Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Þannig geta borgarbúar fylgst betur með

Upplýsingar eru forsenda góðrar ákvarðanatöku. Gagnsæi snýst um aðgengi að upplýsingum og að styrkja eftirlit með valdinu. Fagleg og gagnsæ ferli styðja við faglega og góða ákvarðanatöku. Markmiðið er að þú eigir ekki að þurfa að treysta í blindni, heldur eigum við að reyna að koma því við að þú getir einfaldlega séð að allt er með feldu. Spilling þrífst ekki í sólarljósinu.

 

Eftir að nýr meirihluti tók við réðumst við í gerð nýrra reglna um ráðningar æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar. Þetta höfum við í Pírötum lagt gríðarmikla áherslu á, að yfirfara ráðningarferli við ráðningar æðstu stjórnenda hjá Reykjavíkurborg til þess að auka gagnsæi og traust á ráðningarferlunum og niðurstöðum þeirra. Með því að formgera ferlið í kringum ráðningar æðstu stjórnenda Reykjavíkurborgar er m.a. verið að styðja við og gera sýnilegra óhæði hæfnisnefndarfólks og auka aðkomu Borgarráðs að ferlinu. Samhliða þessu er verið að útbúa nýja gæðahandbók um ráðningar almennt innan borgarkerfisins.

 

Í dag voru reglurnar loks samþykktar af Borgarráði, og geta þær þá nýst við næstu ráðningu, sem verður á nýjum fjármálastjóra Reykjavíkurborgar. Traust á ráðningum ýtir undir traust á stofnunum.

 

En mun fleiri gagnsæisverkefni eru í gangi í borginni.

 

Í haust var ákveðið að hefja birtingu dagskrár allra fagráða fyrir fundi en bæta um betur og birta líka fundargögnin á netinu. Þannig geta fjölmiðlar og borgarbúar fylgst betur með starfi fagráðanna og þeim forsendum sem ákvarðanataka byggist á.

 

Ég er sem forseti borgarstjórnar að undirbúa aukið launagagnsæi í kringum laun borgarfulltrúa og birta yfirlit yfir laun þeirra á netinu, greint niður á persónur. Sjálfsagt er að auðvelt sé að fylgjast með launum kjörinna fulltrúa og þrátt fyrir að upplýsingarnar séu aðgengilegar á netinu nú þegar er hægt að gera þægilegra yfirlit sem mun fljótlega birtast.

 

Brátt verður mælaborði borgarbúa ýtt úr vör. Þar er að finna ýmsar áhugaverðar upplýsingar um starfsemi borgarinnar, dregnar saman á einum stað.

 

Nú fer að koma að umfangsmiklum stjórnsýslubreytingum í Reykjavíkurborg sem hafa verið í undirbúningi undanfarið og með þeim á að styrkja eftirlit og bæta og þétta kerfin.

 

Við Píratar erum smátt og smátt að bæta ferlana og styðja við gagnsærri og faglegri vinnubrögð innan stjórnsýslunnar til að auka traust og gefa sem bestar niðurstöður. Það er okkar aðalverkefni, vissulega langtímaverkefni, en við erum á fullri ferð áfram.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni