekki sagt kennurum satt. Þótt öllu sæmilega læsu fólki væru ljóst að það var einmitt það sem hann gerði.

Víkur þá sögunni að Kennarafélagi Reykjavíkur. Urðu margir kennarar nú nokkuð reiðir. Einhverjir á þeim forsendum að það væri ótækt að reka láglaunafólkið sem staðið hefði út á skólalóð og hrekja kennarana út úr hlýjunni til að passa börnin í staðinn. Þeir litu svo á að hlé væri gert á skólastarfi á meðan börnin færu út og að það væri aum brella að reyna að spara peninga með því að skipa kennurum að taka að sér þessi störf. Eins væri hægt að skipa þeim að skúra, elda eða bóna á þeim forsendum að heilnæmt skólaumhverfi væri börnum gott.

Formaður Reykjavíkurkennara skrifaði þá til sinna félagsmanna að þeir hefðu fullan rétt á að hafna umbeðinni gæslu ef á bak við það væru ekki fagleg rök. Hann nefndi sérstaklega sem dæmi að kennarar gætu notað það sem rök að gæsla væri hreint ekki faglegt starf.

Margir kennarar önduðu léttar því þrátt fyrir allt var ljóst að krafa um gæslu yrði að vera á faglegum forsendum.

Svo óheppilega vildi samt til að formanninum virtist ókunnugt um það að sveitarfélögin höfðu séð til þess að í samningnum er gæsla skilgreind sem faglegt starf. Það að neita að taka gæslu á forsendum formannsins er því strangt til tekið samningsbrot.

Gerist nú sagan löng, flókin og leiðinleg. Forysta kennara hamaðist við að láta svo líta út sem ekkert væri að og að engar deilur væru uppi en skólastjórar lentu víða í bölvuðu brasi við að innleysa hina ókeypis gæslu. Það var alltaf einhver fyrirstaða í mörgum kennurum. Sumir ákváðu beinlínis að vera ekkert í þessum hagræðingaleik og borga bara gæslu eins og áður. 

Leið nú tíminn fram á síðsumar.

Þegar kennarar mættu til vinnu fyrir viku eða svo varð þeim víða ljóst að búið var að ráðstafa á þá gæslu. Jafnvel var búið að segja upp fólki sem kennararnir áttu nú að leysa af hólmi.

Risu þá kennarahópar upp og sögðu nei. Þeir sendu ályktanir til sinna yfirboðara og sögðust ekki taka gæslu. Rökin fyrir því voru margvísleg.

Urðu nú sveitarfélögin nokkuð fúl. Þau kröfðust þess að kennaraformennirnir kæmu böndum á sitt fólk og reiddust sveitarfélögum og skólum sem svikust um að innleysa ókeypis gæslu.

Úr varð að formaður Reykjavíkurfélagsins neyddist til að semja bréf til sinna félagsmanna. Þar er vinátta og tryggð kennara og sveitarfélaganna áréttuð og kennarar minntir á að þeir hafi nú fengið ríkulegar kjarabætur. Loks er því laumað að, svo lítið ber á, að ályktanir kennarahópa um að þeir taki ekki gæslu séu marklausar og óleyfilegar.

Nú er komin helgi. Skólinn byrjar eftir helgi. Sú staða er semsagt komin upp að ýmsir kennarar ætla sér ekki að bæta á sig ókeypis gæslu.  

Alls ekki er víst að það takist að klára þessi mál fyrir skólabyrjun. Þá tekur við fjölbreytt sviðsmynd. Það má læsa skólunum og saka kennara um samningsbrot (sumir þeirra notuðu hinn ólöglega rökstuðning Reykjavíkurformannsins og aðrir voru með álíka gallaðar röksemdir). Málið gæti jafnvel endað í lagasetningu. En sveitarfélögin hafa svosem ýmis úrræði. Það má herja á einstaka kennara þar til þeir gefa sig. Það má reka kennara (t.d. þá sem neita að taka gæslu), stækka námshópa og ráða síðan gæslufólk. Og svo má auðvitað sleppa frímínútum alveg. Hafa bara samfelldan skóladag án frímínútna. 

Vandinn er að skólinn byrjar á þriðjudaginn – og eins og staðan er núna er nokkur fjöldi skóla þar sem í gangi er störukeppni. Hvorugur ætlar að gefa sig. 

En einhver þarf að gefa sig á endanum. Ég hygg það verði kennarar. Fyrst og fremst vegna þess að þeir fái dæmda á sig tæknivillu. Rökstuðningur of margra, sem þeir notuðu í góðri trú á sitt forystufólk, verður úrskurðaður ónýtur. Það verður jafnvel neitað að taka við ályktunum þeirra. Og jafnvel þótt kennurum sé misboðið, og þeir eigi erfitt með að skilja hvernig samningur sem byrjaði sem tilraun til að létta á þeim álagi endaði með meiri vinnu, þá eru þeir flestir í þannig stöðu að þeir tefla meira og minna engu nema voninni fram gegn útpældum klækjum. Það er alveg ljóst hver tapar slíkum slag. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni