Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Mótmælir þöggun í kjölfar læknamistaka

Auð­björg Reyn­is­dótt­ir missti son sinn vegna mistaka á bráða­mót­töku barna. Hún vill opna um­ræð­una um mis­tök í heil­brigðis­kerf­inu og þögg­un Land­læknisembætt­is­ins á erf­ið­um mál­um. Auð­björg berst fyr­ir stofn­un um­boðs­manns sjúk­linga og gagn­sæi í rann­sókn­um á mis­tök­um. Eng­inn tals­mað­ur sjúk­linga er í starfs­hópi um al­var­leg at­vik í heil­brigð­is­þjón­ustu.

Læknirinn slökkti á öndunarvélinni og tók túbuna úr kokinu. Mér létti rosalega þegar ég sá að drengurinn minn andaði sjálfur. Ég mátti búast við nokkrum mínútum eða klukkustundum sem hann gæti lifað án vélarinnar. Daginn áður sögðu læknarnir okkur að það væri engin heilastarfsemi og ekkert hægt að gera.“

Þannig byrjar Auðbjörg Reynisdóttir sögu Jóels, sonar síns, en hann lést í kjölfar mistaka, einungis fjórtán mánaða gamall. Á hádegi þann 22. febrúar 2001 fór Auðbjörg með Jóel á bráðamóttöku barna en hann hafði verið veikur um nóttina og kastað upp. „Átta vikum fyrir tímann var hann tekinn með keisaraskurði því höfuðið stækkaði of hratt. Vikugamall fékk hann ventil vegna vatnshöfuðs. Þessi ventill hafði stíflast tvisvar einmitt með þessum einkennum. Hann hafði einnig fengið iðrakveisur og bakflæði, líka með þessum einkennum,“ segir Auðbjörg. Læknarnir sem tóku á móti þeim á bráðamóttökunni þekktu sögu Jóels en ákváðu engu að síður að um iðrakveisu væri að ræða og gáfu honum vökva í æð. „Ég hlakkaði til að sjá hann hressast, yfirleitt tók það hálftíma. Svo komu hjúkrunarfræðingar til að gera mælingar; blóðþrýstingur, mettun og fleira. Ég sagði að mér finndist hann ekki vera að hressast. Alveg í andstöðu við það sem ég átti von á. Þær komu aftur, mér fannst honum versna en ekki batna. Ég hringdi bjöllunni og sagðist vera að missa samband við hann, sem er mjög alvarlegt einkenni. En það gerðist ekkert. Þær bara mældu og fóru,“ segir Auðbjörg.

Fannst enginn hlusta

Um þrjúleytið segist Auðbjörg hafa verið orðin verulega svöng, enda hafði hún ekki borðað frá því daginn áður. „Þannig að ég ákvað að skreppa í sjoppuna og fá mér samloku og skildi hann eftir hjá hjúkrunarfræðingunum inni á vaktinni. Þegar ég kom til baka staldraði ég við í dyrunum og þetta atvik líður mér aldrei úr minni. Strákurinn lá í vagninum bak við hjúkrunarfræðinginn sem sat við tölvuna og spilaði Tetris. Það var greinilega ekki mikið að gera. En áfram komu þær og mældu og áfram kvartaði ég og ekkert gerðist.“

Það var ekki fyrr en um hálf sexleytið að kvöldi sem tekin var sónarmynd af höfði Jóels. „Vá, hvað ég hlakkaði til að hitta lækni sem myndi örugglega sjá strax að hann var orðinn alveg rænulaus þegar þarna var komið. En nei, læknirinn var í sömu leiðslu og hjúkrunarfræðingarnir. Hann var algjörlega einn með sínu tæki, leit hvorki á mig né strákinn. Sagði bara: „Settu hann þarna“. Eins og ég væri að koma með einhvern ruslapoka. Hann þagði bara, framkvæmdi sína rannsókn, horfði á skjáinn og sagði ekkert þangað til hann sagði: „Þið megið fara aftur inn“. Aftur kom hjúkrunarfræðingurinn til að mæla og ég benti henni á að öndun hans væri orðin skrítin. Hvasst soghljóð heyrðist í stráknum. Hún fór. Ég heyrði óm, það voru einhverjir að tala saman frammi á gangi. Ég sá að strákurinn blánaði og var hættur að anda. Ég kallaði: „Hann er hættur að anda!“ Þá fyllist stofan af fólki. Ég heyrði að niðurstöður úr sónar voru að ventillinn var stíflaður sem þýddi að vökvagjöfin var baneitruð. Skurðlæknirinn kom og tók hann í aðgerð. Það þurfti ekki að svæfa hann því hann var kominn í það djúpt kóma. Ég heyrði lækninn segja: „Af hverju var ekki kallað á mig fyrr?““

Reiðin tók öll völd

Eftir aðgerðina var Jóel fluttur á gjörgæslu, þar sem hann var um nóttina. „Ég svaf ekkert. Ég hugleiddi aftur og aftur hvað hafði gerst og endurtók orð læknisins í huga mér aftur og aftur. Klukkan sex um morguninn fór ég fram til Jóels og sá að hann var farinn. Ég bara gerði mér grein fyrir því. Hann var ekki þarna lengur. Öndunarvélin gekk, en hann var ekki þarna. Ég var orðin verulega óróleg og gekk um gólf gjörsamlega friðlaus. Svo komu læknarnir. Þeir vildu að ég settist niður til að ræða málin. Það gat ég bara ekki gert. Það var útilokað. Ég spurði þá beint: „Fór eitthvað úrskeiðis í gær?“ Þeir litu hvor á annan og sögðu ekkert. Meira þurfti ég ekki að heyra. Ég trompaðist á staðnum. Reiðin tók gjörsamlega völd. Ég rauk út og skellti eins fast og ég gat svo gamli spítalinn nötraði. Ég rauk niður í kjallara gjörsamlega buguð. Öskraði og skalf. En einhvern veginn staulaðist ég upp aftur.“

„Ég trompaðist á staðnum. Reiðin tók gjörsamlega völd. Ég rauk út og skellti eins fast og ég gat svo gamli spítalinn nötraði.“

Jóel var settur í heilalínurit sem sýndi nánast enga virkni, þó hjartað slægi. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu