Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Bubbi kóngur

Það er ekki rétt hjá Davíð að þjóðin þekki hann öll. Það fennir hratt yfir söguna. Stór hluti þjóðarinnar hefur engan áhuga á ritstjóra Morgunblaðsins. Sá hluti þjóðarinnar sem skoðanir eða áhuga hefur á Davíð verður minni með hverri fæðingu og jarðarför.

Það er óneitanlega nokkuð skáldlegt að eitt af því fyrsta sem Davíð tók sér fyrir hendur var að leika Bubba kóng. Þetta er aðeins örfáum árum eftir að Davíð dundaði sér við það að horfa á Ólaf Ragnar spila hnit.

Bubbi kóngur (Ubu roi) er franskt leikverk sem frumsýnt var í París seint á þarsíðustu öld. Viðtökurnar voru ofsakenndar og verkið var tekið af fjölunum með það sama. Í því var hefðum og siðum snúið á haus svo áhorfendur voru skildir eftir í lausu lofti, snarruglaðir, reiðir og ringlaðir. Nokkur hefð ku vera fyrir því að þýða titil þess sem Lortur kóngur.

Verkinu fylgdu tvö framhaldsverk: Bubbi kokkálaður og Bubbi í hlekkjum. 

Söguþráður Bubba kóngs er losaralegur í meira lagi en í stórum dráttum er hann þessi: Bubbi kóngur drepur konunginn yfir Póllandi í byltingu. Áður en hann veit af er hann lentur í blóðugum átökum við allt og alla og inn í það prjónast óhófleg fégræðgi og arðrán á þjóð hans.

Í Morgunblaðinu sögðu aðstandendur sýningarinnar svo frá á sínum tíma: „Grunntónninn er óviss, eða allt eftir því hvernig mönnum dettur í hug að raða honum saman. Hressilegt fyrir hugmyndaglatt fólk.“

Einhverntíma hugsaði ég um það í nokkrar sekúndur hversu skrítið það hefði verið að Davíð hefði ekki haldið áfram ferli sínum í leikhúsinu. Í ljósi síðustu frétta grunar mig að hann hafi aldrei yfirgefið sviðið og að tjaldið hafi ekki enn fallið á sýningu Herranætur á Bubba kóngi.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni