Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Framboð sundrungartákns hinnar íslensku þjóðar

Framboð sundrungartákns hinnar íslensku þjóðar

Þegar við fórum nokkur á fund forseta síðasta sumar þá gekk ég út af þeim fundi með þá tilfinningu að hann væri byrjaður að þreifa fyrir sér með enn eitt kjörtímabilið.

Maður efaðist samt um tilfinninguna en gleymdi því samt ekki að Ólafur Ragnar er ólíkindatól sem enginn veit hvar hann hefur.

Líkt og Sigmundur Davíð komst að um daginn.

Með haustinu lét hann reglulega á sér kræla og ég styrktist í þessari trú minni að hann væri að þreifa fyrir sér en samt var nú efinn alltaf til staðar.

Það kom því mér nokkuð á óvart þegar Ólafur tilkynnti svo síðar í vetur að hann myndi hætta sem forseti og hleypa öðrum í stól Bessastaðabóndans sem hann hefði getað á þessum tímapunkti staðið upp úr án þess að það ylli látum.

En það kom mér samt ekki neitt sérlega á óvart að hann hefði ákveðið að fara fram aftur á þessum tímapunkti með allskonar skírskotun um reynslu, kjölfestu, óróa og annað sem var endurunnið úr síðustu framboðstilkynningu.

Klækjarefurinn kann þetta nefnilega og manni var líka byrjað að gruna að þetta yrði reyndin eftir að baráttufélagi hans, Sigurður G. Guðjónsson, skrifaði árásarpistil á Andra Snæ um helgina til að draga víglínur.

Það sem kemur mér samt á óvart er tilfinningin sem blossar upp hjá mér.

Það er ekki reiði heldur sorg og dapurleiki.

Ákallið hefur nefnilega ekki verið eftir „sterkum leiðtoga sem tryggir kjölfestu á umrótartímum“ heldur hefur ákallið verið eftir samfélagsbreytingum(m.a. í formi nýrrar stjórnarskrár) sem ættu að færa okkur úr forarvaði spillingar í átt til heiðarleika og siðbótar í samfélaginu.

Slíkt er vart sjáanlegt í þessari klækjapólítík Ólafs.

Þetta er nefnilega óheiðarlegt og lúalegt klofbragð gagnvart mótframbjóðendum hans.

Sumir af mótframbjóðendum hans til forseta höfðu beðið eftir vitneskju um hvort Ólafur ætlaði að bjóða sig fram aftur enda þarf allt aðra strategíu á móti sitjandi forseta heldur en gagnvart fólki sem þarf misvel að kynna sig.

Sumir af þessum mótframbjóðendum hefðu heldur aldrei farið í þennan leiðangur með tilheyrandi fjárútlátum ef Ólafur hefði tilkynnt að hann ætlaði fram að nýju. Íslendingar eru nefnilega svo íhaldssamir og lítt hrifnir af breytingum þegar á hólminn er komið að sitjandi forseti hefur ávallt talsvert forskot. Nú sitja sumir hverjir af þessum frambjóðendum uppi með mikinn kostnað, glataða skipulagsvinnu og að öllum líkindum vonlausa kosningabaráttu.

Vonlausa kosningabaráttu segi ég í ljósi þess að þeir sem munu fylkja sér á bak við Ólaf eru landsbyggðarfólk, gamalmenni, þjóðernissinnarnir og hægrisinnaði „freki kallinn“ af báðum kynjum sem sér ekkert rangt við skálkaskjól Sigmundar og Bjarna Ben.

 Og já, rasistarnir.

Við megum ekki gleyma því að Ólafur höfðaði til þeirra eftir París og Brussel með sverðaglamri sínu í garð múslima.

Þeir eru allavega 10% Reykvíkinga miðað við gengi Framsóknar í borgarstjórnarkosningum síðast og örugglega meiri fjöldi á landsbyggðinni.

Semsagt liðið sem er mun líklegra til að mæta á kjörstað heldur en yngra fólk.

En þetta er líka óheiðarlegt og lúalegt gagnvart kjósendum því þetta gerbreytir öllu andrúmslofti í kringum baráttuna um Bessastaði líkt og árásarpistill Sigurðs G. á Pressunni gaf okkur forsmekkinn af.

Skotgrafir verða grafnar, heift mun verða keyrð í hæstu hæðir, subbuskapur og sóðalegheit verður normið þar sem „hinn þjóðholli forseti“ verður teflt sem „eini maðurinn sem getur bjargað Íslandi“ og sterkasti mótframbjóðandinn sagður „óþjóðhollur IceSave-svikari“ svo dæmi verði tekið fram um hvernig umræðurnar verða í garð andstæðinga Ólafs.

Það verður semsagt háð ógeðsleg kosningabarátta þar sem „divide and conquer“-tækni verður nýtt til hins fyllsta svo við tökum ekki eftir öðrum hlutum sem eru að gerast á þingi.

Heiftin og reiðin mun líka ríkja í garð Ólafs sem hefur hingað til reynst meira sundrungartákn heldur en sameiningartákn líkt og kastað er fram að embættið eigi að vera á tyllidögum. Þar mun fólk fara fljótt saman ofan í skotgrafirnar sem stuðningsmenn Ólafs hafa grafið og gert að forarsvaði til að drekkja mótframbjóðendum Ólafs í.

Við frekari umhugsun þá finnst manni þetta eiginlega vera nokkuð sorglegt í reynd þegar það hefði kannski verið frekar þörf á að við myndum sjá eitthvað nokkuð rólegt, eilítið litlaust og heiðarlegt fara fram til að minna okkur á það að það sé enn til eitthvað sem getur farið sómansamlega fram á Íslandi. Nú sitja fjölmargir kjósendur uppi með það óbragð í munninum að þurfa að kjósa strategískt þann frambjóðanda sem er líklegastur til að fella sitjandi forseta í stað þess að geta kosið þann forsetaframbjóðenda sem fólki hefur hvað mesta sannfæringu fyrir á kjördegi.

Það versta er að maður býst fastlega við því að Ólafur Ragnar muni verða endurkjörinn nema eitthvað stórvægilegt gerist á borð við það að þjóðin sýni loksins í verki að henni langi raunverulega í breytingar til hins betra.

Það er samt lítil von til þess.

Slíkur er máttur sundrungartákns hinnar íslensku þjóðar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu