Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Flóki valdsins

Lýðræði er viðkvæmt og vandmeðfarið fyrirbæri. Við samanburð milli þjóða má sjá að lýðræðið er mislangt komið. Það er hægt að teljast lýðræðisríki þó að lýðræðið sé slakt. Stöðugt þarf að þróa það og efla og rækta eins og fallegt blóm. Arfann sem ógnar blómi lýðræðisins þarf að reita. Í lýðræði streymir vald fólksins upp á við, á hendur valins hóps sem situr á þingi og í dómstólum. Þetta er hornsteinn samfélagssáttmálans okkar, þar sem við borgararnir framseljum vald og traust til fulltrúa okkar og væntum þess að fá til baka öryggi og réttlæti. Þegar öryggið og réttlætið hverfur er sáttmálinn hættur að virka.

Grunnhugmyndin í þrískiptingu valdsins milli löggjafans, ríkisstjórnar og dómstóla er að koma í veg fyrir misnotkun á valdi þar sem óháðar valdastofnanir setja hver annarri mörk. Dómstólarnir dæma eftir lögunum sem þingið setur. Misbrestir dómskerfisins, sem hafa verið í deiglunni nýlega, grafa undan samfélagssáttmálanum. Dómar dómstóla eiga að vera óháðir þingi og ríkisstjórn og hlutlausir. Þingið á að setja lög um mál sem meirihlutinn lofaði í kosningum, forsendu þess að einmitt þessi meirihluti var kosinn. Þingið hefur svo framkvæmdarvald í ríkisstjórninni, sem vinna á fyrir þennan valda hóp. Ríkisstjórnin á ekki að ráða yfir þinginu, heldur öfugt. Þess vegna er nauðsynlegt að takmarka áhrif ráðherra innan þingsins. Í nágrannaríkjum okkar fær ríkisstjórnin ekki einu sinni að koma inn í þingsal en á Íslandi er ríkisstjórnin áhrifamikil á þingi. Það er ólýðræðislegt.

Gott lýðræði er ekki háð einstaklingum. Kerfið getur af sér góðar og réttlætar afurðir í hag fólksins ef lýðræðisleg gildi eru í hávegum höfð, sama hver er við stjórnvölinn. Það er ekki lýðræðinu hollt að hafa manneskju í valdastöðu sem er búin að safna svo mikilli reynslu og sjálfstrausti í embætti að viðkomandi og jafnvel þjóðin telji hana ómissandi. Það ógnar beinlínis valdi þingsins og þar af leiðandi valdi fólksins og þess vegna verður að takmarka valdatíma allra valdhafa. Það er slæmt að hafa sama forseta í tuttugu ár og það er slæmt að hafa þingmenn á þingi í fleiri áratugi. Þegar einhver í hinu lýðræðislega kerfi er talinn ómissandi er það góð vísbending um að nú sé kominn tími fyrir viðkomandi að hætta.

Píratar vilja fyrst og fremst bæta lýðræðið. Þeir vilja ekki að ríkisstjórnin sitji á þingi og eru á móti atvinnupólitíkusum sem að sitja á þingi jafnvel áratugum saman. Of oft hafa fögur kosningaloforð horfið eftir að þing er sett án neinna eftirmála. Of oft hafa sérhagsmunir ráðið för í stað almannahags. Nú er tími breytinga.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni