Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hver er staða vinsemdar á Íslandi?

Hver er staða vinsemdar á Íslandi?

Vinsemd gæti verið öflugt þjóðgildi á Íslandi. Vinsemd er dyggð, tilfinning og viðhorf sem birtist í hugsun og hegðun fólks. Hún er hlýtt og þægilegt viðmót gagnvart öðrum. Þjóðgildi merkir siðagildi sem telja má áberandi í þjóðfélaginu, til dæmis vinsemd.

Borgarar landsins eru oftast vinsamlegir og þægilegir hver við annan. Það er alltaf kúnst en oftast lítill vandi að umgangast aðra, hvort sem er í almenningsrými eða á vinnustöðum. Fólk virðist hafa tamið sér þessa dyggð og lært að bera virðingu fyrir öðrum. Það velur oftast að leysa úr málunum í stað þess að stofna til átaka. Það hreytir sjaldan orðum hvert í annað. Samskipting ganga því fremur snurðulaust fyrir sig meðal óbreyttra borgara. Vinsamlegur maður talar ekki illa um persónur þótt hann geti varað við heimskulegum aðferðum.

Vinsemd þarf ævinlega að efla í samfélögum, hvort sem það er einsleitt eða ekki. Líkir geta gert sér upp ósætti og staðið í áralöngum deilum, þeir þurfa að umbera hver annan, því líkindin geta skapað óblíða samkeppni. Margbreytileikinn þarf einnig á vinsemdinni að halda og felst hún þá í umburðarlyndi og löngun til að læra að öðrum. Vinsemdin berst út fyrir innsta hring og breiðist til annarra.

Andhverfa vinsemdar í samfélaginu birtist með tvennum hætti. Á annan bóginn í því að vera sama um afdrif annarra, láta eins og þeir komi okkur ekki við. Skeytingarleysi er skelfilegt hvernig sem það birtist, hvort sem er gagnvart mannlífinu eða náttúrunni. Óvinsamlegur maður bregst ekki við beiðni um aðstoð, hann heldur för sinni áfram án tillits til annarra.

Andhverfa vinsemdar á hinn bóginn er óvild eða að vera fjandsamlegur öðrum, vinna gegn þeim eða leggja stein í götu annarra. Afvegaleiða þá eða gera á hlut þeirra. Þetta getur einnig birst sem baktal sem dregur úr sanngjörnum möguleikum annarra í samfélaginu eða það að ala á fordómum gagnvart minnihlutahópum.

Þessi gerð óvildar felst meðal annars í því að sá efasemdum um góðvilja annarra, skapa ótta gagnvart breytingum eða framandi menningu. Spilla andrúmslofti með lævísum hætti o.s.frv. Allt karp í stað rökræðu, harður rígur milli sveitarfélaga og grimm samkeppni fyrirtækja fellur undir óvildina.

Hægt er að mæla stöðu vinsemdar í landinu með nokkrum mælikvörðum. Mannréttindi eru einn þeirra, félagslegur jöfnuður milli hópa annar og réttlæti gagnvart lögum og valdi. Vinsemdin þarf helst að vera gagnkvæmt samkomulag, hún næst ekki fram með þvingun og kúgun, ekki með blekkingum eða spillingu, ekki með því að skapa falskar væntingar.

Vinsemdin er einnig háð virðingu á milli stétta, atvinnurekenda og launþega, stjórnkerfis og borgarana. Ef traustið á milli þeirra glatast getur dregið hratt úr vinsemdinni á milli þeirra. Þar liggur hættan. Það er hægt að grafa undan vinsemdinni í samfélaginu, ef vilji er fyrir hendi.

Það gæti verið gott fyrir samfélagið á Íslandi að setja vinsemdina ofar á lista og gera hana að opinberu þjóðgildi um þessar mundir. Ekki aðeins fyrir ímyndina heldur sem áhrifaríka leið að meiri jöfnuði og réttlæti.

Það má gjarnan styrkja stöðu vinsemdar á Íslandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni