Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

„Ef maður er forseti þá er maður ekkert annað“

Flest benti til þess að Jón Gn­arr gæti orð­ið for­seti Ís­lands ef hann vildi það. Jón ákvað hins veg­ar að ger­ast rit­stjóri inn­lendr­ar dag­skrár hjá 365 miðl­um í stað­inn fyr­ir að fara á Bessastaði. Hann seg­ist ekki vilja vera um­tal­að­ur í sam­fé­lag­inu þeg­ar stemn­ing­in er leið­in­leg. Stund­in mælti sér mót við Jón í höf­uð­stöðv­um 365 í Skafta­hlíð og spjall­aði við hann um nýja starf­ið, eig­enda­vald, bók­ina sem hann var að ljúka við að skrifa og hvernig hann gat hafn­að Bessa­stöð­um.

Þetta hefur verið sérkennileg leið sem ég hef farið í lífinu; grínisti sem verður stjórnmálamaður og borgarstjóri í fjögur ár,“ segir Jón þegar spurt er hvernig þetta nýja starf hafi komið til. „Ég þurfti að finna sjálfan mig upp á nýtt eftir að hlutverkinu sem borgarstjóra lauk og það sem ég hef verið að gera síðan ég hætti því er að klára bók sem er þriðja bókin í æskuminningatrílógíu minni. Ég fæ mikið út úr því að skrifa en þegar ég er búinn að vera lengi í því þá langar mig að fara að gera eitthvað þveröfugt. Ýmsir hafa haft samband við mig og spurt hvort ég hefði áhuga á að koma að einhverri dagskrárgerð eða þáttagerð, en mér hefur ekki fundist ég vera tilbúinn í það að vera þar í aðalhlutverki. Reynsla mín af starfinu hjá borginni hefur dýpkað skilning minn á skipulagi og organíseringu og ég held hreinlega að það hafi vaxið nýjar heilabrautir í höfðinu á mér. Þegar þessi hugmynd kom upp að ég myndi starfa að innlendri dagskrá hér hjá 365 miðlum fannst mér hún frábær og ofsalega spennandi og hlakka til að takast á við þetta verkefni.“

Trúir ekki á frjálsan vilja

Hvert verður þitt hlutverk hér, nákvæmlega? 

„Ég er það sem væri kallað á ensku creative director en síðan er ég líka opin fyrir því að eiga input inn í allt sem hér er að gerast, á öllum miðlum, og mun hafa það. Ég lít meira á sjálfan sig sem þátttakanda í sköpuninni en stjórnanda og við erum í rauninni að búa þetta hlutverk til jafnóðum. Ég útiloka ekki að með tímanum verði ég þátttakandi með beinum hætti í dagskrárgerð hér. Ég fór til dæmis eftir að borgarstjóratíðinni lauk að skrifa sjónvarpsþætti fyrir RVK Studios, fyrirtækið hans Baltasars Kormáks, sem heita Borgarstjórinn og eru um mann sem er borgarstjóri í Reykjavík en er algjörlega fabrikkeraður karakter þótt ég muni leika hann. Mér finnst heillandi að leika mér með persónuleikann og sjálfsvitundina, að leyfa öðrum manneskjum að líkamnast í mér, ég held að það að vera leikari sé að mörgu leyti eins og að vera miðill. Ég er sem sagt að stíga út úr borgarstjórahlutverkinu en koma aftur inn í það með öðrum hætti.“

Maður hefur dálítið á tilfinningunni að allt sem þú gerir sé einhvers konar hlutverk, það veit enginn hver Jón Gnarr er í raunveruleikanum. 

„Sannleikurinn með hann, sem tengist baráttu minni fyrir staðfestingu á honum, er sá að ég hef takmarkaða trú á hugtakinu einstaklingur, ég held að sjálfið sé tilbúningur og frjáls vilji ekki til. Að því leyti er auðvitað allt sem við tökum okkur fyrir hendur eitthvert hlutverk. Ég hef oft sett mig í einhverjar aðstæður til þess eins að læra af þeim og þegar ég fylgist með Curiosity vélmenninu á Mars finn ég fyrir sterkri tengingu; ég hef oft upplifað mig þannig að mitt starf sé að fara um og safna upplýsingum, þótt ég viti ekki alveg hvað á að gera við þær. Það er líka gaman að breyta um og verða einhver önnur manneskja. Ég velti því til dæmis mjög mikið fyrir mér sem unglingur hvernig það væri að vera kona. Hvernig væri ég ef ég væri kona? Hvað myndi ég segja og hvað myndi mér finnast?“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu