Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Andóf hinna undirokuðu - Saga 1. maí um baráttu bættra kjara og styttingu vinnudagsins

Andóf hinna undirokuðu - Saga 1. maí um baráttu bættra kjara og styttingu vinnudagsins

Til hamingju með baráttudag hinna vinnandi stétta.

 

Dagurinn í dag á uppruna sinn í baráttu sem er okkur Pírötum mikilvæg; styttingu vinnuviku.

 

Þann 1. maí árið 1886 gengu 300 þúsund starfsmenn 13000 bandarískra fyrirtækja frá störfum og fylktu liði í nafni verkalýðs og bættra kjara. Mánuðum saman höfðu verkalýðsfélög í Bandaríkjunum, einkum í Chicago-borg háð erfiða baráttu fyrir bættum kjörum og átta stunda vinnudag. Krafan um styttri vinnudag hafði verið að gerjast meðal verkalýðsfélaga um heim allan frá miðri 19. öld.

 

Árið 1889 hittust fulltrúar alþjóðasamtaka kommúnista á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París. Þar var samþykkt tillaga frá Frökkum um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks og baráttudagur hreyfingarinnar. Þingið kallaði eftir því að hátíðarhöldin um allan heim yrðu haldin í minningu verkamannana sem létust í Chicago 4. maí árið 1886 þegar lögreglan hóf að skjóta inn í hóp mótmælenda. Mótmælin höfðu farið friðsamlega fram og voru raunar farin að síga á seinni part þegar sprengju var kastað í hóp lögreglumanna sem svöruðu með því að skjóta á verkamennina. Enn þann dag í dag er ekki vitað hver kastaði sprengjunni.

Í kjölfarið voru átta anarkistar sóttir til saka fyrir morðin. Aðeins þrír þeirra voru á staðnum þegar blóðbaðið átti sér stað. Réttarhöldin vöktu athygli og hneykslan um allan heim. Kviðdómurinn var handvalinn, dómarinn lýsti margsinnis yfir andúð sinni á sakborningum og þrátt fyrir að ákæran væri fyrir morð lýstu yfirvöld og saksóknarar því ítrekað yfir að hér væri réttað yfir anarkisma. Réttarhöldin væru réttarhöld samfélags laga og reglu yfir hugmyndafræði stjórnleysis. Mennirnir átta voru allir fundir sekir og sjö þeirra voru dæmdir til dauða. Í nóvember árið 1887 voru fjórir mannana hengdir en einn hafði framið sjálfsmorð daginn áður. Á meðan á réttarhöldunum stóð höfðu 100 þúsund skrifað undir áskorun til yfirvalda um að sýna mönnunum vægð. Réttarhöldin gengu svo nærri siðferðiskennd fólks um allan heim að rithöfundar og ljóskáld um allan heim fjölluðu um þau. Þar á meðal Oscar Wilde og George Bernard Shaw. Árið 1893 voru þrír mannanna náðaðir af John Peter Altgeld, fylkisstjóra Illinois.

Hér á Íslandi sækir dagurinn upprunna sinn einnig í það baráttuna um styttri vinnudag. Árið 1921 voru vökulögin lögfest. Þau tryggðu íslenskum sjómönnum sex tíma hvíld á sólahring, eru eitt fyrsta dæmið hér á landi um réttindi sem áunnist hafa vegna verkalýðsbaráttu. „Hér skal orðtakið það: Fylgjumst einhuga að!“ segir í auglýsingu á Kröfugöngunefndar á forsíðu Alþýðublaðsins 1. maí árið 1923.

 

Samfélagið okkar er skilgreint út frá hinu valdamikla viðmiði og valdaminna frávikið verður bara að reyna að lifa sem best innan slíks kerfis. Eða hvað?

 

Hægt er að skipuleggja samfélagið öðruvísi þar sem tekið er mark á hinum valdaminni og þeir valdefldir. Þar sem þeir fá rödd. Þar sem þeir lifa jafn góðu lífi og aðrir. En hvernig?

 

Nægar upplýsingar eru forsenda þátttöku. Þegar flokkur sendir út röng skilaboð um hver eigi kosningarétt hér í landi eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerði nýverið til að letja innflytjendur, heilan hóp valdalítils fólks, til þátttöku í lýðræðinu okkar er eitthvað virkilega að.

 

Þegar það er afgerandi hversu sterkt bakland þitt er upp á hvaða þjónustu þú færð sem fatlaður einstaklingur er eitthvað að.

 

Þegar það er metið sem meira virði að bardúsa við tölvur eða peninga en að taka á móti börnunum okkar þegar þau fæðast og sinna okkur á okkar dýrmætustu stundum - þá er eitthvað virkilega að.

 

Þegar samfélagið okkar er allt skipulagt í kringum að við lifum til að vinna frekar en að vinna til að lifa - er eitthvað virkilega að.

 

Þegar grafið er undan mannréttindum okkar og rétti á bestu mögulegu heilsu með allt of mikilli vinnu þar sem illa er hugað að aðbúnaði og aðstæðum okkar - þá er eitthvað alveg svakalega mikið að.

 

Stöndum saman. Berjumst saman. Baráttan heldur áfram.

Gleðilegan 1. maí.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni