Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Vafasöm viðskiptasaga eiganda Brúneggja

Ann­ar eig­andi Brúneggja, Krist­inn Gylfi Jóns­son, á sögu um­deildra við­skipta og gjald­þrota að baki. Hann sló met í per­sónu­legu gjald­þroti ár­ið 2003 og stýrði rót­grónu sam­vinnu­fé­lagi í vanda, með­al ann­ars með lán­veit­ing­um til eig­in fé­lags þar sem hann sat beggja vegna borðs.

Vafasöm viðskiptasaga eiganda Brúneggja
Kristinn hefur komið víða við á löngum ferli, en sjaldnast ganga hlutirnir sem skyldi Mynd: Rúv

Frá aldamótum hafa vafasamir fjármálagjörningar og gjaldþrot einkennt viðskiptasögu Kristins Gylfa Jónssonar, annars eigenda Brúneggja.

Brúnegg hafa verið staðin að því að blekkja neytendur um árabil til þess að kaupa „vistæn“ egg frá hænum sem fyrirtækið sagði njóta „umhyggju og ástar“, á sama tíma og Matvælastofnun hafði ákveðið að loka fyrirtækinu vegna ítrekaðra og langvarandi brota á reglum um dýravernd og matvælaframleiðslu. Brúnegg uppfylltu aldrei skilyrði um vistvæna framleiðslu þrátt fyrir markvissa markaðssetningu þess efnis. 

Kristinn Gylfi Jónsson, annar eigenda Brúneggja, svaraði fyrir málið í Kastljósinu á mánudag. Þar kenndi hann meðal annars litlu eftirliti um brot Brúneggja gegn dýravernd og matvælalöggjöf: „Kannski má segja að menn hafi gengið á lagið vegna þess að það var ekki nógu gott eftirlit með því.“

Dagsektir Brúneggja námu 2,6 milljónum króna, sem eru aðeins um 1,2 prósent af 215 milljóna króna hagnaði Brúneggja á árunum 2009 til 2015.

En þetta er ekki eina málið þar sem Kristinn Gylfi er talinn stunda vafasama viðskiptahætti.

Umfjöllun í rannsóknarskýrslu Alþingis

Árið 2003 fór Kristinn í stærsta persónulega gjaldþrot Íslandssögunnar. Hann var stjórnarformaður kjúklingabúsins Móa hf., sem ásamt svínabúinu Brautarholti, sem Kristinn átti, fór í þrot. Í kjölfarið fór fyrirtækið Nesbú egg, sem Kristinn átti, einnig í þrot. Gjaldþrotið hljóðaði á endanum upp á 1,2 milljarða króna, sem var met á þessum tíma.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis, viðauka 5, blaðsíðu 91–92, er farið rækilega yfir gjörninga bræðranna sem eiga Brúnegg og aðdraganda þessa sögulega gjaldþrots. Árið 1985 höfðu bræðurnir keypt hlut í Móum, sem þá var með 8% markaðshlutdeild. Þeir hafi þó strax farið í stórfelldar fjárfestingar og árið 2000 var búið komið með þriðjungs markaðshlutdeild.

Sem formaður Svínaræktarsambandsins
Sem formaður Svínaræktarsambandsins Kristinn var á tímabili einn stórtækasti svínaræktandi landsins

Helsti samkeppnisaðili Móabúsins var Reykjagarður, sem lengst af var stærsti framleiðandi hænsnakjöts á landinu. Árið 2001 keypti Fóðurblandan, sem þá var í eigu GB Fóðurs, Reykjagarð, en seldi hann svo til Búnaðarbankans, sem hugðist sameina Reykjagarð Móabúi Kristins Gylfa og Björns Jónssonar, bróður hans. Hugmyndin að þessum gjörningum voru allir komnir frá Kristni Gylfa, sem raunar vildi ganga mun lengra. 

Hann vildi að Búnaðarbankinn keypti Fóðurblönduna og sameinaði hana Mjólkurfélaginu, sem einnig var stórtækt á fóðurmarkaði. Í framhaldinu skyldi síðan sameina Móa, Reykjagarð, Nesbú, Síld og fisk og svínabúið Brautarholti í eitt fyrirtæki. Ef af því hefði orðið hefði eitt fyrirtækið ráðið yfir nánast allri fóðursölu á landinu, og Kristinn og bróðir hans hefðu verið með nærri 70% markaðshlutdeild á kjúklingamarkaði og einnig ráðandi á kjötmarkaði. Samkeppnisyfirvöld lögðust hins vegar gegn þessari sameiningu. 

Þrátt fyrir það voru þeir bræður orðnir mjög umsvifamiklir á þessum tíma, áttu annað stærsta svínabú landsins, annað stærsta eggjabúið, annað stærsta kjúklingabúið og voru með mikil umsvif í kjötvinnslu. Útþensla þeirra var hins vegar fjármögnuð að mestu leyti með lánsfé og voru skuldir þeirra fimm milljarðar í árslok 2002.

Misráðnar fjárfestingar

Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir að sumar fjárfestingar þeirra hafi þótt misráðnar. Þeir voru tilbúnir að borga óhóflega hátt verð fyrir þau fyrirtæki sem þeir keyptu, en kaupverðið á bæði Nesbúinu og Síld og fiski þótti óeðlilega hátt og vandséð hvernig rekstur fyrirtækjanna ætti að geta staðið undir afborgunum af lánum sem þeir tóku til að fjármagna kaupin.

Í júlí 2001 höfðu Móar tekið í notkun stórt og öflugt sláturhús og kjötvinnslu í Mosfellsbæ. Framleiðslugeta hússins var slík að það hefði getað annað allri kjúklingaframleiðslu landsins og því var nauðsynlegt fyrir Móa að stórauka framleiðslu sína til þess að nýta fjárfestinguna. Í kjölfarið jókst framboð af kjúklingakjöti á landinu gríðarlega sem varð meðal annars til þess að valda verðstríði á kjúklingamarkaði.

Uppgangur
Uppgangur Frétt af því þegar Brautarholtsveldið sölsaði undir sig Síld og fisk

Rekstur kjúklingabúa landsins stóð á þessum tíma höllum fæti. Á meðan Búnaðarbankinn var eigandi Reykjagarðs tapaði hann miklu á rekstri búsins. Námu þær fjárhæðir 313 milljónir króna fyrir árið 2001 og 71 milljón árið 2000. Um áramótin 2001–2002 var eigið fé fyrirtækisins orðið neikvætt um 146 milljónir en stuttu áður, árið 2000 hafði það hinsvegar verið jákvætt um 72 milljónir.

Á sama tíma var töpuðu Móar féi. Á árinu 2001 nam það tap 241 milljón króna. Verðstríð á kjötmarkaði og offjárfestingar eigendanna höfðu þær afleiðingar að bæði Móabúið og Reykjagarður voru á barmi gjaldþrots árið 2002. Um haustið árið 2003 keypti svo SS Reykjagarð af bankanum og Matfugl keypti þrotabú Móa, sem hafði verið úrskurðað gjaldþrota í nóvembermánuði árið 2003.

Verðstríð kjúklingaframleiðenda kom einnig niður á svínakjötsframleiðslu og má því segja að með þessari miklu útþenslu hafi Kristinn og bróðir hans skotið sig í báða fætur. Árið 2002 hættu tíu svínabú rekstri og árið 2003 fer svo svínabú þeirra bræðra að Brautarholti í þrot.

Stærsta persónulega gjaldþrot Íslandssögunnar

Einnig misstu þeir bræður yfirráðin yfir Síld og fiski. Svínabúið Brautarholti hafði keypt tvo þriðju hluta í fyrirtækinu í júní árið 2000 á um einn milljarð króna með tilstilli Búnaðarbankans. Síld og fiskur rak Vatnsleysustrandarbúið og kjötvinnslu undir merkjum Ali í Hafnarfirði. Því var haldið fram að viðskipti Brautarholts við Síld og fisk hafi verið mjög umdeild innan stjórnar þess síðarnefnda. Svínabúið hafi selt Síld og fiski svínakjöt sem Síld og fiskur svo seldi fullunnið til einkahlutafélagsins Geysis, sem var í eigu Kristins og bróður hans. Geysir hafi svo selt verslunum kjötið, en hinum eigendum Síldar og fisks hafi gramist þetta mjög.

Í október árið 2003 sagði Steinþór Skúlason, forstjóri SS, í viðtali við Viðskiptablaðið að á kjötmarkaði væri „hagfræði andskotans við lýði“. Það væru ekki endilega þeir sem væru með lægstan framleiðslukostnað og mest eigið fé sem lifðu af, heldur þeir sem ættu greiðastan aðgang að lánsfjármagni á meðan ósköpin gengju yfir.

Erfitt er að meta nákvæmlega tapið af þessum gjalþrotum. 1,2 milljarðar lentu hins vegar á Kristni Gylfa, persónulega. Þuríður Halldórsdóttir, sem var skiptastjóri þrotabúsins, sagðist ekki minnast stærra persónulegs gjaldþrots. „Ég hef fylgst nokkuð vel með gjaldþrotamálum í gegnum tíðina, ekki síst af því ég vann lengi í innheimtunni hjá Tollstjóra og það er ekkert persónulegt gjaldþrotamál sem kemur upp í hugann sem kemst í námunda við þetta, hvað fjárhæðir snertir. Þetta eru hæstu tölur sem ég hef heyrt um.“

Gjaldþrotamet
Gjaldþrotamet Fyrirtæki Kristins fóru á hvínandi kúpuna, en hann fékk þó hluta þeirra viðstöðulaust aftur upp í hendurnar

Í samtali við DV árið 2004 sagðist Kristinn hins vegar vera búinn að fá svínabúið Brautarholti aftur í sínar hendur og nú gæti hann um frjálst höfuð strokið. „Rekstur þessara fyrirtækja gengur nú vel, en við, fyrri eigendur þeirra, lentum í miklum erfiðleikum vegna markaðsaðstæðna.“ Árið 2010 varð Brautarholt svo aftur gjaldþrota. Engar eignir fundust í búinu, kröfur námu alls nærri 600 milljónum króna.

Sat beggja vegna borðs í viðskiptum við sjálfan sig

Á sama tíma og fyrirtæki Kristins voru í gjalþrotaskiptum kom upp annað mál honum tengdum. Hann hafði verið stjórnarformaður Mjólkurfélags Reykjavíkur um nokkurra ára skeið, en MR var samvinnufélag sem sá um sölu á fóðurvörum, girðingarefni og sáðvöru auk þess sem það sérhæfði sig í sölu á búnaði fyrir bændur í svína- og alifuglarækt.

Í júní árið 2004 var lagt til, á aðalfundi Mjólkurfélagsins að óskað yrði eftir opinberri rannsókn vegna meintra brota Kristins Gylfa, sem fyrrverandi stjórnarformanns. Í greinargerð sem Þórarinn Viðar Þórarinsson lögmaður tók saman að beiðni stjórnar Mjólkurfélagsins var dregin upp sú mynd að Kristinn Gylfi hefði brotið gegn félaginu þegar hann lét það lána fyrirtæki í sinni eigu, Svínabúinu Brautarholti, 41 milljón króna í beinhörðum peningum.

Mjólkurfélagið
Mjólkurfélagið var stofnað 1917 og var lífeyrissjóður þeirra bænda sem í það höfðu lagt fé. Þeim pening sólundaði Kristinn í sín eigin fyrirtæki

Einnig kom þar fram að farið hefði út fyrir öll venjuleg viðmið hversu miklum skuldum fyrirtæki í eigu Kristins Gylfa og fjölskyldu hans fengu að safna hjá MR vegna fóðurkaupa. Endurskoðunarfyrirtækið PriceWaterhouseCoopers mat tap MR vegna viðskiptanna 465 milljónir króna. Var því lýst sem alvarlegu áfalli fyrir félagið, sem var einn stærsti kröfuhafi í þrotabú fyrirtækja Kristins. Tap þess nam 195 milljóna vegna Móa, 159 milljóna vegna Brautarholts og 111 milljóna vegna Nesbús.

Ógegnsæjar lánveitingar

Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar lögmannsins voru lánveitingarnar vandlega faldar í ársreikningi mjólkurfélagsins. Áðurnefnt lán var veitt vegna greiðslu Brautarholtsbúsins á 7 milljóna króna skuld við MR. Um miðjan ágúst árið 2000 var gefið út 50 milljóna króna skuldabréf sem MR ábyrgðist. Að frádregnum kostnaði stóð eftir 41 milljón sem fór um bankareikning MR og inn á reikning svínabúsins. Skuldabréfið fór fljótlega í vanskil.

Í mars 2000 var gefið út annað skuldabréf vegna Brautarholts upp á 29 milljónir króna. Um þetta bréf gilti það sama og um fyrrnefnda bréfið að þess var í engu getið í ársreikningi MR fyrir viðkomandi ár. Af þeim sökum leit út fyrir að skuldir Brautarholts við MR væru „aðeins“ 79 milljónir króna í ársbyrjun 2001 þegar skuldirnar námu í reynd 150 milljónum.

Í skýrslu Þórarins Viðars sagði að umrædd peningalánveiting hafi verið ótengd starfsemi MR: „Formaður stjórnar mátti vel vita að það væri svo óvenjuleg og dæmalaus ráðstöfun að félagið gengist í ábyrgð fyrir ótengd lán til viðskiptamanna að honum hlýtur að hafa verið ljóst að veiting slíkrar ábyrgðar væri langt umfram heimildir framkvæmdastjóra félagsins.“

Mjólkurfélaginu stefnt vegna gjörninga Kristins

Árið 2005 stefndi KB banki Mjólkurfélaginu til að greiða hálfan milljarð króna vegna samnings sem Kristinn gerði við bankann, sem stjórnarformaður MR, um viðskipti með Fóðurblönduna.

Kristinn Gylfi fékk Búnaðarbankann til þess að kaupa Fóðurblönduna á sínum tíma í því skyni að ráðandi hlutur yrði seldur Mjólkurfélaginu aftur. Í maí 2001 var undirritaður samningur þar sem Kristinn ábyrgðist, fyrir hönd Mjólkurfélagsins, að bankinn biði ekki fjárhagslegan skaða af viðskiptunum.

Samkeppnisstofnun féllst svo ekki á að Mjólkurfélagið gæti eignast Fóðurblönduna og náð þannig einokunarstöðu á fóðurmarkaði. Bankinn sat þá uppi með Fóðurblönduna þar til hann seldi hana aftur með tapi. Mjólkurfélagið fékk svo reikninginn fyrir tapinu frá KB banka, tæpar 500 milljónir með áföllnum vöxtum. Stjórn félagsins hélt því hins vegar fram að samningurinn hafi verið ólögmætur þar sem hann hafi aldrei verið borinn undir stjórn félagsins.

Eigið fé Mjólkurfélagsins var á þessum tíma ekki nema 200 milljónir króna, enda hafði gjaldþrot fyrirtækja Kristins dregið allan mátt úr félaginu. Það hafði verið starfandi sem sameignarfélag tæplega 400 bænda frá árinu 1917 og litu margir bændur á stofnfé sitt sem lífeyrissparnað. Félagið þurfti að minnka umsvif sín umtalsvert vegna þessara áfalla.

Í nóvember 2005 skipti það um nafn og heitir í dag Lífland. Vegna rekstrarerfiðleika hætti félagið að vera samvinnufélag og var síðan yfirtekið af stærstu eigendum. Einn þeirra eigenda er einmitt Kristinn Björnsson, náfrændi Kristins Gylfa og fyrrum forstjóri Skeljungs. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Davíð kallar borgarstjórn bjálfa fyrir að taka niður styttuna af Séra Friðriki
3
FréttirSr. Friðrik og drengirnir

Dav­íð kall­ar borg­ar­stjórn bjálfa fyr­ir að taka nið­ur stytt­una af Séra Frið­riki

Rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins seg­ir upp­lýs­ing­ar um að Séra Frið­rik Frið­riks­son, stofn­andi KFUM, hafi beitt fjöl­marga drengi kyn­ferð­is­legu áreiti og of­beldi vera „get­gát­ur eins manns“ eft­ir að „ímynd­un­ar­afl hans fór loks í gang eft­ir tæp 75 ár.“ Það að stytta af hon­um hafi ver­ið fjar­lægð sé merki um of­stæki þeirra sem noti hvert tæki­færi til að þykj­ast betra og pen­inga­laus­ara en ann­að fólk.
Steinunn Ólína segist ekki bjóða sig fram gegn Katrínu vegna persónulegrar óvildar
7
Fréttir

Stein­unn Ólína seg­ist ekki bjóða sig fram gegn Katrínu vegna per­sónu­legr­ar óvild­ar

Stein­unn Ólína Þor­steins­dótt­ir sagð­ist í Pressu fara fram fyr­ir hönd þeirra sem upp­lifa valda­leysi gagn­vart stjórn­völd­um. Taldi hún for­seta­kosn­ing­arn­ar vera af­ar póli­tísk­ar að þessu sinni. Þrátt fyr­ir gagn­rýni sína á rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur, ít­rek­aði Stein­unn að fram­boð henn­ar væri ekki vegna per­sónu­legra óvild­ar henn­ar í garð Katrínu.
Formaður Sameykis sakaður um ógnarstjórn
9
Skýring

Formað­ur Sam­eyk­is sak­að­ur um ógn­ar­stjórn

Skrif­stofa Sam­eyk­is hef­ur und­an­far­ið ver­ið að glíma við ósætti á vinnu­staðn­um og slæm­an vinnu­anda. Sam­kvæmt ný­legri út­tekt sem gerð var á vinnu­staðn­um bend­ir ým­is­legt til að vand­ann megi rekja til fram­komu og stjórn­un­ar­hátta for­manns Sam­eyk­is, Þór­ar­ins Eyfjörð. Sjálf­ur seg­ist hann hafa tek­ið til sín eitt­hvað af þeirri gagn­rýni sem bein­ist gegn hon­um og að vinna við að bæta and­rúms­loft­ið á skrif­stof­unni sé vel á veg kom­inn.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Örlæti Haraldar kostar ríkissjóð yfir hálfan milljarð
5
Afhjúpun

Ör­læti Har­ald­ar kost­ar rík­is­sjóð yf­ir hálf­an millj­arð

Rík­is­sjóð­ur sit­ur uppi með yf­ir 500 millj­óna króna reikn­ing eft­ir að Har­ald­ur Johann­essen, fyrr­ver­andi rík­is­lög­reglu­stjóri, hækk­aði líf­eyr­is­rétt­indi út­val­inna und­ir­manna sinna um helm­ing, án þess að hafa til þess heim­ild. Þetta er nið­ur­staða meiri­hluta Hæsta­rétt­ar sem kall­ar verk Har­ald­ar „ör­læt­is­gjörn­ing“. Stór hluti þess­ara und­ir­manna Har­ald­ar skrif­aði und­ir op­in­bera stuðn­ings­yf­ir­lýs­ingu við hann stuttu síð­ar. Samn­ing­arn­ir standa samt því und­ir­menn­irn­ir vissu ekki bet­ur en að Har­ald­ur mætti gera þá. Um­mæli tveggja ráð­herra hafi styrkt þá trú þeirra.
Þórður Snær Júlíusson
8
Leiðari

Þórður Snær Júlíusson

Dýr­asta kosn­ingalof­orð Ís­lands­sög­unn­ar

Ár­ið 2003 lof­aði Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn 90 pró­sent lán­um til hús­næð­is­kaupa svo börn gætu flutt úr for­eldra­hús­um. Rík­is­ábyrgð var á fjár­mögn­un lán­anna. Nú, tveim­ur ára­tug­um síð­ar, stend­ur rík­is­sjóð­ur frammi fyr­ir því að vera að tapa að nokkr­um millj­örð­um króna á mán­uði vegna þess­ara lof­orða og það hef­ur aldrei ver­ið erf­ið­ara fyr­ir ungt fólk að kom­ast í eig­ið hús­næði.

Mest lesið í mánuðinum

Læstur inni í íbúðinni sinni í fimmtán ár
1
ViðtalFatlað fólk beitt nauðung

Læst­ur inni í íbúð­inni sinni í fimmtán ár

Sveinn Bjarna­son bjó í fimmtán ár í læstri íbúð á veg­um Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar. Hann bank­aði oft ít­rek­að og grét áð­ur en starfs­fólk opn­aði fyr­ir hon­um. Móð­ir hans gerði end­ur­tekn­ar at­huga­semd­ir við að hann væri læst­ur inni og seg­ir son sinn hafa ver­ið van­rækt­an. Fyrr á þessu ári greip hún til þess ör­þrifa­ráðs að flytja hann bú­ferl­um í ann­an lands­hluta til að fá mann­sæm­andi að­bún­að fyr­ir hann. Mál Sveins varp­ar ljósi á al­var­leg­ar brota­lam­ir í þjón­ustu við fatl­að fólk á Ís­landi og sýn­ir hvernig mann­rétt­indi hafa ver­ið virt að vett­ugi ár­um sam­an.
Rúlletta Róberts og vitnisburðir starfsfólks: „Þetta er bara rosalega mikið álag“
3
ÚttektRóbert Wessman, Alvogen og Alvotech

Rúll­etta Ró­berts og vitn­is­burð­ir starfs­fólks: „Þetta er bara rosa­lega mik­ið álag“

Starfs­menn Al­votech lýsa vinnu­álag­inu sem ómann­eskju­legu og hafa leit­að til stétt­ar­fé­laga út af ógreiddri yf­ir­vinnu og fleiri mál­um. Vinnu­að­stæð­urn­ar hafa ver­ið svona út af því að Al­votech hef­ur unn­ið að því að fá mark­aðs­leyfi fyr­ir sam­heita­lyf Humira í Banda­ríkj­un­um. Fyr­ir­tæk­ið hef­ur veðj­að öllu á þetta lyf en sala á því hef­ur dreg­ist sam­an og sam­heita­lyfj­um þess hef­ur alls ekki geng­ið eins vel í Banda­ríkj­un­um og reikn­að var með.
Ákveðið að saksækja þrjá í Lindsor-málinu rúmum 15 árum síðar
7
Skýring

Ákveð­ið að sak­sækja þrjá í Lindsor-mál­inu rúm­um 15 ár­um síð­ar

Sama dag og Geir H. Haar­de flutti ræðu til þjóð­ar­inn­ar þar sem hann bað guð um að blessa Ís­land veitti Kaupþing af­l­ands­fé­lagi lán sem not­að var til að kaupa verð­lít­il skulda­bréf af starfs­mönn­um og vild­ar­við­skipta­vini bank­ans. Nú, 15 og hálfu ári eft­ir að lán­ið var veitt, stend­ur til að sak­sækja þrjá ein­stak­linga í Lúx­em­borg vegna þess.
Hjúkrunarheimilið Sóltún fékk 20 milljarða frá íslenska ríkinu
8
Fréttir

Hjúkr­un­ar­heim­il­ið Sól­tún fékk 20 millj­arða frá ís­lenska rík­inu

Frá ár­inu 2009 hef­ur hjúkr­un­ar­heim­il­ið Sól­tún feng­ið tæp­lega 20 millj­arða króna frá ís­lenskra rík­inu. Um 90 pró­sent af tekj­um Sól­túns koma frá rík­inu. Eig­end­urn­ir hafa tek­ið á þriðja millj­arð króna út úr rekstr­in­um með því að selja fast­eign­ir og lóð­ir og lækka hluta­fé fyr­ir­tæk­is­ins. All­ur rekst­ur­inn bygg­ir hins veg­ar á um­deild­um samn­ingi við ís­lenska rík­ið sem gerð­ur var ár­ið 2000.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár