Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

1. maí og framtíðin

Í bók sinni Kría siglir um Suðurhöf segir Unnur Jökulsdóttir frá reynslu sinni af móttöku gesta á hinum ýmsu eyjum í Kyrrahafinu. Á einum stað hvarflar hugurinn heim til Íslands og þeirrar vissu að sá tími muni að endingu renna upp að ferðamennska verði undirstöðuatvinnugrein hér á landi.

Þetta var á tíunda áratug síðustu aldar.

Tuttugu árum eftir að bókin kom út varð svo sprenging í ferðamennsku hér á landi. Ætla mætti að þjóðin hafi nýtt áratugina á undan til að byggja hér upp þekkingu og innviði svo nýta mætti aukinn fjölda ferðamanna til að byggja hér upp öflugan og sjálfbæran iðnað.

Við vitum öll að svo er ekki.

Viðbrögð Íslendinga við stórauknum fjölda ferðamanna einkennast fyrst og fremst af flumbrugangi og fúski. Þjóðin hefur hvorki ræktað viðhorf né þekkingu til að taka á móti slíkum fjölda erlendra gesta. Ekkert í undirstöðumenntun þjóðarinnar hefur gert nýjum kynslóðum kleift að byggja hér upp sterkan atvinnuveg til framtíðar. Þvert á móti hafa undirstöðugreinar ferðamennsku verið vanræktar. Málabrautir framhaldsskólanna hafa til að mynda visnað svo á síðustu árum að þær hafa dáið út í sumum skólum. Þess í stað hefur verið móðins að læra viðskiptafræði – þar sem maður lærir hvernig hægt er að auka hagvöxt með því að selja kranavatn á terpentínubrúsum.

Hvar ætli Íslendingar stæðu í dag hefði ekki makríl og ferðamenn rekið hér upp í fjörur gjaldþrota lands? Og hvar verður Ísland statt eftir áratug ef þessir sömu gestir leita annað? Hvað erum við að gera til að tryggja lífsviðurværi okkar og byggð í landinu til frambúðar?

Við vitum öll að við göngum svívirðilega illa um auðlindir okkar. Við förum illa með ferðamenn og höfum nú þegar gert vinsæla áningastaði að óþolandi túristagildrum. Í þéttbýlinu verður síbylja höggboranna sífellt háværari og úti á landi liggja holóttir og tættir vegir að fjölbreytilegum og illa hirtum dauðagildrum. 

Hversu margir þurfa að detta í klakabundnum þrepunum við Gullfoss, drukkna við sandfjörurnar á Suðurlandi eða vera drepnir vegna þess að fúskarar bakka á margra tonna trukkum gegnum mannfjöldann við Jökulsárlón áður en Ísland verður alræmt fyrir ferðamannaiðnaðinn – eins og allan annan iðnað sem landið hefur sökkt sér í?

Og hvenær ætlum við að átta okkur á því að þjóð sem ætlar sér velmegun til framtíðar þarf að leggja grunn að henni strax með menntun íbúanna?

Við þurfum að horfast í augu við það að undirstöðumenntun okkar er algjörlega ófullnægjandi. Sú hæfni sem henni er gert að koma til leiðar hjá nýjum kynslóðum er engan vegin nægileg. Á meðan skólar strita við að kenna fólki að aðeins fallbeygja ær og kýr munum við aldrei læra að aðlagast breyttum tímum.

Horfum tuttugu ár fram í tímann. 

Það atvinnulíf sem nú einkennir byggðirnar hringinn í kringum landið verður ekki lengur til. Dauði byggðanna mun halda áfram. Staðir sem á síðustu tuttugu árum hafa misst pósthúsin, bankana, sólbaðsstofurnar og vídeóleigurnar munu missa þetta litla sem eftir er. Störfum við sjávarútveg mun snarfækka.

Hvað gerist þá?

Það er undir okkur sjálfum komið að skrifa framhaldið á þessa sögu. Ætlum við að sitja aðgerðalaus og horfa upp á hnignum byggðanna eða ætlum við að vinna markvisst að því að fanga ný tækifæri?

Ég fullyrði að greiðasta leið til dauðans í þessum efnum er að fresta enn frekar nauðsynlegum umbótum í undirstöðumenntun borgaranna. Það á að vera miklu meiri áhersla á tækninám, skapandi hugsun og samvinnu. Það á að ala upp kynslóð í landinu sem hugsar stórt, er vel tengd við umheiminn og kann að hugsa sjálfstætt.

Nú, þegar baráttudagur verkalýðsins er handan við hornið, hryggir það mig ótrúlega að sjá að skammsýni og vanhæfni virðist ætla að tryggja það að nauðsynlegar umbætur á menntakerfinu eru dæmdar til að bíða – jafnvel árum saman.

Menntamálaráðherra er þurs. Hann er holdtekja íslenskrar skammsýni og vanhæfni. Hann skilur ekki hvað menntun er eða hvaða áhrif hún hefur á fólk. Þess vegna einbeitir hann sér að peningahlið menntakerfisins. Þrátt fyrir það að vera líklega sá maður á landinu sem sannast hefur upp á oftast að ekkert kann að fara með peninga. Undir hans stjórn eru einfeldningar við það að hneppa menntakerfið í fjötra þar sem allt kapp verður lagt á að samræma leiknina í að fallbeygja ær og kýr.

Framhaldsskólinn og háskólinn starfa við ólífvænleg skilyrði. Eftir áralangt fjársvelti er staðan í mörgum tilfellum í raun og veru orðin vonlaus. Ofan á þetta er stefnt að því að fjárpína stúdentana sjálfa og fæla þá frá langskólagöngu.

Grunnskólinn er ennfremur fórnarlamb misheppnaðrar tilraunar til að leysa gordískan hnút með sjónhverfingu. Þeir sem bera ábyrgð á skólamálum grunnskólans þora ekki einu sinni að eiga samtal við skólana nema í gegnum lögfræðinga. Í stað þess að vinna saman að framtíð menntunar í landinu er hafið stríð.

Umboðsmenn sveitarfélaga og skóla sitja vissulega saman við borð og þykjast vera vinir. En skilaboðin inn í grasrótina sitthvoru megin við borðið eru tómar stríðsyfirlýsingar. Sveitarfélögum hefur verið skipað að gera skyndisókn á kennara næsta haust. Nú skulu kennarar gjöra svo vel og taka að sér (án launa) störf þeirra starfsmanna sem sveitarfélögin vilja segja upp í hagræðingarskyni. Kennaraforystan segir við sitt fólk: Vinnið störfin ef þið eruð tilneydd en lamið þess í stað þróunarstarf skólanna.

Orrustan verður blóðug og óheiðarleg.

Þeir einu sem græða á ástandinu eru agentar menntamálaráðherrans sem sjá fram á stórkostlegt sóknarfæri. Ef innri hvati til skólaþróunar eyðileggst mun skepnan auðfús ganga tamningamönnum á hönd. Skólaþróun mun einfaldlega fara að snúast um leikni í fallbeygingu og atkvæðafjölda í lestri.

„Það felast töfrar í tölum“ er nýjasta slagorð Menntamálastofnunnar. Sveitarfélög og kennarasambandið geta tekið undir það – enda snýst öll vinnan hjá þeim þessi misserin um ritstjórn á einu einasta Excel-skjali. 

Hugsum nú tuttugu ár fram í tímann. Hefðbundnir atvinnuvegir munu hafa haldið áfram að deyja og við höfum reynst jafn ófær um að skapa okkur nýja eins og hingað til. Á hverju byggjum við velsæld okkar?

Þetta er alvöru spurning.

Fjöldi þéttbýlisstaða á Íslandi er nú þegar deyjandi. Tugþúsundir Íslendinga sjá enga framtíð fyrir börn sín í heimabæjunum. Unglingar eru í fyrsta skipti farnir að horfa í stórum hópum til útlanda. Þeir sjá enga framtíð hér.

Hvað ætlum við að gera til að breyta þessu? 

Ég fullyrði að tækifærin séu til staðar. Ég fullyrði líka að það þarf menntun svo að þau séu gripin í þeim stóra stíl sem nauðsynlegt er. Það þarf verulegar breytingar frá því sem nú er. Samfélög á landinu eru ekki að hverfa hægt og rólega vegna þess að hefðbundið læsi fari versnandi – og það mun ekki veita þeim aukinn þrótt að börn lesi meira. 

Það þarf grundvallarviðhorfsbreytingu. Við þurfum að læra af reynslunni. Framtíðinn kemur, við vitum það. Í þetta skipti þurfum við að vera undirbúin. Það er óboðlegt að það verðu hlutskipti næstu kynslóðar að tappa tækifærum framtíðar á terpentínubrúsa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni