Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Kosningapróf Prúðuleikaranna

Kosningapróf Prúðuleikaranna

Velkomin í kosningapróf Prúðuleikarana. Ef þú ert í vafa um hvað þú átt að kjósa í borgarstjórnarkosningunum komandi, taktu þetta einfalda próf og málið er dautt.

Aðferðin er einföld. Þú finnur þá Prúðu sem best á við þinn persónuleika og kýst hana án frekari umhugsunar.

 

D-listi Sjálfstæðisflokksins: Sænski kokkurinn

Sænski kokkurinn rústar öllu sem hann kemur nærri, en snýr svo til baka í næsta þátt fullur sjálfstrausts. Hann hefur ákveðið að þetta sé hans náttúrlegi vettvangur, þótt nákvæmlega ekkert bendi til þess. Því fær því engu breytt, sama hversu sviðna jörð hann skilur eftir sig. Hann virðist fá næg hráefni að vinna úr aftur og aftur og aftur þrátt fyrir að enginn skilji aukatekið orð sem kemur úr honum, enda talar hann út og suður með frösum úr veruleika sem venjulegt fólk hefur enga snertifleti við.

 

 P-listi Pírata: Gunnsi hinn mikli

Einkennismerki Gunnsa er að reyna að blása í flautu (eða var það lúður?) í upphafi sýningar. Hann hefur svo hægt um sig en dúkkar af og til upp með svakaleg áhættuatriði, hugmyndir sem enginn hafði látið sér detta í hug í eitt augnablik að væru einu sinni möguleiki, hvað þá gerlegt á stóra sviðinu. Það kemur fyrir að hann hefur þörf fyrir góðlátlegt klapp á bakið með vinsamlegri ábendingu um að hugmyndin er í hrópandi mótsögn við lögmál alheimsins, en Gunnsi ræðst í verkin af stjórnlausum eldmóði og á endanum er það annað hvort hann eða alheimslögmálin sem bogna. Sem gæti reyndar útskýrt angular öndunarfæri hans.

 

S-listi Samfylkingarinnar - Kermit froskur

Það fer ekki á milli mála að Kermit stjórnar, eða reynir að stjórna, þessu leikhúsi fáránleikans. Hann kemur fjarskalega vel fyrir og getur talað heil ósköp, en það er nokkuð ljóst að örlögin stjórna meiru en stjórnviska þessa bísperrta en góðlega, þó pínulítið slímuga, dýrs. Afleiðingar hins nánast fullkomna glundroða baksviðs koma ótrúlega sjaldan fram þegar á sviðið er komið, en ésúpétur þegar maður hugsar um það - hvar eiga öll þessi dýr að búa? Eru þau með búningsherbergi hvert fyrir sig eða deila þau? Skilur einhver hvernig þau yfir höfuð komast til vinnu, allur þessi fjöldi um ganga þessa agnarsmáa leikhús? Það er margt sem Kermit þarf að svara fyrir… en viljum við innst inni vita svarið?

 

J-listi Sósíalistaflokks Íslands: Dýri

Fyrir utan að vera rauður í gegn er Dýri afl sem stjórnendum virðist mikið í mun að halda niðri, og er hann því iðulega hlekkjaður niður með keðju. Hann eyðir ekki óþarfa tíma í prjál og punt heldur kemur sér lóðbeint að verki. Þar sem honum er sleppt lausum lætur hann sannarlega til sín heyra og fer ekki á milli mála að nálgun hans á viðfangsefnið er óhefðbundin og stundum stelur hann senunni með tilfinningaþrungnum einleik.

 

B-listi Framsóknarflokksins: Fossi björn

Fossi er algerlega misheppnaður í sínu fagi en hefur undarlega mikla trú á sér greyið. Jafnvel þannig að maður vorkennir honum á stundum. Einhvern veginn nær hann samt að troða sér í ótrúlegustu þætti og maður gæti nánast ekki ímyndað sér Prúðuleikarana án hans. Mann langar næstum því til að knúsa hann… en þá man maður að þetta er bjarndýr, og er í raun stórhættulegt kvikindi og hugsar bara um hvernig hann geti komist yfir sem stærsta bita af kökunni fyrir sig og sína fjölskyldu.

 

V-listi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs - Robin froskur

Robin er svo góður og krúttlegur að maður fær tár í augun bara af því að hugsa um hann. Hann syngur dásamlegar vísur sem mýkja hjartað á rosalegustu skrýmslum, enda er Sæti besti vinur hans. Hann lítur óendanlega mikið upp til frænda síns, Kermits frosks, sem varla tekur eftir honum (hann er jú svo lítill), en þykir ágætt að nota hann sem uppfyllingarefni. Helsti Akkilesarhæll vesalings Robins er að hann er svo lítill og góðhjartaður að hann getur ekki gert neitt gagn, en ó hvað hann dreymir um að spila og syngja með stóru krökkunum…

 

C-listi Viðreisnar: Scooter

Scooter fékk starfið sem aðstoðamaður Kermits frá frænda sínum, stórjaxlinum J. P. Grosse. Hann er duglegur, frekar litlaus en er af sérstaklega góðum ættum… og er því tryggð staða við hlið stjórnandans. Maður tekur eiginlega ekki eftir honum greyinu, en hann er þarna og meinar ferlega vel… og ef ekki væri fyrir tenginguna við vellauðugan eigandann gæti maður næstum því treyst honum. Það býst eiginlega enginn við neinu af Scooter, en kjósa frekar að hafa hann á staðnum en sjálfan aðalstórgrósserinn.

 

E-listi Íslensku þjóðfylkingarinnar: Ameríski örninn

Íslenski örninn segir á heimasíðu sinni: “Íslenska þjóðfylkingin vill standa vörð um velferðakerfið (sic.), sjálfstæði Íslands og íslenska menningu”. Íslenski örninn er brúnaþungur yfir ástandinu og stendur bjargfastur á þeirri skoðun að siðmenning okkar eigi allt sitt undir því að jólasveinarnir séu tólf og Fjallkonan ein - hvít sem mjöllin og hnarreist sem hrossið hans Sigmundar. Talar með þungum áherslum um yfirvofandi innrás annarra stórhættulegra gilda á meðan hann slafrar í sig núðlusúpuna.

 

F-listi Flokks fólksins: Risarækjan Pepe

Pepe er undirmálsrækja. Hann kemur einungis fram í alþýðlegum klæðnaði, er mjúkmáll prinsippmaður en fullkomlega reiðubúinn til að svíkja málstaðinn þegar gott tilboð lætur á sér kræla. Hann er pínulítið fjölþreifinn þegar sá gállinn er á honum (kannski bara að því hann er með svo margar hendur), og útilokar ekki samstarf með neinum sem skartar annað hvort töfrandi yndisþokka eða góðum jeppa. Afskaplega alþýðlegur þó og þrátt fyrir allt með hjarta úr gulli… en líklega eins gott að það er ekki hægt að selja það…

 

H-listi Höfuðborgarlistans: Hænurnar

Hænurnar eru ómissandi í Prúðuleikurunum, eða ekki. Þegar sviðið er yfirfullt af ótrúlegustu dýrategundum að góla hver ofan í aðra er ekkert stórkostlegra en að bæta við eins og einum flokki af gaggandi hænum í lausagöngu. Þess á milli æða þær um nokkurn vegin alveg stefnulausar og pikka í það sem þeim finnst áhugavert hverju sinni. Enginn hefur beinlínis beðið þær um að vera með í sjóvinu, en fyrst þær eru mættar verður gaman að sjá hvort þær taki yfir og leiði okkur í vistvæna framtíð... eða ætli þær verði bara goggstýfðar?

K-listi Kvennahreyfingarinnar: Sæti

Þrátt fyrir ógurlega ásýnd meinar Sæti bara ósköp vel. Fyrst þegar maður kynnist honum fyllist maður ótta og hálfgerðum hryllingi, en þegar maður kemst að því að hann er í raun mjúkur að innan og nánast mannlegur getur maður ekki annað en fallið fyrir honum. Hann sér hlutina frá öðru sjónarhorni en hinir, enda risi, og maður vill ALLS ALLS ekki styggja hann - það gæti haft voveiflegar afleiðingar. Maður gæti til dæmis hætt á það að fá ekki Knús um ókomna tíð… og hver vill ekki svoleiðis frá svona krúttlegu skrýmsli?

 

M-listi Miðflokksins: Ungfrú Svínka

Fer fram með mikilfenglegum rassaköstum og tilþrifamiklum dramatískum tilfinningasveiflum af engu tilefni. Heldur að hún stjórni öllu með passív-agressív brjálæðisköstum og stendur í þeirri trú að allir séu yfirmáta ástfangnir af henni af því hún er svo röggsöm og ómótstæðileg. Kermit froskur óttast ekkert meira en að vera einn með henni í herbergi.

 

O-listi Borgarinnar okkar - Reykjavíkur: Link Hogthrob

Link deilir augljóslega ættartré með henni Svinku og koma þau iðulega fram saman í hinni stórfínu og fullkomlega ójarðtengdu smáseríu Pigs in Space, þar sem Link er skipstjóri á geimskipinu Swinetrek. Með takmörkuðum glæsileik þessarar dýrategundar og hreint ótrúlegri fáfræði kemur Link sér og samferðafólki sínu í hræðilega pínleg vandræði æ ofan í æ, enda skilur enginn hvernig hann kom sér í þá valdastöðu sem hann er í og margt bendir til þess að Svínka taki stjórnina áður en langt um líður.

 

R-listi Alþýðufylkingarinnar: Jón Bjarnason

Jón er pólitískasta Prúðan, með óþægilega langan feril að baki en samt aldrei alveg hættur þrátt fyrir að eftirspurnin sé nærri frostmarki. Jón er kommúnisti í gegn og ber skeggtíska hans því fagurt vitni. Jón er fylginn sér og mætir á hvern þann stað þar sem fólk vill yfir höfuð (ekki) heyra það sem hann hefur fram að færa.

 

 

Y-listi Karlalistans: Statler og Waldorf

Gamlir karlar með allt á hornum sér er alltaf gott skemmtiefni. Sitja í forréttindastúkunni, ábyrgðar- og getulausir og gera hróp að þeim sem eru að reyna að gera þeim til geðs. Finnst iðulega gróflega troðið á réttindum sínum og gera hróp að stjórnendum og fagfólki á öllum sviðum.

 

 

Þ-listi Frelsisflokksins - Bikar

Skilur ekki nokkurn skapaðan hlut og getur ekki tjáð sig nema með því að pípa. Upplifir sig sem fórnarlamb.

 

 

 

 

Prófið er unnið í þverfaglegu teymi atvinnulausra lögfræðinga og stjórnmálaheimspekinga undir leiðsögn sérstakrar pólitískt skipaðar nefndar fagráðherra. Stuðst er við Morfíslögmálið að satt skuli kjurt standa og ISO staðal númer sjö.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu