Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Illugi, RÚV og Síminn

Hagsmunatengsl Illuga Gunnarssonar við Orku Energy hafa verið mikið í sviðsljósinu upp á síðkastið svo maður taki hóflega til orða.

Samt er svo að vegna þess sviðsljós þá fór það framhjá mörgum að Illugi Gunnarsson kom fram daginn eftir stóra „spilin á borðið“-föstudagsviðtalið um Orku Energy, í öðru viðtali í Fréttablaðinu um RÚV.

Í því viðtali talaði hann m.a. um að takmarka þyrfti auglýsingatekjur RÚV því að stofnunin væri vaxandi vandamál í samkeppni við einkaaðila auk þess sem hann gaf í skyn að fréttastofan væri orðin óþörf vegna aðgengis að öðrum miðlum.

Margt er athugavert við þessar skoðanir Illuga sem klingja viðvörunarbjöllum um enn eina herferð stjórnarhersins á alþingi gegn RÚV sem þeim hefur ekki þótt leiðitöm stofnun þegar kemur að fréttaflutningi um ágæti silfurskeiðungana sem yfir okkur drottna.

Ef við lítum til fullyrðingarinnar um auglýsingar eingöngu þá er svo mál með vexti að RÚV er sá stakkur sniðinn í lögum sem gengur út á að takmarka auglýsingatíma og þar með tekjur ólíkt einkastöðvunum sem geta þessvegna sýnt auglýsingar jafn lengi og bíóhúsin.

Það er því frekar langsótt að tala um RÚV sem vaxandi vandamál á auglýsingamarkaði í því ljósi og því hlýtur eitthvað annað að ráða för.

Þá er eins og oft áður best að spyrja um hver hagnast mest á því að RÚV fái enn takmarkaðri auglýsingatekjur eða fari alfarið af auglýsingamarkaði.

Svarið er mjög einfalt.

Það eru annarsvegar miðlar 365 sem Illugi notaði fyrir almannatenglaherferð sína eftir að hafa forðast að svara spurningum annarra miðla mánuðum saman og viðraði svo skoðanir sínar hjá um að takmarka þyrfti RÚV enn frekar eftir aðfarir síðustu ára.

Hinsvegar er það Síminn sem rekur Skjá Einn o.fl. eftir að Skjárinn var sameinað Símanum síðastliðið vor.

Þar er samt eitt sem gerir það líklegt að þessi skoðun Illuga eigi rætur sínar að rekja til Símans.

Vinur hans Illuga Gunnarssonar, Orri Hauksson, ræður þar ríkjum og hefur eignast nýverið góðan hlut í Símanum á vildarvinaverði frá sínum góðvinum í Arion-banka.

Vinátta þeirra nær langt aftur og m.a. skrifuðu þeir mikið áróðurs- og varnarrit saman um ágæti kvótakerfisins árið 1997 sem skilaði þeim báðum aðstoðarmannastöðu hjá Davíð og frama síðar meir.

Illugi hefur ekki leynt þessari vináttu heldur sagt frá henni í viðtölum eins og t.d. við DV árið 2011 þar sem hann segir eftirfarandi:

„Góður vinur minn, Orri Hauksson, hafði verið aðstoðarmaður Davíðs áður og ætli það hafi ekki verið í gegnum það sem bent var á mig í það starf.“

Nú er nokkuð ljóst að þessi vinátta er komin í bein hagsmunatengsl vegna eignarhalds og forstjórastöðu Orra hjá Símanum sem er fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki í beinni samkeppni við RÚV. Tengslin sem slík verða enn beinni hagsmunatengsl í ljósi þess að Magnús Ragnarsson sem er fyrrum aðstoðarmaður Illuga og vinur Orra, var ráðinn til Símans til að stjórna Skjánum.

Slík hagsmunatengsl og vinátta valda því að Illugi getur ekki tekið neinar ákvarðanir í tengslum við takmarkanir eða breytingar á starfsemi RÚV þar sem slíkar ákvarðanir geta fært fyrirtæki vinar hans tugmilljóna, ef ekki hundruð milljón krónna ávinning.

Augljóslega myndi slíkt fá Orku Energy-málið til að blikna við hlið slíkrar ákvörðunartöku sama hvað annar vinur Illuga Gunnarssonar í stjórn RÚV myndi hneykslast á fréttaflutningi. Sá reyndar fékk stjórnarstöðuna í stjórn RÚV trúlega í þakkarskyni fyrir að hafa reddað Illuga Gunnarssyni úr peningaerfiðleikum árið 2008. Bæði málin komast þó líklegast ekki nálægt fyrri verkum Illuga þegar hann kom nálægt einkavinavæðinguna á hluti ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja sem endaði hjá Geysi Green Energy sem var í eigu FL Group og Glitnis. Rétt eftir þá einkavinavæðingu fékk Illugi vinnu hjá sem stjórnarmaður í Glitni Sjóðum eins og frægt er orðið. Það er reyndar áhugavert að erlendar eignir Geysi Green Energy enduðu svo hjá Orku Energy í ágúst 2011 sem er það ár sem Illugi vann ráðgjafastörf sín fyrir vin sinn í Orku Energy.

En svo við snúum okkur aftur að RÚV og Illuga þá er nokkuð ljóst að vegna vináttu hans við Orra Hauksson eru tengslin slík að Illugi ætti að segja sig frá öllu er viðkemur RÚV.

Öll ákvarðantaka hans sem skaðar RÚV fjárhagslega verður annars skoðuð sem augljós spilling.

Líkt og fleiri ákvarðanir hans á þessu kjörtímabili.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni