Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Styðjum Bíó Paradís!

Margvísleg menningarstarfsemi fer fram í Reykjavík. Margt af því sem fær svolítinn hljómgrunn í þeirri litlu og fallegu borg fær kannski lítinn sem engan hljómgrunn annars staðar á okkar fámenna og strjálbýla landi. Af því má sjá hve menningarlífið í Reykjavík er mikilvægt fyrir landið allt.

Eitt af því sem gerir Reykjavík jafn eftirsóknarverða til búsetu og um leið svo verðmæta fyrir alla landsmenn og raun ber vitni, er að í Reykjavík eru starfrækt góð kvikmyndahús. Þar má fyrir lítið fé kaupa miða til að njóta bestu kvikmyndalistar veraldarinnar. Það eina sem þarf að gera eftir að miðinn hefur verið keyptur er að setjast niður í þægilegum kvikmyndasal og slökkva á farsímanum.

Eitt allra fremsta kvikmyndahúsið í Reykjavík heitir Bíó Paradís og er starfrækt í húsinu þar sem Regnboginn var starfræktur hér áður, neðarlega við Hverfisgötuna. Bíó Paradís er svonefnt listrænt kvikmyndahús og það er rekið með meiri menningarbrag en venjuleg kvikmyndahús. Þetta má sjá af kvikmyndaúrvalinu sem þar er sýnt.

Í vetur hef ég til dæmis séð frábærar nýjar leikhúsuppsetningar og kvikmyndir eftir leikritum Shakespeares í þessu bíói. Þessar myndir koma frá Englandi. Þá hef ég séð mjög góðar kvikmyndir víðs vegar annars staðar að úr veröldinni þar undanfarið: frá Rússlandi, Rúmeníu, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Grikklandi, Spáni, Kína, og Bandaríkjunum, svo að eitthvað sé nefnt.

Veislan heldur áfram. Á næstu dögum hefjast sýningar á kínverskri mynd í bíóinu sem ég hlakka til að sjá. Þá stendur yfir sýning á athyglisverðum þríleik, þriggja kvikmynda seríu, frá Portúgal. Margverðlaunað verk. Ég hef séð fyrstu myndina og er svolítið forvitinn að sjá framhaldið.

Í Bíó Paradís eru auk þess sýndar nýjar íslenskar kvikmyndir sem kannski komast lítið sem ekkert að annars staðar. Í vetur sá ég þar til dæmis þrjár nýjar kvikmyndir sem gerast á Vestfjörðum, tvær heimildamyndir og eina leikna mynd, allar saman ljómandi fínar myndir.

Rekstur svona kvikmyndahúss getur ekki verið auðveldur í jafn fámennri borg og höfuðstaður Íslendinga er. Aðstandendur kvikmyndahússins hafa því efnt til samskota til að styrkja rekstur kvikmyndahússins.

Allir kvikmyndaunnendur ættu að athuga hvort ekki sé rétt að styrkja Bíó Paradís um einhverja smá fjárhæð – og þeir sem ekki hafa keypt sér ársmiða í bíóið ættu að drífa sig sem allra fyrst að kaupa ársmiða sem gildir á kvikmyndasýningar í bíóinu.

Heimasíða bíósins er: www.bioparadis.is . Heimasíða fjársöfnunarinnar er: http://bioparadis.is/bio-paradis-seeks-friends/ .

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu