Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

„Ég ætla að verða 100 ára”

Ragna Að­al­steins­dótt­ir, bóndi á Lauga­bóli, sinn­ir búi sínu þótt hún sé 91 árs. Hú hef­ur lif­að meiri raun­ir en flest­ir. Tvö af þrem­ur börn­um fór­ust. Missti einnig tvö barna­börn. Þá hef­ur hún séð á bak nán­um vin­um. Hún lá lær­brot­in úti í sex tíma um há­vet­ur. Bjarg­vætt­ur henn­ar fórst skömmu síð­ar.

Ég fer ekki héðan af sjálfsdáðum. Ég læt frekar flæma mig í burtu,“ segir Ragna Aðalsteinsdóttir, 91 árs bóndi á Laugabóli í Laugardal.

Bærinn hennar Rögnu er síðasti bærinn í dalnum. Þar sem áður var blómleg byggð eru nú allir bæir í eyði nema Laugaból. Síðast fóru Hrafnabjörg í eyði þegar Sigurjón bóndi Samúelsson brá búi og fór á elliheimili fyrir tæpum tveimur árum.

Þegar við rennum í hlað á Laugabóli blasir við að snyrtimennska er í fyrirrúmi. Á meðan illgresið leggur undir sig jarðirnar í kring er Ragna með skrúðgarð á hlaðinu. Hann heitir Bjarkalundur eftir syni hennar heitnum. Og meðfram sólpallinum við íbúðarhúsið vaxa skrautblóm. Á hlaðinu eru traktorar og heyvinnslutæki sem líta út eins og ný. Varla er að sjá rispu á lakki. Laugaból er dálítið eins og vin í eyðimörk.

Áður hafði verið eins konar fjarbúskapur á Birnustöðum, hinum nágrannabænum, en þar gáfust menn svo upp og hurfu á braut. Óræktin tók yfir. Rögnu leist reyndar aldrei á þá búskaparhætti að koma aðeins á nokkurra daga fresti til að gefa kindunum. Hún vill vera nálægt sínum kindum. Ragna er ekki með nein áform um að skera niður bústofninn. Hún er með rúmlega 150 kindur.  

Bölvuð tófan

„Búskapurinn hefur gengið vel þrátt fyrir bölvaða tófuna sem á það til að leggjast á féð. Nýlega drap tófa fyrir mér fullorðna kind með því að bíta framan af snoppu hennar. Önnur kind drukknaði í ánni en lömbin hennar tvö lifðu af. Mig grunar að hún hafi verið að verja lömbin sín fyrir dýrbítnum og dottið aftur fyrir sig í ána. Lömbin lifðu af þannig að henni hefur tekist að verja þau. Það er mikið af tófu hér í nágrenninu. Þetta svæði heyrir undir refaskyttu á Hólmavík sem kemst engan veginn yfir það allt. Því fjölgar tófunni. Það sést varla kind lengur í heimalandinu. Þær eru flúnar í burtu undan refnum,“ segir Ragna.

Hún er lítið hrifin af þeirri verndarstarfsemi sem á sér stað varðandi tófuna. Í Súðavík er Melrakkasetur Íslands þar sem tófunni er hampað.

„Það er algengt að aka fram á minka og refi á leiðinni til Ísafjarðar. Og ástandið versnar eftir því sem nær dregur Súðavík. Á Melrakkasetrinu hafa menn haldið villt dýr, sem er bannað samkvæmt lögum. Dæmi er um að dýr hafi verið sótt í Heydal og haldið á Melrakkasetrinu yfir sumarið en síðan sleppt aftur. Þessi dýr sækja svo inn fyrir girðingar. Þegar búið er að kappala dýr þurfa þau að bjarga sér einhvern veginn. Þá er stutt í að þau sæki í fé,“ segir Ragna.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár